Hoppa yfir valmynd
4. júní 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherra í Kína.


Í dag lauk í Peking opinberri heimsókn Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra til Kína. Umhverfisráðherra átti í heimsókninni viðræður við umhverfisráðherra Kína hr. Xie Zhenhua, frú Shen Shuji vara-forseta samtaka kínverskra kvenna, frú Liu Shuying vararíkisstjóra Jilin héraðs í norðaustur Kína. Einnig heimsótti umhverfisráðherra kínversku Landmælingastofnunina og Jarðskjálftastofnunina.


Umhverfisráðherrarnir ræddu um fyrirhugaðan leiðtogafund um sjálfbæra þróun sem haldinn verður í Jóhannesarborg í lok ágúst og lagði Siv Friðleifsdóttir áherslu á að Ísland vænti þess að á fundinum næðist samstaða um málefni hafsins og aukna nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa svo sem jarðhita. Rætt var um aukna samvinnu þjóðanna á sviði jarðhitanýtingar og stöðu jarðskjálftarannsókna og vöktun vegna náttúruhamfara. Sérstaklega var rætt um fyrirhugað samvinnuverkefni íslensku fyrirtækjanna Enex og Orkuveitu Reykjavíkur og kínverskra fyrirtækja um jarðhitavirkjun til húshitunar í Peking. Þá ræddu ráðherrarnir möguleika á aukinni samvinnu landanna á sviði landgræðslu en uppblástur og gróðureyðing er vaxandi vandamál í Kína.


Á fundi umhverfisráðherra og varaforseta samtaka kínverskra kvenna voru rædd jafnréttismál, réttindi kvenna og þátttaka þeirra í stjórnmálum. Á fundi umhverfisráðherra og vararíkisstjóra Jilin var rætt um jarðskjálftavöktun en jarðskjálftar eru tíðir og eldvirkni töluverð í Jilin héraði. Vararíkisstjóri Jilin héraðs er væntanleg til Íslands í lok sumars ásamt sendinefnd frá Jarðskjálftastofnun Kína til viðræðna við íslenska sérfræðinga á sviði jarðskjálftarannsókna.


Með umhverfisráðherra í för eru Magnús Jóhannesson ráðuneytisstjóri, Magnús Jónsson veðurstofustjóri og Magnús Guðmundsson forstjóri Landmælinga Íslands.

Fréttatilkynning nr. 11/2002
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta