Hoppa yfir valmynd
7. júní 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 1. - 7. júní 2002

Fréttapistill vikunnar
1. - 7. júní 2002


Úrskurður kjaranefndar um læknisvottorð stendur
Héraðsdómur hefur staðfest úrskurð kjaranefndar um útgáfu læknisvottorða. Félag íslenskra heimilislækna krafðist þess fyrir dómi að felldur yrði úr gildi úrskurður kjaranefndar um að útgáfa vottorða tilheyrði aðalstarfi lækna og þeim væri ekki heimilt að taka sér sérstaka þóknun fyrir þau umfram það sem kjaranefnd úrskurðaði um laun þeirra. Félag heimilislækna taldi m.a. að rökstuðningi kjaranefndar væri áfátt og að andmælaréttur hefði ekki verið virtur. Héraðsdómur styður hins vegar það álit kjaranefndar að útgáfa læknisvottorða sé liður í almennri þjónustu heilsugæslulækna enda verði sú þjónusta vart skilin frá almennri læknisþjónustu.

Nýjar reglur um maka- og umönnunarbætur - tekjutenging afnumin
Settar hafa verið nýjar reglur um maka- og umönnunarbætur sem taka gildi 1. júlí n.k. Við breytinguna hækka bætur til þeirra sem nú fá greiddar skertar makabætur vegna tekna, þar sem tekjutenging hefur verið afnumin. Samkvæmt þessum nýju reglum er Tryggingastofnun ríkisins heimilt, ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi, að greiða öðrum sem halda heimili með elli- eða örorkulífeyrisþega umönnunarbætur sem nema sömu fjárhæð og makabætur. Lögheimili lífeyrisþega og þess er annast hann verður að vera sameiginlegt, auk þess sem sýna verður fram á tekjutap eða tekjumissi umsækjanda eða lífeyrisþega. Umsókn verður einnig að fylgja læknisvottorð þar sem umönnunarþörf lífeyrisþega er tilgreind.
NÁNAR Á HEIMASÍÐU TR...

Staðgreiðsluskylda sjúkra- og slysadagpeninga
Frá og með 1. júní 2002 verða sjúkra- og slysadagpeningar frá Tryggingastofnun staðgreiðsluskyldir. Sjúkra- og slysadagpeningar hafa ávallt verið skattskyldir, en fram til þessa hefur uppgjör farið fram árlega. Staðgreiðsluskyldan er ákvörðun fjármálaráðuneytis og er viðskiptavinum til hagræðis. Til að nýta persónuafslátt er nauðsynlegt að framvísa skattkorti hjá Tryggingastofnun eða umboðsskrifstofum hennar sem eru hjá sýslumannsembættum um allt land.

Vinnuslysum fer fækkandi
Um 1.300 manns slösuðust í vinnuslysum árið 2001. Það eru um 100 færri vinnuslys en árið áður. Einn maður lést í vinnuslysi í fyrra, en árið áður létust fimm manns í vinnuslysum. Þetta kemur fram í ársskýrslu Vinnueftirlits ríkisins fyrir árið 2001. Í skýrslunni kemur einnig fram að búast megi við að talan frá síðasta ári muni hækka eitthvað, þar sem tilkynningar um vinnuslys berist oft löngu eftir að slys verða. Flestir slösuðust við byggingu og viðgerð mannvirkja en næst áhættumesta atvinnugreinin er fiskiðnaðar, þar sem um 150 manns slösuðust. Í skýrslu Vinnumálastofnunar kemur fram að samkvæmt rannsóknum Evrópusambandsins láti um 5.500 manns lífið árlega vegna vinnuslysa í ríkjum sambandsins. Þá er kostnaður vegna slíkra slysa og atvinnutengdra sjúkdóma talinn geta numið allt að þremur til fjórum prósentum af landsframleiðslu.

Breyting í stjórnarnefnd Landspítala - háskólasjúkrahúss
Esther Guðmundsdóttir hefur verið skipuð varaformaður stjórnarnefndar Landspítala - háskólasjúkrahúss frá 5. júní 2002 til 22. desember 2003. Landspítali - háskólasjúkrahús er undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og er stjórn sjúkrahússins að öðru leyti falin 7 manna stjórnarnefnd sem skipuð er til fjögurra ára í senn. Nefndin er skipuð þannig að starfsmannaráð sjúkrahússins tilnefnir tvo menn, Alþingi fjóra og ráðherra skipar einn án tilnefningar og er hann jafnframt formaður.
STJÓRNARNEFND LSH

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
31. maí 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta