Forsætisráðherra til Víetnam
Frétt nr.: 10/2002
Opinber heimsókn forsætisráðherra til Víetnam
Forsætisráðherra hefur þekkst boð Phan Van Kai, forsætisráðherra Víetnam, um að fara í opinbera heimsókn til landsins. Mun heimsóknin standa yfir dagana 3. til 6. apríl nk. Með heimsókninni er endurgoldin heimsókn fv. forsætisráðherra Víetnam hingað til lands í júní 1995. Með í för verður viðskiptasendinefnd undir forystu Útflutningsráðs Íslands, sem í verða fulltrúar um 15 fyrirtækja sem ýmist hyggja á eða stunda viðskipti við Víetnam. Mun viðskiptasendinefndin sitja sérstakt íslenskt-víetnamskt viðskiptaþing og eiga fundi með víetnömskum fyrirtækjum. Í heimsókninni verður undirritaður tvísköttunarsamningur milli ríkjanna og sérstök yfirlýsing um að hvetja til og greiða fyrir auknum viðskiptum þeirra í milli.
Forsætisráðherra mun heimsækja höfuðborgina Hanoi og Ho Chi Minh borg, og m.a. eiga viðræður við forsætisráðherra landsins, forseta og forseta þings Víetnam.
Með forsætisráðherra í för verða einkona hans, embættismenn í forsætisráðuneyti og fulltrúi viðskiptaþjónustu utanríkisráðuneytisins.
26. mars 2002