Hoppa yfir valmynd
12. mars 2002 Matvælaráðuneytið

Samstarfsvettvangur um heilbrigðistækni

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra




Ávarp á ársfundi
"Samstarfsvettvangs um heilbrigðistækni"
Grand Hótel, þriðjudaginn 12. mars 2002



Fundarstjóri, ágætu fundarmenn.

Mér er það minnisstætt þegar við hittumst fyrir tveimur árum á Vífilsstaðaspítala, til að undirrita samning um "Samstarfsvettvang um heilbrigðistækni".

Markmiðið var vel skilgreint: Að stuðla að aukinni þróun og útflutningi heilbrigðistæknilausna og koma til móts við þarfir heilbrigðiskerfisins fyrir hagkvæmari og betri úrlausnir. Samstarfsvettvangurinn skapaði vettvang samskipta og samstarfs milli heilbrigðisstofnana annarsvegar og fyrirtækja og einstaklinga í tækniiðnaði fyrir heilbrigðiskerfið hinsvegar.

Að afloknum stofnfundinum voru kynntar afurðir Flögu og mér eru í fersku minni áhugaverðar umræður um mælingar á taugaboðum sofandi manna, umræður um kæfisvefn og fleira. Vegna þessa hafa fréttir af þróun mála hjá Flögu ætíð vakið sérstaka athygli mína, nú síðast samruninn við bandaríska fyrirtækið RedMed, sem væntanlega mun veita nýjum straumum og sóknarfærum inn í þessa atvinnugrein hér heima.

Umræðan sem skapaðist kringum undirbúning og stofnun þessa samstarfsvettvangs og síðan rekstur hans, hefur einnig orðið til þess að iðnaðarráðuneytið hefur haft markmið hans um útrás á erlendar grundir í huga. Iðnaðarráðuneytið hefur þannig tekið málefni heilbrigðistæknivettvangsins upp á fundum Norrænna embættismanna sem fjalla um nýsköpun atvinnulífsins og einnig hefur verið fjallað um málefni hans í stjórn Norræna iðnaðarsjóðsins. Ég vænti þess að áframhald geti orðið á stuðningi þessara norrænu aðila, einkum ef vel tekst til með hið norræna netsamstarf sem nú nýlega hefur verið lagður grunnur að.

Einkum horfi ég fram til ársins 2004 þegar Ísland verður með formennsku í norrænu samstarfi, því að af okkar hálfu hefur komið til greina að leggja þá áherslu á klasasamstarf innan valinna áherslusviða, sem geta gefið Norðurlöndunum forskot á hinum alþjóðlega samkeppnismarkaði viðskipta. Vissulega er heilbrigðistæknin eitt þessara sviða sem iðnaðarráðuneytið mun skoða vandlega þegar það leggur línurnar í áherslum sínum á formennskuárinu.

Þessi væntanlega áhersla á klasasamstarf á sér rætur í þeirri stefnu norrænu iðnaðarráðherranna að Norðurlöndin verði eitt samfellt þekkingarsvæði þar sem miðlun þekkingar og reynslu verði í framtíðinni jafngreið og hún er nú innan landamæra landanna. Liður í því gæti þá verið að við Íslendingar settum okkur það markmið að koma upp norrænu klasasamstarfi á sviði heilbrigðistækni.

Ástæðan er sú að við teljum að heilbrigðistækni sé mjög álitlegur kostur til áþreifanlegs árangurs, einkum ef okkur tekst vel með norrænu forverkefnin sem nú eru að stíga sín fyrstu spor.

Ég hef því ástæðu til að óska ykkur til hamingju með árangurinn fram að þessu og varla fer það á milli mála að ég bind miklar vonir við áframhaldandi starf ykkar á þessum vettvangi.

Takk fyrir.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta