Hoppa yfir valmynd
12. mars 2002 Utanríkisráðuneytið

Fundur ráðherraráðs Evrópska efnahagssvæðisins

Nr. 020

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag fund ráðherraráðs Evrópska efnahagssvæðisins sem formaður EES/EFTA-ríkjanna. Josep Pique, utanríkisráðherra Spánar, var í forystu fyrir þríeyki Evrópusambandsins.

Á fundinum var m.a. fjallað um framkvæmd EES-samningsins og vakti utanríkisráðherra athygli á átaki EES/EFTA ríkjanna til að hraða upptöku nýrra gerða, samkomulagi þeirra við framkvæmdarstjórnina um gildistöku umdeildra gerða t.d. um barnamat og líftækniuppfinningar og um Bókun 3 um unnar landbúnaðarafurðir. Þessi árangur á undanförnum mánuðum endurspeglar viðleitni EES/EFTA-ríkjanna til að tryggja áframhaldandi snurðulausa framkvæmd samningsins. Á hinn bóginn benti utanríkisráðherra jafnframt á að miklu skipti að ESB drægi ekki að færa orkumarkaðinn í frjálsræðisátt, og nefndi þar sérstaklega tilskipanir um raforku og gas, og vakti athygli á því að ekkert hefði þokast í viðræðum um hugsanlega endurskoðun Bókunar 9 um viðskipti með sjávarafurðir.

Utanríkisráðherra lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þátttöku fulltrúa EES/EFTA-ríkjanna í starfi nefnda sem undirbúa lagasetningu sem varðar EES, enda gæfist þar tækifæri ríkjanna þriggja til beinna áhrifa sem aftur auðveldar innleiðingu EES-reglna í landsrétt síðar. Í því sambandi benti hann á nauðsyn þess að gera ráð fyrir þátttöku fulltrúa EES/EFTA-ríkjanna í nýrri ráðgjafarnefnd um heilbrigði og öryggi á vinnustöðum. Af sama tilefni ítrekaði hann ósk EES/EFTA-ríkjanna um þátttöku í störfum nýrra sérstofnana ESB, einkum þeirra sem fara með matvælaöryggi, flugöryggi og öryggi á sjó.

Utanríkisráðherra vísaði til nýlegra umræðna um hugsanlega uppfærslu á EES-samningnum og lagði áherslu á að af hálfu EES/EFTA-ríkjanna hefði einungis verið fjallað um hugmyndir um tæknilega uppfærslu til samræmis við viðeigandi breytingar í Maastricht- og Amsterdam-samningunum. Markmiðið væri að tryggja einsleitni innri markaðarins. Einstakt tækifæri til fullgildingar uppfærslu gæfist í tengslum við fyrirsjáanlega stækkun EES.

Í umræðum um stækkun EES áréttaði utanríkisráðherra mikilvægi þess að innganga nýrra aðildarríkja ætti sér stað samtímis í ESB og EES, þannig að einsleitni innri markaðarins yrði ekki raskað og fagnaði því að viðræður sérfræðinga beggja aðila um tilhögun stækkunar væru komnar vel á veg. Í þessu samhengi benti hann á að fríverslunarsamningar EFTA við umsóknarríki myndu falla úr gildi við aðild þeirra að ESB og þar með myndi markaðsaðgangur fyrir sjávarafurðir frá EES/EFTA-ríkjunum versna. Miklu skipti að stækkun yrði ekki til þess að reisa nýjar viðskiptahindranir innan EES.

Í aðdraganda leiðtogafundar ESB í Barselóna var fjallað um svonefnt Lissabon-ferli samtakanna, sem miðar að því að ESB verði samkeppnishæfasta efnahagssvæði heims fyrir árið 2010, og ítrekaði utanríkisráðherra áhuga EES/EFTA-ríkjanna á ferlinu sem þátttakenda á innri markaðnum. Hann minnti á sérstaka aðgerðaráætlun ríkjanna þriggja og athugasemdir og upplýsingar frá þeim sem hefur verið komið á framfæri við formennskuríki ESB vegna undirbúnings Barselóna-fundarins.

Hefðbundin pólitísk skoðanaskipti um alþjóðamál snérust að þessu sinni um aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi og ástand og horfur í Mið-Austurlöndum og á vestanverðum Balkanskaga.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 12. mars 2002.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta