Hoppa yfir valmynd
28. júní 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 22. - 28. júní 2002

Fréttapistill vikunanr
22. - 28. júní 2002



Starfshópur um starfsendurhæfingu

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað sérstakan starfshóp um starfsendurhæfingu. Skipan hópsins er í samræmi við samþykktir málþings um starfsendurhæfingu sem haldið var í Reykjavík þann 13. nóvember 2001, um að þeir aðilar í þjóðfélaginu sem koma beint eða óbeint að starfsendurhæfingu þurfi nauðsynlega að samhæfa krafta sína, fjármuni og framtíðarsýn. Starfshópnum er ætlað að skila tillögum til ráðherra sem lúta að bættri þjónustu á sviði starfsendurhæfingar og hafa að leiðarljósi þarfir þeirra einstaklinga sem þurfa aðstoð við að fóta sig á nýjum eða breyttum starfsvettvangi. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili ráðherra tillögum sínum fyrir lok þessa árs. Formaður starfshópsins er Sigurður Thorlacius, tryggingayfirlæknir, skipaður af Tryggingastofnun ríkisins. Aðrir nefndarmenn eru Guðmundur Hilmarsson, starfsmaður MFA, tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands. Gunnar Kr. Guðmundsson, endurhæfingarlæknir, tilnefndur af Samstarfsráði um endurhæfingu. Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri, tilnefndur af Landssamtökum lífeyrissjóða. Ragnar Árnason, lögfræðingur, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins. Sigurður P. Sigmundsson, hagfræðingur, tilnefndur af Vinnumálastofnun og Þór G. Þórarinsson, skrifstofustjóri, tilnefndur af félagsmálaráðuneytinu.

Ný staða lektors í öldrunarfræðum stofnuð við Háskóla Íslands
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og rektor Háskóla Íslands undirrituðu í vikunni samning um nýja stöðu lektors í öldrunarfræðum við Háskóla Íslands. Staðan verður kostuð af Framkvæmdasjóði aldraðra. Samningurinn er til fimm ára og verður ráðið í stöðuna frá 1. janúar á næsta ári. Sérsvið lektorsins mun snerta velferðarmál aldraðra, greiningu og ráðgjöf til einstaklinga og fjölskyldna ásamt þróun þjónustu við aldraða. Markmið samningsins er að stuðla að aukinni sérfræðiþekkingu innan málaflokksins og að efla rannsóknir og stefnumörkun á þessu sviði. Framkvæmdasjóður aldraðra greiðir laun rektorsins og launatengd gjöld, samtals 3,7 milljónir króna á ári. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segir samninginn mikilvægan. Þetta sé ört vaxandi málaflokkur innan ráðuneytisins og mikil þörf á þeirri þekkingaröflun og rannsóknum sem leiði af samningnum.

56% íslenskra heimila eru reyklaus
Bannað er að reykja á 56% íslenskra heimila og hefur reyklausum heimilum fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár. Næstum helmingur reykingafólks bannar að reykt sé á heimilum þess. Þetta er meðal niðurstaðna könnunar sem PricewaterhouseCoopers vann fyrir Tóbaksvarnarnefnd. Flest reyklaus heimili eru hjá fólki í aldurshópnum 20 - 39 ára þar sem ekki er leyft að reykja á hátt í 70% heimila. Í aldurshópnum 40 - 69 ára er hlutfallið rétt um helming og eins hjá fólki á aldrinum 80 - 89 ára, en hjá fólki á aldrinum 70 - 79 ára er einungis bannað að reykja á tæplega 40% heimila. Hlutfall reyklausra heimila er hæst þar sem eru börn yngri en tólf ára en þar eru reykingar bannaðar á 69% heimila. Könnunin var gerð í byrjun júní og var úrtakið 1.400 manns á aldrinum 15 - 89 ára á öllu landinu. Svarhlutfall var 63%.

Upplýsingabæklingur Landlæknisembættisins um brjóstastækkanir
Fyrr á þessu ári kom út á vegum Landlæknisembættisins bæklingurinn Brjóstastækkun – Almennar upplýsingar. Honum er einkum ætlað að veita upplýsingar þeim konum sem hugleiða að láta stækka brjóst sín í fegrunarskyni með ígræðslu sílikonfyllinga. Fjallað er um þau efni sem notuð eru til brjóstastækkunar og lýst hvernig aðgerðin fer fram. Þá er greint frá hugsanlegri áhættu sem slíkum aðgerðum fylgir, hvað gerist í líkamanum og hversu lengi aðgerðin endist. Bæklingurinn er gefinn er út í samráði við Félag íslenskra lýtalækna og er honum fyrst og fremst dreift á stofum lýtalækna en einnig má nálgast hann á skrifstofu Landlæknisembættisins. Ennfremur er efni hans aðgengilegt á vefsetri embættisin.
NÁNAR...

Stjórnunarupplýsingar LSH fyrir maí 2002 komnar út
Rekstraruppgjör Landspítala - háskólasjúkrahúss eftir fyrstu fimm mánuði ársins sýnir 319 m.kr. umfram fjárheimildir sem er 3,3% frávik frá fjárheimildum tímabilsins. Til viðbótar er kostnaður við S-merkt lyf 69 m.kr. umfram fjárveitingar. Launagjöld nema tæpum 68% af heildargjöldum sjúkrahússins og eru þau 3,4% hærri en áætlað var fyrir tímabilið. Rekstrargjöld eru tæp 26% af heildargjöldum sjúkrahússins og er sá kostnaðarliður 6,8% umfram áætlun. Þetta er meðal þess sem fram kemur í greinargerð Önnu Lilju Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra við LSH með stjórnunarupplýsingum sjúkrahússins. Þar kemur einnig fram að legudögum á sólarhringsdeildum heldur áfram að fækka. Upplýsingar um fjarvistir vegna veikinda starfsmanna eru birtar að þessu sinni. Í heild hefur fjarvistum vegna veikinda fækkað og eru í ár að meðaltali 5,4% starfsmanna fjarverandi vegna veikinda á hverjum tíma en í fyrra voru það 6,0%.
NÁNAR...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
28. júní 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta