Frammistöðumat Eftirlitsstofnunar EFTA
Nr. 044
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Hinn 16. maí 2002 birti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) frammistöðumat um innleiðingu tilskipana ESB sem var undirbúið á sama tíma og mat framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins.
Helstu niðurstöður varðandi innleiðingu EES tilskipananna eru eftirfarandi:
· Samanburður á frammistöðu hinna 18 ríkja EES við innleiðingu tilskipana sýnir að Ísland er í fjórða sæti af öllum EES-ríkjum, með 99,2% árangur við innleiðingu, aðeins 0,8% tilskipana eru óinnleiddar. Við síðasta mat í nóvember var Ísland í 6. sæti með 1,4% tilskipana óinnleiddar.
· Noregur er með besta árangur EES-ríkjanna (0,5%). Næst á eftir koma Svíþjóð (0,7%), Danmörk (0,7%) og á eftir Íslandi, Finnland (0,9%). Markmiðið sem ESB ríkin settu sér fyrir leiðtogafundinn í Barselóna var að ekki yrði meira en 1,5% tilskipana óinnleiddar og er Ísland því vel innan þeirra marka, en aðeins 7 ESB ríki hafa náð þessu markmiði.
· Öll EES EFTA-ríkin hafa bætt frammistöðu sína og dregið hefur úr fjölda þeirra tilskipana sem eru óinnleiddar í innlendar réttarreglur.
· Sérstök athygli var vakin á því að Ísland sýndi bestan árangur EES EFTA ríkjanna við að leysa mál vegna athugasemda ESA á frumstigi. Skjót viðbrögð skipta máli því ef mál eru leyst á fyrstu stigum er hægt að koma í veg fyrir kostnaðarsama kærumeðferð.
Ljóst er að Ísland hefur bætt innleiðingu tilskipana verulega undanfarin tvö ár. Í nóvember 2000 hafði Ísland innleitt 95,4% tilskipana (4,6% óinnleidd) og var þá í 17. sæti listans, því næstneðsta.
Meðfylgjandi er mynd sem sýnir árangur hvers EES ríkis, svo og fréttatilkynning ESA.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 16.05.2002