Ráðherrafundur Evrópuráðsins í Vilníus
Nr. 039
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Ráðherrafundur Evrópuráðsins var haldinn í Vilníus í Litháen í dag. Af hálfu Íslands sótti Sverrir Haukur Gunnlaugsson, ráðuneytisstjóri, fundinn fyrir hönd Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra.
Á fundinum var lagður fram til undirritunar Viðauki 13 við Mannréttindasáttmála Evrópu en hann kveður á um að dauðarefsingar verði afnumdar með öllu í aðildarríkjum Evrópuráðsins sem nú eru alls fjörutíu og fjögur talsins. Viðaukinn er mikilvægur áfangi í að afnema dauðarefsingar í gjörvallri Evrópu án nokkurra skilyrða en eldri viðauki leyfir undantekningar á stríðs- og óróatímum. Nú eiga einungis þrjú aðildarríki Evrópuráðsins eftir að afnema dauðarefsingar, þ.e. Armenía, Rússland og Tyrkland en þau hafa öll látið í ljós vilja til þess að afnema þær að fullu.
Á fundinum var einnig fjallað um baráttuna gegn alþjóðlegum hryðjuverkum og lögðu sérfræðingar frá aðildarríkjunum fram skýrslu, sem unnin hefur verið á vegum Evrópuráðsins, um hvernig megi auka samstarf í álfunni til þess að sporna gegn þeim þáttum sem geta leitt til hryðjuverka. Mikil áhersla er engu að síður lögð á að almenn mannréttindi séu virt í baráttunni gegn hryðjuverkum.
Ríkin samþykktu einnig ályktun um að þróa frekara samstarf milli Evrópuráðsins og annarra evrópskra svæðastofnana. Með þessu vonast aðildarríkin til þess að auka samstöðu og stöðugleika í Evrópu og auðvelda meðal annars samvinnu á sviði mannréttinda og lýðræðisþróunar.
Bosníu Hersegóvínu var veitt aðild að Evrópuráðinu þann 24. apríl síðastliðinn og þetta er því í fyrsta skipti sem ríkið tekur þátt í ráðherrafundi Evrópuráðsins. Evrópuráðið mun aðstoða ríkið við lýðræðisuppbyggingu og styrkingu almennra mannréttinda.
Litháen lét af formennsku í Evrópuráðinu á ráðherrafundinum. Lúxemborg mun leiða starf Evrópuráðsins næstu sex mánuði.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 3. maí 2002