Kirkjubólshreppur og Hólmavíkurhreppur sameinast
Sameiningin er gerð á grundvelli 6. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, en þar er kveðið á um að félagsmálaráðherra skuli eiga frumkvæði að því að sameina sveitarfélag sem hefur haft færri en 50 íbúa þrjú ár í röð við nágrannasveitarfélag. Þar sem íbúafjöldi Kirkjubólshrepps hefur verið undir þessum mörkun skipaði ráðherra nefnd þann 10. desember 2001 til þess að vinna að sameiningu hreppsins. Á vegum nefndarinnar var framkvæmd skoðanakönnun meðal íbúa Kirkjubólshrepps um viðhorf þeirra til sameiningarkostanna, sem að mati nefndarinnar voru tveir, og vildi meirihluti íbúanna sameinast nágrannasveitarfélaginu Hólmavíkurhreppi. Nefndin skilaði tillögum sínum til ráðherra þann 21. mars sl. en í þeim felst að Kirkjubólshreppur sameinist Hólmavíkurhreppi þann 9. júní 2002, en að kosið verði til sameiginlegrar sveitarstjórnar við sveitarstjórnarkosningarnar 25. maí næstkomandi.
Það er því ljóst að sveitarfélögin í landinu verða 105 talsins við komandi sveitarstjórnarkosningar og hefur þeim þar með fækkað um 19 frá síðustu sveitarstjórnarkosningum.