Lækkun bensíngjalds
Frétt nr.: 11/2002
Yfirlýsing ríkisstjórnar um lækkun bensíngjalds
Að undanförnu hefur bensínverð farið hækkandi á heimsmarkaði. Þessi hækkun er talin tímabundin og árstíðatengd og búist við að hún muni ganga til baka á næstu mánuðum. Hins vegar er ljóst að áhrif slíkrar hækkunar á bensínverð hér innanlands geta verið umtalsverð og stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninganna í hættu.Ríkisstjórnin telur mikilvægt að allir leggi sitt af mörkum til þess að tryggja áframhaldandi stöðugleika á vinnumarkaði. Þess vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að lækka bensíngjald um 1,55 krónur, eða úr 10,50 í 8,95 krónur á hvern bensínlítra. Þetta mun hafa í för með sér rúmlega 1,90 króna lækkun á útsöluverði bensíns. Ákvörðunin gildir til júníloka og kostar ríkissjóð um 80 m.kr.
Þessi ákvörðun er tekin í trausti þess að olíufélögin leggi jafnframt sitt af mörkum til þess að tryggja verðlagsmarkmið kjarasamninganna þannig að ekki komi til bensínverðshækkunar um næstu mánaðamót.
Í Reykjavík, 27. mars 2002