Útboð á fjarskiptaneti fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar
Til skólameistara framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva
Útboð á fjarskiptaneti fyrir framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar
Menntamálaráðuneytið vinnur nú að undirbúningi útboðs á fjarskiptaneti sem þjóna á framhaldsskólum og símenntunarmiðstöðvum. Áætlað er að netið tengi saman alla framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðvar og að flutningsgeta þess verði 100 mb/sek. Netið mun auðvelda öll fjarskipti t.d. vegna fjarkennslu, miðlægra upplýsingakerfa og sameiginlegrar kerfisþjónustu ásamt því að veita framhaldsskólum aðgang að Internetinu. Stofnaður hefur verið vinnuhópur vegna útboðsins og eru Sigurður Sigursveinsson, Fjölbrautaskóla Suðurlands, og Ársæll Guðmundsson, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fulltrúar framhaldsskóla.
Menntamálaráðuneytið mun leggja til fjármagn til að standa straum af kostnaði við útboðið og hluta stofnkostnaðar. Áætlað er að heildarkostnaður framhaldsskóla vegna fjarskipta og Internetþjónustu muni ekki vaxa frá því sem nú er.
Menntamálaráðuneytið leggur áherslu á að fá fram formlega afstöðu skólameistara um þátttöku í þessu verkefni áður en til útboðs kemur. Ljóst er að einhverjir skólar hafa þegar skuldbundið sig með samningum um nettengingar til lengri tíma og er gert ráð fyrir að þeir muni geta tengst fjarskiptanetinu á síðari stigum. Stefnt er að því að útboðið hefjist um næstu mánaðarmót og er óskað eftir að framhaldsskólar tilkynni ráðuneytinu um afstöðu sína til þáttöku eigi síðar en mánudaginn 27. maí.
(Maí 2002)