Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 13. - 19. apríl 2002

Fréttapistill vikunnar
13. - 19. apríl 2002



Ráðherra vill skipulegt átak til að styrkja stöðu heilsugæslunnar

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra segir mikilvægt að gert verði skipulegt átak til að að styrkja stöðu heilsugæslunnar á næstu misserum. Í yfirlýsingu sem ráðherra sendi frá sér í dag, 19. apríl, segir að hann telji mikilvægt að ráðuneytið og Félag íslenskra heimilislækna hafi með sér nána samvinnu um frekari uppbyggingu og eflingu heilsugæslunnar þar sem áhersla verði lögð á eftirtalda fjóra þætti: 1) Fjölbreytni í rekstri heilsugæslunnar verði aukin þar sem grunnþjónustunni í núverandi mynd verði viðhaldið í öllum grundvallaratriðum. Fjölbreytni í rekstri þýðir í þessu sambandi, að læknar geta tekið að sér rekstur heilsugæslustöðva á forsendum heilsugæslunnar og að hægt verði að taka upp vinnufyrirkomulag sem felur í sér afkastahvetjandi launakerfi fyrir lækna. Markmið með fjölbreytni af þessu tagi er að gera leið sjúklinga að læknum í grunnþjónustunni greiðari en nú er, að tryggja jafnari og betri þjónustu við sjúklinga og treysta grunnþjónustu heilbrigðisþjónustunnar í sessi. 2)Félag íslenskra heimilislækna samþykki að semja í framtíðinni við ríkið um laun sín og önnur starfskjör. Þannig hafi kjaranefnd ekki lengur um kjaramála lækna að segja. 3)Félag íslenskra heimilislækna og ríkisvaldið semji um breytta uppbyggingu og samsetningu launa. 4) Skipulegt átak verði gert í menntun og þjálfun heimilislækna. Áfram verði unnið að fjölgun námstaða í heilsugæslunni. Ráðherra leggur til að komið verði á fót sameiginlegum vinnuhópi ráðuneytisins og lækna sem fái það verkefni að gera verkáætlun um hvernig þessum atriðum verði hrint í framkvæmd.
YFIRLÝSING RÁÐHERRA...

Bætt skil heilbrigðisstofnana á ársáætlunum og ársskýrslum
Íframhaldi af gerð árangursstjórnunarsamninga við 14 heilbrigðisstofnanir hefur verið unnið að því að stofnanir og ráðuneyti starfi í samræmi við þær gagnkvæmu skyldur sem samningarnir kveða á um. Ráðuneytið hefur ýtt á eftir því við stjórnendur heilbrigðisstofnana að stofnanir skili ársáætlunum, ársskýrslum og þær vinni að stefnumótun. Skil á ársáætlunum heilbrigðisstofnana eru að komast í ágætt horf en unnið er að betri skilum á ársskýrslum. Ýmsar stofnanir eru komnar vel á veg með stefnumótun, aðrar vart byrjaðar. Áherslur og markmið um árangursstjórnun eru mikilvægur þáttur í reglum um framkvæmd fjárlaga. Í viðræðum við ýmsa forstöðumenn kom fram áhugi þeirra á að fá leiðbeiningar um stefnumótun og tengingu hennar við árangursmælikvarða. Vinnuhópur ráðuneytisins samdi við ráðgjafafyrirtækið PriceWaterhouseCoopers um að halda námskeið fyrir framkvæmdastjóra heilbrigðisstofnana með áherslu á að tengja saman stefnumótun ráðuneytisins og stofnananna og móta árangursmælikvarða um framkvæmd heilbrigðisþjónustunnar. Í framhaldi af námskeiðinu verður hverri stofnun boðin aðstoð rágjafa í einn dag tengdri þessari vinnu. Gera má ráð fyrir að margar stofnanir ljúki stefnumótun sinni í vor, en einhverjar þurfa að fá frest til hausts.

Lítil breyting á hlutfallslegri skiptingu lyfjakostnaðar milli TR og sjúklinga þótt greiðsluhluti sjúklings hafi verið hækkaður í janúar
Hlutfallsleg skipting lyfjakostnaðar milli Tryggingastofnunar ríkisins og sjúklinga breyttist lítið milli ársins 2001 og fyrstu þriggja mánaða ársins 2002, þrátt fyrir að greiðsluhluti sjúklings væri hækkaður 1. janúar sl. Ástæðan er einkum hærra lyfjaverð en síðari hluta ársins 2001 hækkaði lyfjaverðið vegna gengisfalls krónunnar. Verðhækkunin lendir að stærstum hluta hjá TR þar sem sjúklingur er með fast greiðsluþak sem er óháð verði lyfsins. Þetta kom fram í svari Jóns Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi í vikunni þar sem spurt var um meðallyfjakostnað elli- og örorkulífeyrisþega árin 200 og 2001. Í svarinu kom fram að elli - og örorkulífeyrisþegar greiddu 20,6% lyfjakostnaðar árið 2001 en hluti einstaklinga án afsláttar nam 54,2% af lyfjakostnaði sama ár. Fyrstu þrjá mánuði þessa árs nemur hluti elli- og örorkulífeyrisþega 20,7% en annarra 55%. Ráðherra sagði ekki unnt að veita upplýsingar um meðallyfjakostnað á ári fyrir einstaka hópa þar sem Tryggingastofnun er ekki heimilt að vinna upplýsingar eftir kennitölum úr lyfjagagnagrunninum. Enn fremur sagði hann: "Það þarf vart að ítreka mikilvægi þess fyrir heilbrigðisyfirvöld að hafa nánari upplýsingar um lyfjakostnað TR áður en ákvarðanir eru teknar um breytingar, ekki síður en að hafa möguleika á að meta áhrif breytinganna. Það er þó verulegur galli á þessari gagnasöfnun að ekki hefur fengist leyfi til að dulkóða sömu kennitöluna alltaf eins, þannig að hægt sé að fá nánari upplýsingar um lyfjakostnað og kostnað einstaka sjúklingahópa."
SVAR RÁÐHERRA...

Ræða heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á ráðstefnu um fjármál eldri borgara
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra gerði skipan lífeyrismála hér á landi í samanburði fyrir nágrannaþjóðir okkar að umtalsefni sínu í ávarpi sem hann flutti á ráðstefnu Búnaðarbankans um fjármál eldri borgara í vikunni. Einnig ræddi hann um mikla atvinnuþátttöku Íslendinga fram á efri ár og sagði meðal annars: "Staða eldri borgara á Íslandi er að mörgu leyti góð og skýrist það fyrst og fremst af því að okkur hefur lánast það sem öðrum hefur ekki tekist, en það er að tryggja mönnum vinnu langt fram á efri ár. Það er þessi víðtæka atvinnuþátttaka eldri borgara sem veldur því að hér eru útgjöld til velferðarmála lægri en annars staðar, og það er atvinnuþátttakan sem skýrir, að ráðstöfunartekjur eldri borgara mældar sem hlutfall af ráðstöfunartekjum allra annara í samfélaginu á Íslandi eru hærri, en annars staðar á Norðurlöndum."
RÆÐAN...

Hlutfall dagvinnu nemur tæpum 63% af heildarlaunum við LSH
Heildarlaunakostnaður á Landspítala - háskólasjúkrahúsi er rúmar 1.300 m.kr. á mánuði og er fjöldi stöðugilda tæplega 3.800. Skipting heildarlauna á spítalanum eftir launategundum sýnir að hlutfall dagvinnu er tæplega 63% af heildarlaunum, hlutfall vaktavinnu er 20% og hlutfall yfirvinnu er tæplega 17%. Hlutfall dagvinnu hefur heldur aukist í marsmánuði á kostnað vaktavinnu. Þetta er meðal þess sem fram kemur í stjórnunaruppplýsingum Landspítala - háskólasjúkrahúss fyrir marsmánuð. Þar er einnig fjallað um aksturskostnað, kostnað vegna námsferða starfsfólks, mælingar á umönnunarþörf sjúklinga o.fl.
MEIRA...

Skýrsla um ófrjósemisaðgerðir rædd á Alþingi
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra segir mikilvægt að nú liggi fyrir skýrsla um ófrjósemisaðgerðir sem gerðar voru samkvæmt lögum nr. 16/1938 á árunum 1938-75, þ.e. á gildistíma laganna. Hann hefur fengið höfund skýrslunnar til að kafa dýpra ofan í ýmsa þætti sem þar koma fram og er það verk þegar hafið. Þetta kom fram í ræðu ráðherra á Alþingi í vikunni, þar sem skýrslan var rædd.
MEIRA...


Útgáfa læknisvottorða og kjör heilsugæslulækna
Breyting sem varð 1. janúar á reglugerð um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu hafði ekki í för með sér breytingu á því að læknisvottorð ættu að renna til heilsugæslustöðva. Eingöngu var verið að skerpa á þeirri meginreglu að gjöld sem sjúklingar greiða fyrir þjónustu á heilsugæslustöð skuli greiða stöðinni sjálfri. Í ljós hefur komið að gjöld fyrir hluta vottorða hafa ekki í öllum tilvikum runnið til stöðvanna heldur hafa þau runnið til heilsugæslulæknanna sjálfra. Þetta kom fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi í vikunni.
SVAR RÁÐHERRA...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
19. apríl 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta