Ráðherrafundur Eystrasaltsráðsríkja
Eystrasaltsráðsríki stefna að auknu samstarfi gegn skipulagðri glæpastarfsemi
Fréttatilkynning
Nr. 09/ 2002
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra sat í dag fund ráðherra Eystrasaltsráðsríkjanna sem fara með lögreglusamvinnu, en fundurinn var haldinn í Lübeck í Þýskalandi. Otto Schily, innanríkisráðherra Þýskalands, boðaði til fundarins og stýrði honum, en jafnframt sátu fundinn ráðherrar og háttsettir embættismenn frá Íslandi, Danmörku, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Póllandi og Rússlandi.
Meginefni fundarins var umræða um samstarfsverkefni Eystrasaltsríkjanna gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Á leiðtogafundi Eystrasaltsráðsins árið 1996 var settur á laggirnar sérstakur starfshópur (Task Force) sem fékk það hlutverk að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Fram kom á fundinum að fjölmörgum verkefnum hefur verið hrint í framkvæmd á þeim sex árum sem liðin eru frá stofnun starfshópsins. Hefur verið ráðist í mörg sameiginleg lögregluverkefni, þar sem sjónum hefur meðal annars verið beint að smygli á fíkniefnum, mansali, umhverfisglæpum, smygli á fólki og fleiri atriðum.
Danir fara með forsæti í starfshópnum og gerði formaður nefndarinnar í megindráttum grein fyrir skýrslu nefndarinnar sem lá fyrir fundinum. Fram kom að aðalstefna starfshópsins hefði verið að efla og styrkja bein samskipti milli ríkjanna, milli lögregluliðanna, landamæravarða og annarra sem að verkefnum starfshópsins koma. Árangur margra verkefna hefði verið mjög góður, lagt hefði verið hald á mikið magn af fíkniefnum og margir ólöglegir innflytjendur hefðu fundist í kjölfar sérstakra verkefna og fleira mætti nefna. Ljóst væri að starfsemi starfshópsins væri komin á fastan grundvöll og að vinna hans væri mjög mikilvæg í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi í aðildarríkjum Eystrasaltsráðsins.
Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra sagði að Ísland hefði fylgst náið með starfsemi Eystrasaltsráðsins og starfshópsins og lýsti yfir ánægju með starfið og þau verkefni sem starfshópurinn hefði hrint í framkvæmd. Markmið íslenskra yfirvalda væri að auka enn frekar þátttöku okkar á þessum vettvangi, en alþjóðleg samvinna væri lykilatriði í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Nefndi Sólveig sérstaklega að til að undirstrika áhuga íslenskra yfirvalda á mikilvægi lögreglusamvinnu hefði í tengslum við formennsku Íslands í Schengen samstarfinu verið haldin ráðstefna um lögreglusamvinnu á Íslandi í nóvember sl. Meginniðurstaða þeirrar ráðstefnu hefði verið sú að þó svo að margt hefði verið gert á undanförnum árum til að efla alþjóðlega samvinnu mætti enn gera betur. Mikilvægt væri að skoða nákvæmlega hvernig til hefði tekist og læra af reynslunni. Fundur af þessu tagi væri því mikilvægur og brýnt væri að ráðherrar lögreglumála gæfu skýr pólitísk skilaboð til starfshópsins um þau verkefni sem leggja ætti áherslu á. Einnig þyrfti að ræða hvernig unnt væri að efla enn frekar samvinnu ríkjanna, víkka hana út í samræmi við örar breytingar í heimsmálum og ræða hvort hún stæðist þær kröfur sem gerðar eru til hennar.
Á fundinum voru í kjölfarið rædd atriði sem huga þyrfti að í starfi starfshópsins í framtíðinni. Fjallað var sérstaklega um tengsl hryðjuverka og skipulagðrar glæpastarfsemi og var starfshópnum falið að kanna það atriði sérstaklega.
Sólveig Pétursdóttir sagði að mikilvægt væri fyrir aðildarríkin að skoða stöðugt hvernig unnt væri að efla og styrkja samvinnu aðildarríkjanna. Mikilvægt væri að reyna að vera ávallt skrefinu á undan í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Nefndi hún sérstaklega að áherslu þyrfti áfram að leggja á baráttuna gegn smygli á fíkniefnum og mansali. Einnig sagði hún mikilvægt að starfshópurinn beindi sjónum að tölvuglæpum og þá sérstaklega að útbreiðslu á barnaklámi á internetinu. Fékk tillaga Sólveigar góðar undirtektir og var þessu atriði bætt inn í lokaályktun fundarins.
Samvinna ríkjanna á þessum vettvangi verður rædd nánar á leiðtogafundi Eystrasaltsráðsins sem haldinn verður síðar á þessu ári.
Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu,
7. maí 2002.
7. maí 2002.