Fundir utanríkisráðherra í Þýskalandi
Nr. 21
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, fundaði í gær með Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands. Ræddu þeir um Evrópumál almennt og Halldór Ásgrímsson vék sérstaklega að þeim vandamálum sem samfara eru stækkun ESB, sér í lagi lakari fríverslun með fisk og fiskafurðir. Ráðherrarnir ræddu einnig um hið alvarlega ástand fyrir botni Miðjarðarhafs, næstu skref í baráttunni gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og fund Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík í maí.
Síðdegis undirritaði utanríkisráðherra fyrir hönd menntamálaráðherra samning þess efnis að íslensk stjórnvöld deili kostnaði við lektorsstöðu í íslensku með Humboldt háskólanum í Berlín. Um kvöldið átti utanríksráðherra fund með Hans Ulrich Klose, formanni utanríkismálanefndar Bundestag, ásamt þingmönnum annarra flokka úr nefndinni.
Í dag mun utanríkisráðherra flytja erindi um stöðu Íslands í Evrópu við hina virtu stofnun Deutsche Gesellschaft für Auswärtige Politik. Í erindi sínu mun ráðherra skýra með hvaða hætti sameiginleg sjávarútvegsstefna ESB stendur í vegi fyrir því að Ísland og önnur ríki Norð-vestur Evrópu eigi þess kost að sækja um aðild að sambandinu. Erindið er hjálagt.
Opinberri heimsókn utanríkisráðherra til Þýskalands lýkur í kvöld að afloknum fundum með Klaus Wowereit, borgarstjóra Berlínar, Wolfgang Thierse, forseta Bundestag, Dieter Kastrup, ráðgjafa kanslara Þýskalands í öryggis- og utanríkismálum og Dr. Friedbert Flüger, formanni Evrópunefndar Bunderstag.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 14. mars 2002
Ræða ráðherra hjá Deutsche Gesellschaft für Auswärtige Politik (á ensku og þýsku).