Hoppa yfir valmynd
24. maí 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 18. - 24. maí 2002

Fréttapistill vikunnar
18. - 24. maí 2002



Nefnd skipuð um framtíðaruppbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri

Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ávarpaði ársfund Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri sem var í dag. Gerði Jón mikilvægi Fjórðungssjúkrahússins að umtalsefni og möguleikana sem væru fyrir hendi með samvinnu sjúkrahússins og Háskólans á Akureyri. Greindi ráðherra frá því á fundinum að hann hefði ákveðið að skipa Elsu B. Friðfinnsdóttur, aðstoðarmann sinn, formann nefndar sem skila ætti tillögum um framtíðaruppbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.
RÆÐA RÁÐHERRA...

Dregið hefur úr notkun sýklalyfja á undanförnum árum
Heldur hefur dregið úr notkun sýklalyfja á undanförnum árum, samkvæmt upplýsingum sem skrifstofa lyfjamála í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu hefur tekið saman. Í samantektinni má sjá hvernig notkunin hefur farið hægt minnkandi frá árinu 1989 - 2001. Áberandi árstíðarbundnar sveiflur eru í notkun penicillins og tetracýklínlyfjum sem jafnan nær hámarki fyrstu þjár mánuði ársins en er minnst yfir sumartímann. Árið 1989 var heildarmagn sýklalyfja mælt í dagskömmtum 24,5 á hverja þúsund íbúa en var komið niður í 20 dagskammta árið 2001.
notkun sýklalyfja... Pdf.skjal

Kröfulýsingar fyrir sjúkraskrárkerfi og rafræna sjúkaskrá kynnt á fræðslufundi fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga
Landlæknisembættið efndi til fjölbreytts fræðslufundar fyrir lækna og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum á Grand hótel í Reykjavík í dag. Meðal umfjöllunarefna var almenn kynning sóttvarnarlæknis á bólusetningum og kynning á væntanlegri bólusetningu gegn meningókokkasjúkdómi. Þá var rætt um skólaheilsugæslu, um sjálfsvíg, forvarnir og eftirfylgd, samræmda lágmarksskráningu í heilsugæslu, þátttöku heilsugæslunnar í Slysaskrá Íslands o.fl. Gerð kröfulýsinga fyrir sjúkraskrárkerfi og rafræna sjúkraskrá og stefnumörkun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins var einnig til umfjöllunar á fundinum og gerðu Ingimar Einarsson og Sigurður Gils Björgvinsson frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, grein fyrir kröfulýsingum fyrir sjúkraskrárkerfi og rafrænar sjúkraskrár og stefnumörkun heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í upplýsingamálum heilbrigðiskerfisins. Kröfulýsing fyrir sjúkraskrárkerfi er þríþætt, almenn kröfulýsing, sértæk kröfulýsing og sérkröfur aðila. Almenna kröfulýsingin lýsir almennum kröfum um gagnauppbyggingu í rafrænum sjúkraskrám, gagnaöryggi, upplýsingaflæði og öðru sem öll sjúkraskrárkerfiskulu uppfylla. Ekki verður heimilt að nota sjúkraskrárkerfi sem ekki uppfylla alla þætti almennu kröfulýsingarinnar. Unnið er að gerð sértækra kröfulýsinga fyrir stofnanir, stofnanahópa eða sérsvið á heilbrigðissviði. Á þessum stofnunum verður ekki heimilt að nota sjúkraskrárkerfi nema þau uppfylli bæði almennu kröfulýsinguna og þær sértæku kröfulýsingar sem við eiga á hverju sviði fyrir sig. Stofnanir hafa engu að síður allmikið frelsi til að móta eigin kröfur til sjúkraskrárkerfisins. Þær nefnast sérkröfur stofnunar. Þetta þýðir að til grundvallar vali á sjúkraskrárkerfum og öðrum hugbúnaðarkerfum skuli ætíð liggja staðfestar kröfulýsingar.
Kröfulýsingar... Pdf.skjal

Ársskýrsla Landlæknisembættisins árið 2001 komin út
Út er komin ársskýrsla Landlæknisembættisins fyrir árið 2001. Í skýrslunni er fjallað um hlutverk embættisins, skipulag, starfsmenn og fjárhag á árinu. Þá er í skýrslunni sérstakur kafli um sóttvarnir, kvartanir, kærur og margt fleira. Meðal þess sem fram kemur í skýrslunni er að verulegur árangur náðist í endurskipulagningu á starfsemi og rekstri embættisins. Náðist að snúa taprekstri í hagnað og var tekjuafgangur 64,5 milljónir kr. á móti tapi upp á 7,1 millj. kr. árið áður. Umtalsvert dró úr kampýlóbaktersýkingum árið 2001 miðað við fyrri ár. Er það þakkað umfangsmikilli vöktun í kjúklingaeldi og aðgerðum sem gripið var til ef sýkinga varð vart. Ekki varð vart sjúkdómstilfella af völdum fjölónæmrar Salmónella typhimurium á árinu, en hún olli faraldri haustið 2000. Yfir tvöþúsund tilfelli kynsjúkdómsins klamedýu voru skráð árið 2001 og eru það fleiri tilfelli en nokkru sinni fyrr. Eru Íslendingar nú með hæstu tíðni sjúkdómsins á Norðurlöndunum. Þrjúhundruð fimmtíu og sex kvartanir og/eða kærur er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar bárust Landlæknisembættinu árið 2001. Það er svipaður fjöldi og árið 2001 en það ár varð umtalsverð fjölgun á kvartana- og kærumála til embættisins og hefur þeim raunar fjölgað ár frá ári. Flest mál varða meint mistök og næstflest samskiptaörðugleika. Um sexhundruð einstaklingar sögðu sig úr miðlægum gagnagrunni á heilbrigðissviði árið 2001. Alls hafa þá rúmlega tuttugu þúsund manns sagt sig úr grunninum frá upphafi. Um þetta og margt fleira má lesa í ársskýrslu Landlæknisembættisins sem birt er á heimasíðu embættisins.
ÁRSSKÝRSLAN Á VEF LANDLÆKNISEMBÆTTISINS... Pdf.skjal

Íslendingar viljugir að gefa líffæri úr sér til ættingja og vina
Eftirspurn eftir líffærum í ígræðslur fer ört vaxandi með aukinni þekkingu og tækni í læknavísindum og betri lyfjum sem gera ígræðslur að betri kosti en áður. Þetta kom fram á norrænni ráðstefnu um líffæraflutinga sem haldin var í Reykjavík í vikunni. Spánverjar hafa náð miklum árangri í að safna líffærum til ígræðslu og tekst að útvega um 33 líffæri að jafnaði fyrir hverja milljón íbúa. Austurríkismenn koma næstir Spánverjum með um 15 líffæri á hverja milljón íbúa, þ.e. innan við helmingur þess sem Spánverjum tekst að útvega. Á ráðstefnunni kom fram að af líffæraígræðslum er mest grætt af nýrum í Íslendinga. Ísland hefur sérstöðu í heiminum að því leyti að hér er algengara en nokkurs staðar að nýru séu grædd í sjúklinga úr lifandi fólki eða í um sjö af hverjum tíu skiptum. Aðgerðir vegna líffæraflutninga eru ekki gerðar hér á landi en í gildi er samningur við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn um líffæraflutninga fyrir Íslendinga. Á annað hundrað aðgerðir vegna nýrnaígræðslu hafa verið gerðar á Íslendingum við Rigshospitalet sl. 30 ár. Landlæknisembættið gaf út fræðslubækling um líffæragjafir í fyrra og er hægt að nálgast hann í afgreiðslu embættisins, lyfjabúðum og afgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins víða um land og í móttökum Landspítala - háskólasjúkrahúss. Auk fræðslu um líffæragjafir eru í bæklingnum líffæragjafakort á stærð við greiðslukort sem hægt er að fylla út og geyma í veski.

Breyting í stjórn LSH
Þórir Kjartansson byggingaverkfræðingur hefur tekið sæti í stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahús. Hann kemur inn í stjórnarnefnd sem aðalmaður fyrir Thomas Möller sem hvarf úr stjórnarnefnd þegar hann var ráðinn aðstoðarforstjóri Lyfjaverslunar Íslands hf. Þórir er rekstrarráðgjafi í eigin fyrirtæki, Íslenskri fjárfestingu ehf. Síðustu árin var hann framkvæmdastjóri Þórsbrunns hf. Hann sat í stjórn Sjúkrahúss Reykjavíkur 1998 til 1999. Breytingin tók gildi 3. maí sl.



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
24. maí 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta