056/02 Íslensk menningarhátíð í Austurríki
Nr. 56
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Íslensk menningarhátíð hefst í dag, miðvikudaginn 5. júní, í Literaturhaus Salzburg í Austurríki. Menningarhátíðin verður haldin í Salzburg dagana 5.-7. júní og samanstendur af upplestri íslenskra rithöfunda úr verkum sínum, myndlistarsýningu og sýningu kvikmyndanna Atomstöðin og Djöflaeyjan. Í dag mun Halldór Guðmundsson, bókmenntafræðingur, halda erindi um verk Halldórs Kiljan Laxness. Þann 6. júní mun Einar Kárason lesa upp úr skáldverkum sínum og þann 7. júní munu rithöfundarnir Elín Ebba Gunnarsdóttir, Linda Vilhjálmsdóttir og Sjón lesa úr skáldverkum sínum. Þann 7. júní verður jafnframt móttaka sendiráðs Íslands í Austurríki fyrir gesti.
Yfirstandandi er sýning listamannsins Sigurðar Guðmundssonar á ljósmyndaverkum og nýjum skúlptúrum (Fotos, Poems, Bonbons) í Literaturhaus Salzburg.
Samstarfsaðilar með Literaturhaus Salzburg vegna menningarhátíðarinnar eru sendiráð Íslands í Vínarborg, Flugleiðir hf., Bókmenntakynningarsjóður, Kvikmyndasjóður Íslands, Gallerí I8, Edda-Miðlun og Goethe-zentrum á Íslandi.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 5. júní 2002.