Hoppa yfir valmynd
21. júní 2002 Matvælaráðuneytið

Nýr stjórnarformaður Byggðastofnunar.

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Ávarp á aðalfundi Byggðastofnunar,
Félagsheimilinu Hnífsdal, 21. júní 2002.


Fundarstjóri góðir fundarmenn!
Byggðastefna er skipuleg viðleitni stjórnvalda til að hafa áhrif á þróun byggðar í tilteknum landshlutum, héruðum eða byggðarlögum. Það er samheiti yfir margvíslegar opinberar aðgerðir sem ætlað er að styðja þau byggðarlög, héruð eða landshluta þar sem búsetuskilyrði fólks og starfsskilyrði atvinnuvega eru lakari en þar sem byggð dafnar, atvinnulíf gengur vel og fólk er flest.

Byggðastefna tekur til fjölda málaflokka og varðar ýmsa þætti í stefnumörkun stjórnvalda; hún byggist meðal annars á því að samræma og samhæfa framkvæmdir og starfsemi á ýmsum sviðum hins opinbera. Þær opinberu aðgerðir sem eru liður í byggðastefnu geta verið af ýmsu tagi. Má þar nefna: beinar lán- og styrkveitingar til brýnna verkefna; stuðning við rannsóknir, ráðgjöf, nýsköpun og uppbyggingarstarf í atvinnulífinu; stefnumótun í avinnugreinum sem mikilvægar eru á landsbyggðinni, t.d. landbúnaði og sjávarútvegi; uppbyggingu samgöngu-, orku- og fjarskiptakerfa; valddreifingu í stjórnsýslunni, t.d. með eflingu sveitarfélaga; skattaívilnanir, og svo mætti áfram telja.

Þótt framkvæmd byggðastefnu sé á ábyrgð eins ráðuneytis snertir hún starfsemi flestra þeirra með einum eða öðrum hætti. Í hinni nýju byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti í vor er lögð áhersla á það. Í sérstakri framkvæmdaáætlun eru skilgreind rúmlega 20 verkefni og er ýmsum ráðuneytum falin framkvæmd þeirra.

Byggðastefna er í senn pólitískt og faglegt viðfangsefni. Í rökræðum um byggðastefnu hafa tekist á ólík pólitísk sjónarmið, svo sem hugmyndir um ríkisforsjá og markaðshyggju, um það hversu langt eigi að ganga í jöfnunaraðgerðum milli svæða, um valddreifingu milli stjórnsýslustiga og um það hversu mikið kapp eigi að leggja á að byggja upp kjarnasvæði og hve mikla áherslu eigi að leggja á að viðhalda byggðum sem eru fámennar, afskekktar og hnignandi. Á hinn bóginn er það faglegt úrlausnarefni að greina þróun byggðarinnar, orsakir hennar og árangursríkustu leiðirnar til að treysta byggðir í landinu. Stuðningsaðgerðir hins opinbera þurfa að vera hagkvæmar og árangursríkar og forðast ber handahófskenndar og dýrar stuðningsaðgerðir sem gagnast fáum og eru aðeins til skamms tíma. Jafnframt þarf sífellt að leita leiða til að meta árangur af framkvæmd stuðningsaðgerða svo þær séu á hverjum tíma í sem bestu samræmi við aðstæður og þarfir einstaklinga, byggðarlaga og atvinnulífs.

Byggðastefna á að vera liður í því almenna hlutverki hins opinbera að skipuleggja samfélagið og hafa áhrif á þróun þess til heilla fyrir borgarana. Rökin fyrir því að hið opinbera hafi áhrif á þróun byggðar í landinu má í megindráttum flokka í fernt og kenna við menningu, nýtingu auðlinda, jafnrétti borgaranna og aðlögun byggðar.

Samkvæmt lögum um Byggðastofnun, sem fyrst voru sett 1985 en hefur síðan verið breytt, ber að leggja tillögu um stefnumótandi byggðaáætlun til fjögurra ára fyrir Alþingi. Það var fyrst gert 1993, síðan 1997 og nú í þriðja sinn í upphafi þessa árs. Þótt í stefnumótandi byggðaáætlun felist áætlun um margvíslegar opinberar aðgerðir sem hafa það að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni má segja að fjölmargar aðrar aðgerðir hins opinbera hafi ekki síður áhrif á þróun byggðar í landinu. Má þar nefna stefnu í sveitarstjórnarmálum, landbúnaðarmálum, sjávarútvegsmálum, samgöngumálum og umhverfismálum.

Rannsóknir sýna að afstaða fólks til byggðarlaga og búsetu tekur mið af atvinnukostum, þar sem gerðar eru sífellt meiri kröfur um fjölbreytni í starfsvali, áhugaverð og krefjandi störf og góð starfskjör, auk krafna um ýmsa aðra þætti tengda þjónustu og umhverfi. Byggðastefna þarf því að styrkja marga búsetuþætti í senn. Hér er hlutverk ríkisins þýðingarmikið, bæði vegna þess að það ber ábyrgð á skipulagi og rekstri opinberrar þjónustu og vegna þess að það getur með stefnumörkun og lagasetningu í ýmsum málaflokkum, opinberum framkvæmdum og ýmsum aðgerðum, haft áhrif á almenn búsetuskilyrði fólks.

Aukin menntun og nýjar atvinnugreinar sem byggjast í vaxandi mæli á þekkingu, útivinna beggja foreldra, meiri hreyfanleiki og vaxandi velmegun, er meðal þess sem veldur því að almenningur gerir nú kröfur um fjölbreytilegri atvinnukosti og betri þjónustu en áður var. Flest bendir til að vaxandi áhersla verði lögð á góða menntun og fjölbreytni í atvinnulífi og þjónustu á komandi árum. Þó er rétt að hafa í huga og ýmislegt bendir til þess að viðhorf fólks muni breytast þannig í nánustu framtíð að þeir kostir sem fámennið hefur uppá að bjóða fái aukið vægi.

Auknar kröfur eru gerðar til sveitarfélaga um að skapa góð og nokkuð örugg búsetuskilyrði sem laða að fólk og fyrirtæki. Hætt er við að sveitarfélög sem ekki geta boðið upp á góð búsetuskilyrði eigi í vök að verjast. Þó er rétt að hafa í huga að alls ekki er víst að þetta eigi við alls staðar. Fjölbreytt atvinnulíf og þjónusta er ekki hið eina sem gerir byggðarlög áhugaverð og eftirsóknarverð til búsetu. Áfram munu verða á Íslandi mörg tiltölulega fámenn og frekar afskekkt byggðarlög þar sem afkoma fólks byggist nær eingöngu á sjávarútvegi eða landbúnaði. Þau geta, eðli máls samkvæmt, ekki boðið upp á mikla fjölbreytni í atvinnulífi og þjónustu. Með því að nýta sér vel undirstöðuauðlindir þjóðarinnar geta mörg þeirra staðið undir góðu mannlífi og íbúarnir notið náinna tengsla við náttúru landsins. Byggðarlög af þessu tagi hafa upp á margt að bjóða til dæmis fyrir þá sem lifa vilja kyrrlátu lífi í nánu sambýli við náttúruna. Tilvist slíkra byggðarlaga eykur í reynd fjölbreytileika þjóðlífsins og skapar tækifæri fyrir fólk til ólíkra lífshátta. Mestu skiptir að slíkum byggðarlögum sé með einhverju móti tryggður aðgangur að náttúruauðlindunum, þar sé góð og örugg grunnþjónusta, og samgöngur og fjarskipti séu greið.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að Byggðastofnun hefur gengið í gegnum erfitt tímabil síðustu missiri. Deilur forstjóra og stjórnarformanns, sem m.a. hafa verið fyrirferðarmiklar í fjölmiðlum, leiddu til þess að um skeið var komið upp þrátefli í stjórnun stofnunarinnar. Fyrir þetta leið bæði starfsfólkið og starfsemin. Þessi erfiða staða hefur nú verið leyst, þar eð báðir deiluaðilar hafa lýst því, að með hagsmuni og orðstír Byggðastofnunar að leiðarljósi hafi þeir ákveðið að víkja úr stöðum sínum. Nú eiga því að hafa skapast skilyrði til þess að stofnunin verði á ný öflugt tæki til að hrinda í framkvæmd þeim framfaramálum er felast í nýrri byggðaáætlun og ég gat um hér áðan.

Fyrr í vetur fór ég þess á leit við Pál Hreinsson, lagaprófessor og Hrafnkel Óskarsson, deildarsérfræðing í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum, að þeir tækju saman lögfræðilega álitsgerð um stöðu Byggðastofnunar í stjórnkerfinu og heimildir ráðherra gagnvart stofnuninni. Jafnframt óskaði ég þess að gerð yrði grein fyrir innbyrðis verkaskiptingu stjórnar og forstjóra stofnunarinnar og innbyrðis réttindum og skyldum stjórnar og forstjóra.

Í áliti lögfræðinganna tveggja eru m.a. raktar þær breytingar sem gerðar voru á stöðu Byggðastofnunar í stjórnkerfi ríkisins með lögum nr. 106/1999, og afleiðingar þeirra.

Með þeim breytingum var stofnunin færð undir yfirstjórn iðnaðarráðherra, í stað þess að vera sjálfstæð ríkisstofnun svo sem áður var. Tilgangur löggjafans með þeirri breytingu var sá að ákvarðanir stofnunarinnar yrði unnt að kæra til ráðherra og að hann yrði jafnframt ábyrgur fyrir málefnum stofnunarinnar gagnvart Alþingi og samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð.

Í dag er því svokallað stjórnsýslusamband milli ráðherra og Byggðastofnunar. Í því felst m.a. skylda ráðherra til að hafa almennt eftirlit með því að starfræksla hennar sé í samræmi við lög. Þá hefur ráðherra ótvírætt boðvald, það er að gefa stofnuninni bindandi fyrirmæli um framkvæmd þeirra verkefna sem henni eru falin.

Önnur breyting, sem lögin frá 1999 fólu í sér, var sú að færa stefnumótun í byggðamálum til ráðherra í ríkara mæli en áður var. Byggðaáætlun er, eins og kunnugt er, megin stjórntækið við mótun byggðastefnu ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt eldri lögum um Byggðastofnun var gerð byggðaáætlana alfarið á hendi stofnunarinnar. Nú er þetta orðað svo í lögum að iðnaðarráðherra skuli vinna að byggðaáætlun í samvinnu við Byggðastofnun og að höfðu samráði við önnur ráðuneyti, sveitarfélög og aðra aðila eftir þörfum. Í álitsgerðinni er auk þess bent á að með nýjum lögum hafi verið lögð aukin áhersla á rannsóknarhlutverk Byggðastofnunar.

Er því niðurstaða lögfræðinganna sú, með hliðsjón af orðalagi núgildandi laga, og þeim markmiðum sem að var stefnt með setningu þeirra, að hlutverk Byggðastofnunar varðandi byggðaáætlun sé breytt. Í stað þess að hafa frumkvæði að stefnumótun á þessu sviði sé hlutverk stofnunarinnar nú fremur að veita sérfræðilega ráðgjöf við stefnumótun og koma síðan mótaðri stefnu í framkvæmd. Breyttar reglur um skipan stjórnar stofnunarinnar endurspegla þessa staðreynd: Í stað þingkjörinnar stjórnar kemur ráðherraskipuð stjórn.

Valdsvið og verkefni stjórnar eru tilgreind í lögunum um Byggðastofnun. Af ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins leiðir hins vegar, að fjármál og starfsmannamál ríkisstofnana heyra að meginstefnu til undir forstöðumenn þeirra.

Lagafyrirmæli um valdsvið og verkefni forstjóra Byggðastofnunar eru annars af þrennu tagi. Í fyrsta lagi verkefni forstjóra skilgreind í lögum um Byggðastofnun. Þá er að finna fyrirmæli um skyldur forstöðumanna ríkisstofnana í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eins og ég gat um rétt áðan. Loks telst Byggðastofnun vera lánastofnum samkvæmt ákvæðum fjármálalöggjafarinnar. Það þýðir, að þegar ákvæðum laga um Byggðastofnun og starfsmannalaga sleppir, gilda um forstjóra reglur laga um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Sá þáttur í starfi forstjóra, sem snýr að lánastarfsemi, verður því að skoðast í ljósi meginreglna síðarnefndu laganna.

Samkvæmt lögum um Byggðastofnun er stjórn stofnunarinnar falið að ákveða starfsskipulag hennar að því leyti sem það hefur ekki verið gert með reglugerð. Í samræmi við þetta er forstjóra samkvæmt lögunum gert skylt að vinna þau verkefni, sem stjórn felur honum, auk þeirra verkefna sem honum eru beinlínis falin með lögum. Stjórn stofnunarinnar hefur því boðvald gagnvart forstjóra, þótt hún ráði hann ekki til starfans. Forstjóri hefur hins vegar það verkefni að stjórna daglegum rekstri stofnunarinnar, en í því felst m.a. heimild til að taka allar nauðsynlegar ákvarðanir varðandi hinn daglega rekstur, ef annað leiðir ekki af lögum eða reglugerð.

Þetta eru í stuttu máli helstu niðurstöður lögfræðiálitsins. Vænti ég þess að álitið verði nýjum stjórnendum þarflegt gagn við mótun starfsemi stofnunarinnar til frambúðar. Jafnframt er eðlilegt að spurt sé, hvaða lærdóm megi draga af þeim erfiðleikum sem verið hafa í stjórn stofnunarinnar, þar á meðal hvort æskilegt sé að breyta löggjöf um hana eða umgjörð að öðru leyti.

Vert er að huga að því, hvort breytinga sé þörf á innbyrðis valdmörkum stjórnar og framkvæmdastjóra. Er þar tvennt til.

Í fyrsta lagi er hugsanlegt að minnka afskipti stjórnar af einstökum ákvörðunum. Enda þótt Byggðastofnun gegni sérstöku hlutverki við framkvæmd byggðastefnu er til þess að líta að verulegur hluti starfsemi stofnunarinnar er eðlislíkur starfsemi fjármálafyrirtækja almennt. Á ég þar við veitingu lána, innheimtu þeirra og aðgerðir því tengdar. Eins og ég gat um áður, er Byggðastofnun skilgreind sem lánastofnun í skilningi löggjafar um fjármálafyrirtæki.

Í fjármálafyrirtækjum er meginreglan sú að afgreiðsla einstakra erinda eða lánveitingar eru á könnu framkvæmdastjóra/bankastjóra, en stjórn sinnir almennri stefnumótun, t.d. setningu almennra útlánareglna. Með setningu núgildandi laga um Byggðastofnun var að nokkru leyti komið á hliðstæðri verkaskiptingu, þar eð heimild var sett inn í 11. gr. laganna þess efnis að stjórn stofnunarinnar geti falið forstjóra að taka ákvarðanir um einstakar lánveitingar. E.t.v. mætti ganga lengra í þessum efnum.

Í öðru lagi er vert að huga að því stjórn Byggstofnunar verði falið að ráða forstjóra. Með því móti yrði alveg ljóst, að forstjóri sinnti starfi sínu aðeins meðan vilji stjórnar stæði til þess. Kæmi til ágreinings, þyrfti forstjóri tvímælalaust að víkja. Væri þessi leið farin, yrði hins vegar að varpa fyrir róða þeirri skipan, að forstjóri nyti réttarstöðu embættismanns.

Við breytingar á starfsumgjörð Byggðastofnunar er til margs að líta og ríður á miklu, að eingöngu sé ráðist í breytingar að vandlega athuguðu máli, þannig að hið þjóðfélagslega mikilvæga hlutverk stofnunarinnar raskist ekki. Ég á von á því að mál þetta verði kannað af hálfu iðnaðarráðuneytisins á komandi misserum.

Góðir fundamenn

Eins og kunnugt er lætur Theódór Bjarnason af starfi forstjóra Byggðastofnunar í dag að eigin ósk. Ég hef ákveðið að setja Aðalstein Þorsteinsson, yfirmann lögfræðisviðs Byggðastofnunar forstjóra stofnunarinnar frá sama tíma en staðan verður síðan auglýst síðar. Þá hef ég skipað Jón Sigurðsson, hagfræðing, formann stjórnar Byggðastofnunar í stað Kristins H. Gunnarssonar, alþingismanns. Aðrar breytingar verða ekki á aðalstjórn stofnunarinnar. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka þeim Theódóri og Kristni fyrir störf sín í þágu Byggðastofnunar. Ég óska nýjum forstjóra og stjórnarformanni velfarnaðar og vænti þess að sem bestur friður skapist nú um starfsemi Byggðastofnunar þannig að stofnunin geti - með fullu afli - tekið þátt í þeim fjölmörgu verkefnum sem bíða úrlausnar á sviði byggðamála.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta