Hoppa yfir valmynd
7. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður um gildi framboðslista

Bæjarmálafélagið Hnjúkar
Þórdís Hjálmarsdóttir
Þverbraut 1
540 Blönduósi

Þriðjudaginn 7. maí 2002 var í félagsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi


ÚRSKURÐUR:

Með bréfi, dags. 6. maí 2002, lögðu fulltrúar frá Bæjarmálafélaginu Hnjúkum fram stjórnsýslukæru þar sem kærður er úrskurður yfirkjörstjórnar Blönduóssbæjar að úrskurða ógildan framboðslista félagsins við sveitarstjórnarkosningar 25. maí 2002. Samkvæmt bókun yfirkjörstjórnar mættu fulltrúar Bæjarmálafélagsins Hnjúka með framboðslista félagsins Á-lista, laugardaginn 4. maí 2002 kl. 12.11 og kemur fram í úrskurði yfirkjörstjórnar, dags. 5. maí 2002, að ástæða þess að listinn var úrskurðaður ógildur sé sú að hann hafi borist eftir lok framboðsfrests. Einn fulltrúi í yfirkjörstjórn skilaði sératkvæði og lagði til að framboðslistinn yrði tekinn gildur.

I. Málsrök kærenda
Í kærunni kemur eftirfarandi fram:

"Á fundi yfirkjörstjórnar Blönduóss og Engihlíðarhrepps kl. 22.00 þann 5.5.2002 var framboðslista Bæjarmálafélagsins Hnjúka, Á – listanum hafnað, þar sem hann hefði borist eftir að framboðsfrestur rann út.

Við unum þessum úrskurði ekki og krefjumst þess að æðra stjórnvald, þ.e. félagsmálaráðuneytið fjalli um málið og skeri endanlega úr um hvort þessi smávægilegi galli á framlagningu framboðslista eigi að koma í veg fyrir að kjósendur fái notið réttar síns til að velja sér þá forystumenn til stjórnunar sem þeir kjósa. Benda má á í því sambandi að Á – listinn fékk um 30% fylgi í síðustu kosningum og tvo menn kjörna.

Vart þarf að nefna mikilvægi þess að erindi þetta fái skjóta afgreiðslu þannig að framboðsvinna Á-listans verði fyrir sem minnstri truflun."

II. Niðurstaða ráðuneytisins
Krafa kæranda lýtur að því að félagsmálaráðuneyti úrskurði um það hvort ákvörðun yfirkjörstjórnar um ógildingu framboðslista Bæjarmálafélagsins Hnjúka hafi verið lögmæt. Í kærunni er óskað eftir að ráðuneytið fjalli um mál þetta með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Stjórnsýslulög taka skv. 1. gr. laganna til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Í 2. gr. er kveðið á um gildissvið gagnvart öðrum lögum, þar sem segir í 2. mgr.: "Ákvæði annarra laga, sem hafa að geyma strangari málsmeðferðarreglur en lög þessi mæla fyrir um, halda gildi sínu. Um sérstakt hæfi sveitarstjórnarmanna og annarra þeirra sem starfa við stjórnsýslu sveitarfélaga fer þó eftir sveitarstjórnarlögum."

Í 26. gr. stjórnsýslulaga segir: "Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt."

Þessi grein hefur verið skýrð þannig að af ákvæði 78. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 16. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995 og 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, leiði að sveitarfélög hafi sjálfstæða stöðu gagnvart öðrum stjórnvöldum. Sveitarstjórnir teljist því ekki lægra sett stjórnvald gagnvart ráðherra í ljósi framangreindra ákvæða. Sama gildir um nefndir sem skipaðar eru af sveitarstjórn.

Ákvæði 26. gr. laganna verður að skýra þannig að því verður ekki beitt um stjórnsýsluákvörðun ef sérlög eiga við. Sérlög gilda um kosningar til sveitarstjórna, lög nr. 5/1998 með síðari breytingum, og er þar meðal annars fjallað um undirbúning og framkvæmd kosninga. Stjórnsýslulög eiga því ekki við um ákvörðun yfirkjörstjórnar Blönduóssbæjar um ógildingu framboðslista í sveitarstjórnarkosningum og verður kæruheimild til ráðuneytisins ekki byggð á 26. gr. þeirra laga.

Félagsmálaráðuneytið lítur því svo á að fjalla beri um úrskurð yfirkjörstjórnar á grundvelli laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna með síðari breytingum.

Í 14. gr. laga nr. 5/1998 er kveðið á um það að yfirkjörstjórn skuli kosin á fyrsta fundi nýkjörinnar sveitarstjórnar til fjögurra ára í senn. Í sömu grein segir að yfirkjörstjórn skuli með nægilegum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram. Í 21. gr. laganna er kveðið á um að öll framboð skuli tilkynnt skriflega til yfirkjörstjórnar eigi síðar en kl. 12 á hádegi þann dag sem þrjár vikur eru til kjördags. Í 24. gr. laganna er kveðið að um það að yfirkjörstjórn skuli halda fund næsta dag eftir að framboðsfresti lýkur til að fara yfir framboð.

Í 28. gr. laga nr. 5/1998 er kveðið á um ógildingu framboðslista og skal eftirrit af úrskurði þá þegar afhent hlutaðeigandi umboðsmanni eða umboðsmönnum ásamt eftirriti af lista þeim sem úrskurðaður er ógildur. Hvorki í þessari grein né annars staðar í lögunum um kosningar til sveitarstjórna kemur fram að málskot sé heimilt við þessar aðstæður eða til hvaða stjórnvalds sé unnt að kæra.

Í XIV. kafla laganna er fjallað um kosningakærur. Í 1. mgr. 93. gr. er kveðið á um kæruheimild er sveitarstjórnarkosningar hafa farið fram. Afhenda ber kæru til sýslumanns innan sjö daga frá því lýst var úrslitum kosninga. Niðurstöðu þriggja manna nefndar sem sýslumanni ber að skipa, er unnt að skjóta til félagsmálaráðuneytisins.

Í lögum um kosningar til sveitarstjórna er þetta eina kæruleiðin til ráðuneytisins, ef undan er skilinn úrskurður yfirkjörstjórnar um kjörgengi, sbr. 25. gr. laga nr. 5/1998, með síðari breytingum. Sá úrskurður sætir málskoti til sveitarstjórnar og þá niðurstöðu má kæra til ráðuneytisins.

Af framangreindum ákvæðum leiðir að gagnálykta verður á þann veg að úrskurð yfirkjörstjórnar um ógildingu framboðslista er ekki unnt að kæra til ráðuneytisins. Það eru einungis úrskurðir um kjörgengi og kærur til ógildingar kosninga sem geta komið til umfjöllunar ráðuneytisins eftir að hafa annars vegar farið í umfjöllun sveitarstjórna, þ.e. kjörgengi, eða hins vegar í nefnd sýslumanns um úrslit kosninganna.

Með vísan til alls sem að framan hefur verið rakið er niðurstaða ráðuneytisins sú að ekki sé fyrir hendi kæruheimild til ráðuneytisins vegna úrskurðar yfirkjörstjórnar um gildi framboðslista. Ráðuneytið getur í ljósi framangreindra lagaákvæða hvorki á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga, né samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna tekið ógildingu framboðslista til umfjöllunar. Kæruleið til ráðuneytisins er bundin við 93. gr kosningalaganna, er sveitarstjórnarkosningar hafa farið fram.

ÚRSKURÐARORÐ

Vísað er frá félagsmálaráðuneytinu kæru Bæjarmálafélagsins Hnjúka vegna ákvörðunar yfirkjörstjórnar Blönduóss og Engihlíðarhrepps um ógildingu á framboðslista Bæjarmálafélagsins Hnjúka.

    Guðni Ágústsson (sign.)
    Berglind Ásgeirsdóttir (sign.)


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta