Hoppa yfir valmynd
22. mars 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Frumvarp til laga um Umhverfisstofnun


Á ríkisstjórnarfundi í morgun var samþykkt að lagt yrði fram frumvarp til laga á Alþingi um stofnun sérstakrar Umhverfisstofnunar.

Rétt þykir að sameina stjórnsýslustarfsemi þeirra stofnana sem fara með mengunarvarnir, hollustuhætti, náttúruvernd, dýrarvernd og stjórn á stofnstærð villtra dýra undir eina stofnun. Umhverfisráðuneytið telur mikilvægt að þeir þættir sem falla undir starfsemi Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Veiðistjóraembættisins, Hreindýraráðs og Dýraverndarráðs verði sameinaðir í nýrri stofnun, Umhverfisstofnun. Verkefni Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins, Veiðistjóraembættisins og Hreindýraráðs eru fyrst og fremst á sviði stjórnsýslu. Auk þess mun Umhverfisstofnun annast framkvæmd alþjóðlegra samninga hér á landi á sviði mengunarvarna og náttúruverndar sem í dag eru í höndum Hollustuverndar ríkisins, Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Markmiðið með sameiningu áðurnefndra málaflokka undir einni stofnun í stað þriggja stofnana og tveggja ráða er fyrst og fremst að einfalda og styrkja stjórnsýsluna, gera hana skilvirkari og þar með auka réttaröryggið í landinu. Enn fremur að efla stofnanir ráðuneytisins faglega og stuðla að aukinni hagkvæmni í rekstri. Með því á að vera auðveldara að sækja fram og ná fram þeim stefnumiðum sem stjórnvöld hafa sett sér við framkvæmd umhverfismála.

Stofnanaskipting umhverfisráðuneytisins byggir að verulegu leyti á gömlum grunni frá því áður en umhverfisráðuneytið var stofnað, en fram að stofnun umhverfisráðuneytisins heyrðu þessar stofnanir undir mismunandi ráðuneyti. Tímabært og eðlilegt er að endurskipuleggja stofnanaskiptingu ráðuneytisins nú eftir rúmlega áratugs starfsemi þess.

Gert er ráð fyrir því að Umhverfisstofnunin verði með aðsetur í Reykjavík. Hins vegar er gert ráð fyrir því að hluti starfseminnar verði út á landi. Þannig yrði starfsemi sú sem veiðistjóri annast rekin áfram á Akureyri, og starfsemi á sviði hreindýramála á Austurlandi. Starfsemi í þjóðgörðum og landvarsla verður einnig áfram rekin á landsbyggðinni. Mikilvægt er að starfsemi Umhverfisstofnunar sem verður í Reykjavík verði frá byrjun í sama húsnæði þannig að hægt verði að samþætta starfsemina sem allra mest strax í upphafi. Því er gert ráð fyrir stofnunin fari í sameiginlegt húsnæði þegar lögin taka gildi sem ætlað er að verði 1. janúar 2003.

Fréttatilkynning nr. 4/2002
Umhverfisráðueytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta