Fréttapistill vikunnar 9. - 15. mars 2002
Fréttapistill vikunnar
9. - 15. mars 2002
Alþingi: Rætt um breytingar á skiptingu ríkis og sveitarfélaga á stofnkostnaði og kostnaði við meiri háttar viðhald heilbrigðisstofnana
Árlegur kostnaður sveitarfélaga vegna nýframkvæmda, viðhalds og tækjakaupa á sjúkrahúsum og heilsugæslustöðvum er um 100 m.kr. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði á Alþingi í vikunni fyrirspurn um það hvort fyrirhugaðar séu breytingar á ákvæðum laga um heilbrigðisþjónustu varðandi skiptingu ríkis og sveitarfélaga á þessum kostnaði. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu greiðir ríkissjóður 85% af kostnaðinum en sveitarfélögin 15%. Ráðherra vísaði í svari sínu til tillagna nefndar sem félagsmálaráðherra skipaði í janúar 2001 til að yfirfara verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga í samræmi við tillögur tekjustofnanefndar. Í niðurstöðum nefndarinnar kemur fram að aðeins um helmingur sveitarfélaga ber reglulegan kostnað vegna þessa lagaákvæðis. Tillögur nefndarinnar eru þær helstar að sveitarfélögin verði alfarið leyst undan þessu verkefni, kostnaðarábyrgðin flutt til ríkisins og að samið verði um það milli ríkis og sveitarfélaga hvernig mætt verði þeim kostnaði sem með því flyst frá sveitarfélögum til ríkisins. Að mati nefndarinnar kemur til álita að verkefni verði flutt frá ríki til sveitarfélaga til að mæta kostnaðinum að hluta eða öllu leyti. Ráðherra sagði að breytingar á verkaskiptingu í samræmi við tillögur nefndarinnar yrðu að grundvallast á samkomulagi ríkis og sveitarfélaga hvernig tilflutningi á kostnaði yrði háttað og því væri ekki hægt að segja á þessu stigi hvenær þessar breytingar koma til framkvæmda.
MEIRA....
Alþingi: Rætt um greiðsluþátttöku heilbrigðiskerfisins vegna húðflúrsmeðferðar í kjölfar aðgerðar vegna brjóstakrabbameins
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að beina erindi til samninganefndar um greiðsluþátttöku almannatrygginga vegna heilbrigðisþjónustu, um möguleika þess að almannatryggingar taki þátt í kostnaði vegna húðflúrs sem stundum er beitt í kjölfar aðgerðar vegna brjóstakrabbameins. Þegar þurft hefur að fjarlægja brjóst hjá konum vegna brjóstakrabbameins hafa lýtalæknar stundum óskað eftir lagfæringu á vörtubaugum með húðflúri að meðferð lokinni til að ná sem eðlilegustu útliti brjósts. Húðflúrarar eru ekki heilbrigðisstétt og hefur Tryggingastofnun ríkisins talið sér algjörlega óheimilt að taka þátt í kostnaði vegna þessa. Ráðherra segir hins vegar skilning fyrir þessu máli og ætlar að beina erindi til samninganefndarinnar um að kannað verði ofan í kjölinn hvernig unnt sé að mæta þessum óskum. Telur hann húðflúrsmeðferð af þessu tagi helst koma til greina sem hluti af störfum lýtalæknis.
MEIRA...
Kæra sjúkraþjálfara til Samkeppnisstofnunar- ekki talin ástæða til aðgerða
Samkeppnisstofnun hefur fjallað um mál sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfara sem kvörtuðu til stofnunarinnar vegna samkeppni frá opinberum og hálfopinberum stofnunum. Niðurstaða Samkeppnisstofnunar er sú að ekki sé um brot á samkeppnislögum að ræða. Kæra sjúkraþjálfara var tvíþætt. Annars vegar að sjúkraþjálfun á opinberum stofnunum væri í samkeppni við sjúkraþjálfara í einkarekstri. Hins vegar kvörtuðu þeir yfir því að sjúkraþjálfara sem starfa á opinberum stofnunum fá afnot af aðstöðu á vinnustað og taka þar sjúklinga í þjálfun. Kröfðust þeir þess að fjárhagslegur aðskilnaður yrði gerður milli sjúkraþjálfunar inni á sjúkrastofnunum og annarrar starfsemi. Tryggingastofnun studdi sjónarmið sjúkraþjálfara í greinargerð til Samkeppnisstofnunar en sem fyrr segir taldi Samkeppnisstofnun ekki ástæðu til aðgerða.
Ráðstefna um hreyfingarleysi og offitu, 21. mars
Ráðstefna um hreyfingarleysi og offitu verður haldin á Hótel Loftleiðum 21. mars nk. Ofþyngd og offita meðal fólks á Vesturlöndum hefur aukist verulega og er það m.a. rakið til þess að fólk hreyfir sig minna en áður. Tilgangur ráðstefnunnar er að vekja athygli á offituvandamálinu og vekja umræður um meðhöndlun, forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir. Meðal fyrirlesara eru sérfræðingar á þessu sviði frá Finnlandi og Kanada, auk sérfróðra innlendra fyrirlesara.
DAGSKRÁIN...
Tilmæli Lyfjastofnunar til lækna um að gæta vel að óútfylltum lyfseðilseyðuböðum
Lyfjastofnun beinir þeim tilmælum til lækna að þeir aðgæti mjög umgengni sína við lyfseðilseyðublöð þar sem gera meig ráð fyrir að þau séu mun eftirsóknarverðari en áður fyrir þá sem hyggjast svíkja út lyf. Lyfseðlum var breytt í fyrra, m.a. vegna þess að tilraunum til að falsa þá með því að ljósrita þá eða skanna hafði fjölgað mjög. Nýju lyfseðlarnir eru með vatnsmerki og föslun því mun erfiðari en áður. Í tilkynningu Lyfjastofnunar er áhersla lögð á að læknar gæti vel að óútfylltum lyfseðlum, þá beri að geyma í læstum hirslum og halda skrá yfir notkun þeirra.
15. mars 2002