Hoppa yfir valmynd
22. mars 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 16. -22. mars 2002


Fréttapistill vikunnar
16. - 22. mars 2002



Bið eftir heyrnarmælingum og heyrnartækjum hjá HTÍ hefur styst um helming á tæpu ári

Miklar breytingar hafa orðið á starfsemi HTÍ á undanförnum mánuðum og hefur náðst verulegur árangur í því að stytta bið eftir þjónustu og heyrnartækjum. Fyrir tæpu ári biðu á milli 1400 og 1600 manns eftir heyrnartækjum en nú eru um 850 á biðlista. Þá hefur tíminn sem fólk þarf að bíða eftir tækjum styst um helming. Fyrir tæpu ári þurfti fólk að bíða í fjóra til sex mánuði eftir því að komast í heyrnarmælingu en biðtíminn nú er um 2 mánuðir. Að sögn Pálínu Reynisdóttur, skrifstofu- og fjármálastjóra HTÍ má þakka þennan árangur breyttu og bættu skipulagi á starfsemi stöðvarinnar en síðast en ekki síst hafi starfsfólk lagst á eitt til að vinna á biðlistunum og lagt á sig aukna vinnu. Húsnæði stöðvarinnar hefur verið endurbætt og meðal annars hefur verið komið upp betri aðstöðu fyrir börn, en árlega heimsækja HTÍ um 1.500 skjólstæðingar yngri en 18 ára. Á næstunni verður opnað nýtt útibú Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar á Akureyri. Þar munu starfa heyrnarfræðingur og háls-, nef- og eyrnalæknir í hlutastarfi, auk aðstoðarmanns. Á morgun, laugardaginn 23. mars verður opið hús hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni frá kl. 13:00 - 16:00 þar sem almenningi gefst kostur á að kynna sér starfsemina. Árlega leita yfir tíu þúsund manns á öllum aldri til stöðvarinnar í læknisskoðanir, heyrnarmælingar, hlustarmótatöku og til að fá fræðslu og ráðgjöf við kaup á heyrnartækjum. Framkvæmdastjóri HTÍ er Sigríður Snæbjörnsdóttir og í framkvæmdastjórn stöðvarinnar sitja ásamt henni Ingibjörg Hinriksdóttir, yfirlæknir við HTÍ og Pálína Reynisdóttir, skrifstofu- og fjármálastjóri. Í dag var formlega opnaður nýr upplýsingavefur stöðvarinnar og er netfangið: http://www.hti.is

Byggð verði 400 - 450 ný hjúkrunarrými fyrir aldraða á tímabilinu 2002 - 2007
Taka þarf í notkun 400 - 450 ný hjúkrunarrými til loka árs 2007, langflest á höfuðborgarsvæðinu, til að mæta mjög brýnni þörf aldraðra fyrir hjúkrunarrými. Þetta er mat heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem fram kemur í nýrri skýrslu ráðuneytisins; Áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu 2002 - 2007. Ráðuneytið leggur áherslu á að samhliða uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma verði þjónusta við aldraða utan stofnana efld og fólki sköpuð skilyrði til að búa sem lengst á eigin heimilum. Hlutfall aldraðra á öldrunarstofnunum er mun hærra hér á landi en hjá nágrannaþjóðum okkar en hefur heldur lækkað á undanförnum árum. Samhliða uppbyggingu hjúkrunarrýma á árunum 2002 - 2007 er lagt til að dagvistarrýmum á landinu verði fjölgað um 135. Í áætlun ráðuneytisins er reiknað með að nægilegt sé að taka í notkun 20 - 30 ný hjúkrunarrými á ári á árunum 2007 - 2010. Áætlaður kostnaður við framkvæmdir og rekstur nýrra hjúkrunarrýma í samræmi við áætlun ráðuneytisins 2002 - 2007 nemur tæpum 6,6 milljörðum króna á verðlagi þessa árs.
Áætlun um uppbyggingu öldrunarþjónustu 2002 - 2007 pdf.skjal...

Samstarf ríkis og Reykjavíkurborgar til að tryggja hámarksnýtingu fjárveitinga til uppbyggingar hjúkrunarrýma
Ákveðið hefur verið að setja á fót stýrihóp með fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og Reykjavíkurborgar til að fara yfir áætlanir um fjölgun hjúkrunarrýma, varpa ljósi á fjármögnun og fjármögnunarleiðir og samræma áform opinberra aðila sem koma að málaflokknum. Stefnt er að því að hópurinn ljúki vinnu sinni í lok apríl. Fulltrúar Reykjavíkurborgar í stýrihópnum eru Helgi Hjörvar, borgarfulltrúi og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Félagsþjónustunnar í Reykjavík en fulltrúar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins eru Elsa B. Friðfinnsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra og Hrafn Pálsson, deildarstjóri öldrunarmála. Í framhaldi af vinnu stýrihópsins er stefnt að því að skoða samstarf Félagsþjónustu Reykjavíkur og heimahjúkrunar á vegum heilsugæslunnar í Reykjavík með það að markmiði að auka samstarf og bæta heilsuvernd aldraðra í heimahúsum, með hliðsjón af markmiðum í heilbrigðisáætlun til ársins 2010.

Aðgerðir vegna viðbótarkostnaðar sem leggst á lyf sem fallið hafa af sérlyfjaskrá en eru áfram í notkun
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, svaraði á Alþingi fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússon, en hann spurði ráðherra hvort hann hefði í hyggju að grípa til einhverra aðgerða vegna þess viðbótarkostnaðar sem leggðist á lyf sem fallið hefðu út af sérlyfjaskrá en væru áfram í notkun. Heilbrigðisráðherra sagði meðal annars þetta: "Ýmsar ástæður hafa orðið þess valdandi á undanförnum árum, að þekkt gömul og rótgróin lyf, innlend sem erlend, hafa verið tekin af markaði. Ýmist er það vegna þess að innlendi markaðurinn er lítill, framlegð af sölu lyfjanna lítil sem engin eða framleiðendur þeirra hráefna sem notuð hafa verið til framleiðslunnar hafa hætt framleiðslu þeirra. Ráðuneytið hefur lýst sig fúst til að koma til móts við innlenda framleiðendur eftir því sem unnt er til að halda umræddum lyfjum á markaði, án þess að dregið verði úr þeim kröfum sem til lyfja eru gerðar. Á meðan þessi mál eru ekki til lykta leidd, hafa verið veittar undanþágur á heimild til innflutnings á þessum lyfjum. Slíkt leiðir til hærri kostnaðar, en erlendir framleiðendur þessara lyfja hafa hvorki ljáð máls á markaðssetningu þeirra hérlendis né samstarfi við innlenda framleiðendur, sökum smæðar markaðarins og þeim kostnaði sem því fylgir að sækja um markaðsleyfi fyrir lyf." Fram kom í máli heilbrigðismálaráðherra að ýmsir hefðu vakið athygli ráðuneytisins á málinu og vanda sem því tengdist og væri verið að vinna að lausn í samstarfi ráðuneytisins og Lyfjastofnunar.

Nýgengi HIV smits vaxandi frá árinu 1993 en dregið hefur úr nýgengi alnæmis
Alls hafa 154 einstaklingar greinst með HIV smit hér á landi, 52 hafa greinst með alnæmi og 35 hafa látist af völdum sjúkdómsins. Þetta kemur fram í nýjum upplýsingum sóttvarnarlæknis. Árið 2001 greindust níu karlar og tvær konur með HIV smit og einn sjúklingur greindist með alnæmi. Nýgengi HIV smits hefur farið vaxandi frá árinu 1993 en á sama tíma hefur dregið úr nýgengi alnæmis og dánartalan hefur lækkað, einkum frá árinu 1996 en í byrjun þess árs kom til sögunnar öflug lyfjameðferð gegn HIV sýkingu. Andstætt því sem var í upphafi alnæmisfaraldursins eru flestir þeirra sem nú greinast með sjúkdóminn gagnkynhneigðir. Flestir þeirra sem greinst hafa með HIV smit eru á aldrinum 25 - 29 ára en þeir sem greinst hafa með alnæmi eru flestir á aldrinum 35 - 39 ára. Sóttvarnarlæknir leggur ríka áherslu á að þótt öflug lyfjameðferð gegn HIV sýkingu hafi skilað árangri greinast enn sjúklingar með alnæmi og fólk deyr af völdum sjúkdómsins. Sumir sjúklingar þola ekki lyfjameðferð og hjá nokkrum þeirra hefur veiran myndað ónæmi gegn lyfjunum. Höfuðnauðsyn er að forðast smit. Lyfjameðferð er ævilöng og reynist mörgum erfið og er jafnframt afar dýr þjóðfélaginu. Sóttvarnarlæknir segir að því sé brýn nauðsyn að efla forvarnir gegn HIV smiti með öllum tiltækum ráðum.
MEIRA...

Hlutfall of feitra Íslendinga hefur tvöfaldast á 18 árum
Hlutfall þeirra sem teljast of feitir hefur tvöfaldast á átján árum, samkvæmt nýrri íslenskri rannsókn. Önnur rannsókn sýnir að tæplega 5% af 9 ára börnum teljast haldin offitu. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, ræddi um aðgerðir gegn offitu á ráðstefnu um hreyfingarleysi og offitu sem haldin var í vikunni. Ráðherra minnti á þá fylgikvilla sem komið geta í kjölfar offitu og hreyfingarleysis, s.s. sykursýki, hjarta- og æðasjúkdóma auk sálrænna og félagslegra vandamála. Hann sagði mikilvægt að venja börn strax í æsku við holla lífshætti, hæfilega hreyfingu og hollt mataræði því þannig mætti koma í veg fyrir hugsanleg heilbrigðisvandamál síðar. ,,Vilmundur Jónsson, landlæknir, skrifaði fyrir u.þ.b. 70 árum að mesta bylting í heilbrigðismálum hverrar þjóðar fælist í að opna augu hennar fyrir því hversu mikið hún getur sjálf lagt að mörkum til að bæta heilbrigði sitt. Þessi orð eiga ekki síður við í dag en á fyrri hluta síðustu aldar." Ráðherra minntist ennfremur á áform um stofnun Lýðheilsustöðvar þar sem sameinuð verður öll starfsemi sem unnin er á sviði forvarna á vegum heilbrigðisyfirvalda í því skyni að sameina þekkingu, krafta og úrræði þeirra sem vinna að forvörnum. Einnig sagði hann: ,,En forvarnir og heilsuefling eru ekki bundnar við eina stofnun eða miðstöð. Forvarnir felast í því að fá samfélagið allt til að taka höndum saman um að samræma aðgerðir til að bæta aðstöðu og breyta viðhorfi í samfélaginu. Öll vinna sem hvetur til hollara lífshátta hvar sem hún er innt af hendi hvort sem er af einstaklingum, félagasamtökum, skólum, fyrirtækum eða heilbrigðiskerfinu hefur gildi bæði fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið í heild. Mikilvægi skólakerfisins og íþróttahreyfingarinnar verður hér seint ofmetið."
RÆÐA RÁÐHERRA...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
22. mars 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta