Fimm nýjar sýningar í Þjóðmenningarhúsinu
Reykjavík
24. apríl 2002
Fimm nýjar sýningar í Þjóðmenningarhúsinu
Í undirbúningi eru nú fimm nýjar sýningar í Þjóðmenningarhúsinu og verða þrjár þeirra opnaðar nú í sumar og tvær í haust. Þar er fyrst um er að ræða mikla sýningu á þjóðargersemum Íslendinga, handritunum, sem Stofnun Árna Magnússonar á Íslandi stendur fyrir, og þvínæst ljósmyndasýningu úr svokölluðum Fox- leiðangri 1860, þar sem getur að líta myndir sem eru með þeim elstu frá Íslandi; Þjóðminjasafn Íslands stendur fyrir þeirri sýningu. Þá mun Skáksamband Íslands standa fyrir sýningu úr skáksögu íslands og sérstaklega beina sjónum að "einvígi aldarinnar" og loks er í undirbúningi mikil sýning sem segir sögu kortagerðar á Íslandi. Auk þessa verður skipt um efni í sýningarbásum í bókasal, en þar verður í sumar á vegum Landsbókasafns-Háskólabókasafns bókasýning með verkum sem Íslendingar í Vesturheimi hafa gefið út en þeim þætti bókmennta okkar hefur verið gefinn minni gaumur en skyldi. Það er hlutverk Þjóðmenningarhúss að sinna með fjölbreyttu sýningahaldi menningu okkar og sögu, þjóðmenningu okkar í sem víðustum skilningi. Viðopnun hússins voru þar tvær veglegar sýningar sem tengdust árinu tvöþúsund, þess að 1000 ár voru liðin frá kristnitökunni á Íslandi og 1000 ár liðin frá landafundum norrænna manna. Kristnisýningin verður nú tekin niður og eru síðustu forvöð að sjá hana í næstu viku. En um 30 000 manns munu hafa séð sýninguna. Landafundasýningin verður hins vegar áfram um sinn.
Ljósmyndasýningin
Ljósmyndasýning Þjóðminjasafnsins verður opnuð 17. júní í sýningarsölum hússins á fyrstu hæð þar sem kristnisýningin var. Myndirnar eru teknar úr svonefndum Fox-leiðangri um 1860 en þá stóð til að leggja sæsímastreng yfir Atlantshafið. Myndirnar eru því ekki eingöngu frá Íslandi heldur og frá Grænlandi og Færeyjum og munu hinar fyrstu í heiminum sem teknar eru á Grænlandi. Engin þessara mynda hefur komið fyrir almennings sjónir áður, en þeir sem stóðu að leiðangrinum urðu sumir hverjir heimsfrægir menn. Á sýningunni verða auk þess munir sem tengjast efni ljósmyndanna. Inga Lára Baldvinsdóttir, deildarstjóri í Þjóðminjasafninu, hefur umsjón með þessari sýningu, sem stendur fram til ágústloka.
Skáksögusýningin
Hinn 11. júlí verður svo opnuð mikil skáksögusýning í þremur sýningarherbergjum hússins á annarri hæð, en þar hafa verið sýningar á skjaldarmerki Íslands, orðum, mynt og kortum á vegum Seðlabankans. Sýningunni er ætlað að rekja skáksögu Íslendinga frá fyrstu tíð, hvernig Wiliard Fiske kom að þeirri sögu og hvernig íslenskum skákmönnum hefur vegnað hér heima og erlendis svo eitthvaðsé nefnt, en skákáhugi mun vera almennari á Íslandi en víðast annars staðar. Sérstök áhersla verður svo lögð á margvíslegt efni, innlent og alþjóðlegt, sem tengist einvígi þeirra Spasskís og Fischers, en einvígið hófst einmitt 11. juúlí 1972. Þessi sýning mun standa fram á haust, en þá er í ráði að efna í sömu sölum til sýningar á kortagerð Íslendinga frá Guðrbrandi og Þorláki um strandakortin svonefndu til þeirra Björns Gunnlaugssonar og Þorvalds Thoroddsens. Sú sýning verður síðar kynnt betur, líkt og reyndar allar sýningarnar um leið og þeim verður hleypt af stokkunum.
Handritasýningin
Handritasýningin verður í sýningarsölum annarrar hæðar og verður, ef svo má að orði komast, flaggskip í sýningarstarfi Þjóðmenningarhússins næstu árin. Stofnun Árna Magnússonar hefur lengi skort aðstöðu til að sýna landsmönnum og erlendum ferðamönnum handritin að miðaldabókmennum okkar en hliðstæður þeirra er ekki að finna í neinu öðru landi. Sýningin verður opnuð í byrjun október og getur þar að líta Konungsbók Eddu, handrit af Íslendingasögum og fleiri gersemar. Sýningarstjóri verður Gísli Sigurðsson, en hönnuður sýningarinnar Steinþór Sigurðsson.
Samstarf við Landsbókasafn og önnur starfsemi
Ýmislegt annað er á döfinni í starfsemi Þjóðmenningarhússins. Húsið hefur tengst Skólavefnum, en vefnum aftur tengjast sýningar sem nefnast skáld mánaðarins og verða í bókasal frá hausti á vegum Landsbókasafns-Háskólabókasafns. Í smíðum er einnig heimasíða hússins og í undirbúningi stærra margmiðlunardæmi, en daglega koma í húsið 3 - 4 hópar skólafólks að kynna sér efni sýninganna og vinna úr því. Stefnt er að því að efla samstarf við skólana eftir því sem sýningarhaldið verður fjölbreyttara.
Ráðstefnuhald í húsinu hefur færst í aukana að undanförnu og lætur nærri að tvær stórar ráðstefnur séu haldnar þar í viku hverri, auk minni funda sem nánast eru daglega í einhverjum minni fundarherbergjanna. Í bókasal sem er einn veglegasti salur landsins er hægt að hýsa ráðstefnur fyrir allt að 150 manns í sæti. Í þessu sambandi má benda á að í húsinu er ágæt veitingabúð sem vinsæl er bæði meðal fundahaldara og svo er kaffihús opið á sýningartíma, sem er m.a. talsvert sótt í hádeginu af fólki sem vinnur í miðborginni.
Aðgangseyrir á allar sýningarnar er kr. 300,00, en 100 kr afsláttur fyrir öryrkja og eldri borgara og ókeypis fyrir börn að 16 ára aldri. Hins vegar verður brydduð upp á því nýmæli að hafa einn dag í viku opinn öllum ókeypis og er það á sunnudögum. Í fyrsta skipti verður það á sunnudaginn kemur og þá verður lesið úr íslenskum barnabókum í lok bókaviku, sem er íslenska gerðin af bókadegi UNESCOs. Jafnframt er í bígerð að efna til lestrar úr íslenskum skáldverkum í enskri og þýskri þýðingu fyrir ferðamenn í sumar. Þjóðmenningarhúsið er opið alla daga frá kl. 11.00 -17.00 og geta hópar pantað leiðsögn um sýningarnar í húsinu.