Varnarmálaráðherrafundir
Nr. 059
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Varnarmálaráðherrafundir Atlantshafsbandalagsins, NATO-Rússlandsráðsins (NRC), samvinnuráðs NATO og Úkraínu (NUC), og Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins (EAPC) voru haldnir í Brussel 6. og 7. júní.
Eitt helsta umræðuefnið á fundi varnarmálaráðherra Atlantshafsbandalagsins var baráttan gegn alþjóðlegri hermdar- og hryðjuverkastarfsemi og hvernig efla megi varnir gegn hugsanlegri notkun gereyðingarvopna. Einnig ræddu varnarmálaráðherrarnir herstjórnarskipulag bandalagsins og samþykktu að hefja endurskoðun þess í ljósi breyttra aðstæðna í öryggismálum og fyrirhugaðri fjölgun aðildarríkja. Fjárframlög til varnarmála voru einnig rædd, en talið er nauðsynlegt að auka þau til að endurnýja liðsafla og búnað aðildarríkjanna. Í yfirlýsingu fundarins var formlegri tilkynningu Íslands, um framlag til liðsaflamarkmiðs bandalagsins fagnað, en í henni felst að Ísland er reiðubúið að leggja friðaraðgerðum bandalagsins lið með borgaralegum sérfræðingum eftir því sem aðstæður leyfa.
Fundur NATO-Rússlandsráðsins (NRC) var fyrsti formlegi ráðherrafundur þess eftir að leiðtogar aðildarríkjanna undirrituðu yfirlýsingu um stofnun ráðsins 28. maí s.l., en varnarmálaráðherrarnir samþykktu verkefnalista næstu mánaða og felst í honum að hafið verði hið fyrsta samstarf á ýmsum sviðum, m.a. um leit og björgun á sjó, baráttu gegn hryðjuverkum og friðaraðgerðir. Samstarfsáætlun NATO og Úkraínu (NUC) var aðalefni fundar samvinnuráðsins og voru einkum ræddar leiðir til að auka samstarf vegna endurskipulagningar og endurbóta á varnarmálum Úkraínu með aðstoð bandalagsins. Framtíð Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins (EAPC), hlutverk þess í baráttunni gegn hryðjuverkum og ástandið á Balkanskaga voru helstu umræðuefni EAPC fundarins.
Meðfylgjandi eru yfirlýsingar fundanna.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 07.06.2002