Fréttapistill vikunnar 6. - 12. apríl 2002
Fréttapistill vikunnar
6. - 12. apríl 2002
Varsla amfetamíns var aðeins leyfileg lyfsölum og brot gegn því refsiverð
Innflutningur, varsla og sala amfetamíns var og er refsiverð. Þetta er niðurstaða dóms Hæstaréttar sem féll í gær. Niðurstaðan byggist á 3. gr. laga um ávana- og fíkniefni en samkvæmt henni er innflutningur, varsla og sala amfetamíns refsiverð. Héraðsdómur hafði áður komist að annarri niðurstöðu en á báðum dómstigum var hafnað gæsluvarðhaldskröfu yfir manni sem handtekinn var í janúar sl. vegna innflutnings, vörslu og sölu á fimm kílóum af amfetamíni. Hæstiréttur hafnaði gæsluvarðhaldskröfunni hins vegar á þeirri forsendu að ekki hefði verið skilyrði til að beita gæsluvarðhaldi á grundvelli laga um meðferð opinberra mála.
DÓMURINN...
LSH og FSA vinna að gerð samnings um starfsmannaskipti, þjálfun starfsmanna og frekari samvinnu
Forstjóri Landspítala - háskólasjúkrahúss vill efla samstarf við landsbyggðina. Í bréfi forstjórans til starfsmanna nýlega kemur fram að í burðarliðnum er samningur við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þessa efnis. Í samningnum er m.a. fjallað um þjálfun starfsmanna, starfsmannaskipti o.fl. Í bréfinu er einnig sagt frá samkomulagi milli LSH og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem verið er að ganga frá um að barnalæknar sjúkrahússins veiti þjónustu út um land í því skyni að færa þessa mikilvægu þjónustu nær íbúunum. Forstjóri LSH víkur einnig að því í bréfi sínu að hann viljið ráðfæra sig í auknum mæli við sjúklinga og almenning um viðhorf til spítalans, hvað vel sé gert og hvað megi bæta. Hyggst hann funda með samtökum sjúklinga um þessi mál og ræða hvernig best megi tryggja réttindi sjúklinga og góða almenna þjónustu.
MEIRA...
Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um öldrun í Madríd á Spáni - aðgerðaáætlun um breytta aldurssamsetningu mannkyns
Jarðarbúum sem komnir eru yfir sextugt fjölgar um tvö prósent á ári hverju. Talið er að árið 2050 verði þeir sem eru sextugir og eldri orðinn fimmtungur af heildarfjölda mannkyns og fleiri en þeir sem eru undir fimmtán ára aldri. Þetta kom fram í setningarathöfn ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um öldrun sem hófst í Madríd á Spáni á mánudaginn. Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ sagði í ávarpi sínu engan vafa á að breytt aldurssamsetning mannkyns muni reynast þróunarlöndum þung í skauti. Þetta er önnur ráðstefna SÞ um öldrun en sú fyrri var haldin í Austurríki árið 1982. Ráðstefnan á að standa í viku og er meginverkefnið að setja saman stefnuskrá sem aðildarríki SÞ geta nýtt sér við ákvarðanir og stefnumótun í málefnum aldraðra. Þá standa vonir til þess að á ráðstefnunni takist að ljúka aðgerðaáætlun um það hvernig bregðast megi við breyttri aldurssamsetningu mannkyns.
Samanburðarrannsókn á heilsu kvenna í ólíkum starfsstéttum
Nú er að hefjast viðamikil samanburðarrannsókn á heilsufari kvenna í hópi grunnskólakennara, flugreyja og hjúkrunarfræðinga. Rannsóknin miðar að því að skoða hvort og þá hvaða áhrif starfsumhverfi og vinnuálag þessara starfsstétta hefur á heilsufar þeirra. Sendir verða út spurningalistar til 1.500 kvenna og er reiknað með að niðurstöður liggi fyrir næsta haust. Rannsóknin er gerð í samvinnu við stéttarfélög viðkomandi starfsstétta, Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Vinnueftirlit ríkisins. Áætlaður kostnaður við rannsóknina er um fimm milljónir króna. Stjórnandi verkefnisins er dr. Herdís Sveinsdóttir, dósent við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Landlæknisembættið vinnur að nýju kerfi sem á að auðvelda eftirlit með lyfjagjöf og útskrift lyfja Landlæknisembættið ætlar á næstu vikum að herða eftirlit með sterkum verkjalyfjum og ofvirknilyfinu ritalíni. Neysla þessara lyfja hefur aukist verulega á undanförnum árum og brögð hafa verið að því að fíklar noti verkjalyf og sprauti þeim í æð. Í apríl í fyrra var notkun lyfjakorta hætt, en fram að því kvittuðu læknar í lyfjakort og gátu því séð hvenær sjúklingur hafði síðast fengið lyf. Eftir breytinguna hefur notkun ritalíns til að mynda tvöfaldast og ábendingum um að lyfið sé notað sem fíkniefni hefur fjölgað. Hjá landlæknisembættinu er nú verið að skoða leiðir til að herða eftirlit með notkun sterkra verkalyfja og ritalíns og m.a. kemur til greina að breyta reglum um eftirlit að einhverju leyti til fyrrra horfs. Fræðsluverkefni um kampýlóbaktersýkingar og fræðslu- og forvarnarverkefnið Geðrækt tilnefnd til norrænna lýðheilsuverkefna Landlæknisembættið hefur tilnefnt tvö íslensk verkefni til norrænu lýðheilsuverðlaunanna sem veitt eru ár hvert. Þetta eru fræðsluverkefni um kampýlóbaktersýkingar og fræðslu- og forvarnarverkefnið Geðrækt sem hrundið var af stað í október 2000 og stendur enn yfir. Kampýlóbakterverkefnið var unnið á vegum sóttvarnarlæknis, landlæknisembættisins, Landspítala - háskólasjúkrahúss og Hollustuverndar ríkisins. Geðræktarverkefnið sem fjallar um geðheilsu og áhrifaþætti hennar er á vegum landlæknisembættisins, Geðhjálpar, geðsviðs Landspítala - háskólasjúkrahúss og Heilsugæslunnar í Reykjavík. Norræni heilbrigðisháskólinn í Gautabort og Norræna ráðherraráðið standa að norrænu lýðheilsuverðlaununum. Íslendingar hafa ekki tilnefnt verkefni til þessara verðlauna. Í ár þóttu umrædd verkefni hafa skarað fram úr og því þótti ástæða til að þau kepptu við önnur norræn verkefni. Verðlaunin verða veitt í júní 2002. Heildarlög um geislavarnir ríkisins samþykkt á Alþingi Alþingi hefur samþykkt ný heildarlög um geislavarnir. Lögunum er ætlað að tryggja nauðsynlegar öryggisráðstafanir gegn geilsun frá geislavirkum efnum og geislatækjum í því skyni að takmarka skaðleg áhrif hennar. Geislavarnir ríkisins, sem er stofnun undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, annast öryggisráðstafanir gegn geilsun frá geislavirkum efnum og tækjum. LÖGIN... |
12. apríl 2002