Fréttapistill vikunnar 20. - 26. apríl 2002
Fréttapistill vikunnar
20. - 26. apríl 2002
Upplýsingar um kostnað við heimafæðingar og fæðingar á sjúkrahúsi
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði í vikunni fyrirspurn á Alþingi um kostnað Tryggingastofnunar og/eða sjúkrahúss við heimafæðingar og fæðingar á fæðingardeild og fjölda fæðinga á árunum 1998–2001. Í svari ráðherra kom m.a. fram að Tryggingastofnun hefði greitt fyrir tvær fæðingar í heimahúsum árið 1998 en tuttugu heimafæðingar árið 2001. Árið 2001 nam kostnaður Tryggingastofnunar vegna heimafæðinga samtals um 800.000 kr. og var meðalkostnaður á fæðingu rúmar 40.000 kr. Samkvæmt gjaldskrá vegna heimafæðinga árið 2001, þar sem miðað er við þrjár vitjanir fyrir fæðingu, aðstoð við fæðinguna og ellefu vitjanir eftir fæðingu er kostnaður vegna heimafæðingar tæpar 92.000 krónur. Í svari ráðherra er einnig að finna upplýsingar um kostnað við fæðingar á Landspítala - háskólasjúkrahúsi og eru þær greindar eftir eðli fæðinga, þ.e. eðlilegar fæðingar án fylgikvilla, keisaraskurð án fylgikvilla o.s.frv. Þar kemur m.a. fram að kostnaður vegna eðlilegrar fæðingar án fylgikvilla er tæpar 148.000 krónur. Kostnaður vegna keisaraskurðs án fylgikvilla er tæpar 324.000 krónur. Samkvæmt upplýsingum LSH er hlutfall eðlilegra fæðinga án fylgikvilla tæp 75%
SVAR RÁÐHERRA...
Samstarfssamningur Tryggingastofnunar ríkisins og Háskóla Íslands
Tryggingastofnun ríkisins og Háskóli Íslands hafa gert með sér samstarfssamning til næstu þriggja ára um kennslu og rannsóknir á sviði almannatrygginga. Samningurinn er að mestu endurnýjun á eldri samningi en stefnt er að aukinni fræðilegri kennslu og verkkennslu í almannatryggingum. Háskólinn leggur fram vísindamenn, nemendur í rannsóknarnámi, rannsóknaraðstöðu o. fl. en Tryggingastofnun leggur fram upplýsingar, gögn og þekkingu á sviði almannatrygginga. Samhliða þessu er samningur um að stofna tímabundna stöðu dósents við læknadeild Háskólans á sviði almannatrygginga, að því er fram kemur á heimasíðu Tryggingastofnunar ríkisins.
Sleppum fordómum - Vitundarvakning
Landlæknisembættið og Geðrækt gangast fyrir vitundarvakningu um fordóma í samstarfi við fjölmörg samtök og stofnanir sem öll eiga það sameiginlegt að vilja vinna bug á fordómum. Kjörorð vakningarinnar er Sleppum fordómum og verður hún á dagskrá frá miðjum apríl og fram í miðjan júní. Að því er fram kemur á vef landlæknisembættisins er markmiðið að vekja athygli sem víðast í þjóðfélaginu á því sem býr að baki fordómum, hvernig þeir birtast og hvernig unnt sé að losna undan oki þeirra. Meðal annars verður lögð áhersla á að hver og einn skoði eigin hug og velti því fyrir sér hvort hann sé haldinn fordómum af einhverju tagi. Samstarfshópurinn sem stendur að verkefninu hefur gert með sér sáttmála þar sem segir m.a. " Fordómar hafa skaðleg áhrif á heilsu og líðan, jafnt þeirra sem þeir beinast gegn og hinna sem bera þá. Það er því þjóðarhagur að okkur takist að vekja sem flesta til vitundar um eðli þeirra og orsakir, hvernig þeir birtast og hvaða afleiðingar þeir hafa. Með átaki þessu viljum við hvetja til virðingar fyrir manneskjunni, hver sem hún er. Karl eða kona, ung eða gömul, fötluð eða ófötluð, án tillits til uppruna, kynhneigðar eða trúarbragða."
MEIRA...
Heyrnarfræðingur kominn til starfa hjá Heyrnar og talmeinastöð Íslands á Akureyri
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands hefur fengið til starfa heyrnarfræðing sem er til húsa hjá Heilsugæslustöðinni á Akureyri. Fyrstu verkefni hans verða að fara yfir biðlista, meta þörf fyrir þjónustu og skipuleggja starfið framundan. Á vegum HTÍ verður einnig starfandi háls, nef og eyrnalæknir í hlutastarfi. Frá fyrsta september hefst þjónusta við þá sem skráðir hafa verið í þörf fyrir þjónustu útibús Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar á Akureyri.
http://www.hti.is/vefur...
19. apríl 2002