Kaup ríkisins á Gljúfrasteini
Frétt nr.: 17/2002
Kaup ríkisins á Gljúfrasteini
Forsætisráðherra, Davíð Oddsson, og frú Auður Sveinsdóttir Laxness, ekkja Halldórs Laxness, undirrituðu í dag samning um kaup ríkisins á Gljúfrasteini í Mosfellsdal, heimili og vinnustað skáldsins um u.þ.b. hálfrar aldar skeið. Jafnframt kaupir ríkið fjölda listaverka sem prýða heimilið.Kaupverð hússins er 35 m.kr. og listaverkanna 31 m.kr.
Við sama tækifæri afhenti frú Auður forsætisráðherra gjafabréf, en samkvæmt því færir hún íslenska ríkinu að gjöf allt innbúið að Gljúfrasteini, lausamuni alla, bóksafn Halldórs Laxness og fjölda handrita og minnisbóka, sem skáldið notaði við skrif sín.
Voru frú Auði færðar þakkir ríkisstjórnarinnar fyrir þessa höfðinglegu gjöf. Fyrirhugað er að opna safn að Gljúfrasteini þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að heimsækja heimili og vinnustað Halldórs Laxness. Er við það miðað að húsið verði opnað vorið 2003. Menntamálaráðherra, Tómas Ingi Olrich og bæjarstjóri Mosfellsbæjar Jóhann Sigurjónsson undirrituðu yfirlýsingu um samráð í málefnum er varða safn Halldórs Laxness á Gljúfrasteini og fræðasetur tileinkað skáldinu, sem bæjarfélagið hyggst koma á fót.
Í Reykjavík 21. apríl 2002