Fréttapistill vikunnar 29. júní - 5. júlí 2002
Fréttapistill vikunnar |
Heyrnartækjasala hjá HTÍ hefur aukist um 207% milli ára
Enduskipulagning á starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands sem nú stendur yfir hefur þegar skilað þeim árangri að fyrstu sex mánuði þessa árs hafa verið seld tæplega 1.500 heyrnartæki. Á sama tímabili í fyrra voru seld 715 tæki og nemur aukningin 207% milli ára. Heyrnartækjasala allt árið í fyrra var 1.720 tæki og nemur salan fyrstu sex mánuði þessa árs 86% af árssölunni í fyrra. Komum til læknis á þessu sama tímabili hefur fjölgað um 22%, heyrnarmælingum um 15%, gerð hafa verið 27% fleiri hlustarmót og viðgerðum á tækjum hefur fjölgað um 59%. Starfsmenn hafa lagt sig fram um að auka afköst og verulegur árangur hefur náðst.
Verðlaun fyrir hönnun nýrrar stjórnarráðsbyggingar
Þýska arkitektafyrirtækið Franken Architekten hlaut fyrstu verðlaun fyrir hönnun nýrrar stjórnarráðsbyggingar sem rísa mun á svonefndum stjórnarráðsreit við Sölfhólsgötu í Reykjavík. Nýja byggingin á að hýsa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, dóms- og kirkjumálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið. Sýning á tillögum sem bárust í hönnunarsamkeppni um nýja ráðuneytisbyggingu verður opin almenningi í Kennaraháskóla Íslands daganna 8.-12. júlí nk. kl. 13-16. Verðlaunatillögur og tillögur sem vöktu sérstaka athygli dómnefndar eru ásamt greinargerð dómnefndar aðgengilegar á netinu, slóðin er www.forsaetisraduneyti.is.
Ný reglugerð um skipan heilsugæslulækna til að sinna sóttvörnum
Heilbrigðis- og trygggingamálaráðherra hefur staðfest nýja reglugerð nr. 451/2002 um skipan heilsugæslulækna til að sinna sóttvörnum. Yfirlæknar eftirtalinna heilsugæslustöðva skulu vera ábyrgir fyrir sóttvörnum í sínu umdæmi undir stjórn sóttvarnarlæknis: Í Reykjavík: Lækningaforstjóri Heilsugæslunnar í Reykjavík. Fyrir Norðurland: Yfirlæknir Heilsugæslunnar á Akureyri. Reglugerðin hefur þegar öðlast gildi.
Bréf framkvæmdastjórnar LSH til starfsmanna vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjúkrahússins
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur skrifað bréf til starfsmanna vegna erfiðrar fjárhagsstöðu sjúkrahússins. Í bréfinu kemur fram að uppsafnaður halli sjúkrahússins um síðustu áramót nam 880 m.kr. og það sem af er þessu ári er rekstrarkostnaður rúmar 320 m.kr. umfram fjáheimildir tímabilsins, auk 70 m.kr. halla vegna S-merktra lyfja. Uppsafnaður halli sjúkrahússins er því nærri 1,3 milljarðar króna. Náðst hefur samkomulag við fjármálayfirvöld um að flýta greiðslum frá ríkissjóði og hafa 600 milljónir króna verðir færðar fram á árið. Í bréfinu segir að þessi fyrirgreiðsla hjálpi erfiðri greiðslustöðu spítalans þótt greiðsluerfiðleikar séu miklir eftir sem áður. Staðið hefur verið í skilum við starfsmenn varðandi launagreiðslur en greiðslur til birgja hafa verið dregnar. Framkvæmdastjórn LSH, heilbrigðis- og fjármálayfirvöld vinna að lausn í málinu.
BRÉF FRAMKVÆMDASTJÓRNAR TIL STARFSMANNA LSH...
Erfðaráðgjöf fyrir fólk með illkynja sjúkdóma
Fyrirhugað er að stofna erfðaráðgjöf við Landspítala - háskólasjúkrahús fyrir fólk með illkynja sjúkdóma. Fjölmargar erfðarannsóknir eru nú gerðar í tengslum við illkynja sjúkdóma. Rannsóknirnar eru flestar gerðar á vegum líftæknifyrirtækja í samvinnu við lækna á Landspítala - háskólasjúkrahúsi. Þegar hafa fjölmargir verið kallaðir í erfðarannsóknir vegna illkynja sjúkdóma. Sumir þeirra hafa greinst með illkynja sjúkdóm, aðrir koma í rannsókn sem skyldfólk, hugsanlega með aukna hættu á illkynja sjúkdómi. Við þetta skapast mikil þörf á vandaðri erfðaráðgjöf, bæði fyrir sjúklinga sem hafa greinst með illkynja sjúkdóm, en ekki síður hina sem gætu verið í áhættuhópi. Erfðaráðgjöfin verður á vegum Lyflækningasviðs II en þjónar öllum krabbameinssjúklingum og ættingjum þeirra. Sagt er frá áformum um stofnun erfðaráðgjafar við LSH í ársskýrslu sjúkrahússins fyrir árið 2001 sem nú er komin út. Í skýrslunni er mikill fróðleikur um starfið á sjúkrahúsinu í texta og tölum. Þar má líka á aðgengilegan hátt fræðast um skipulag LSH.
NÁNAR...
Stækkun Sjúkrahótels RKÍ í Reykjavík
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og formaður Rauða kross Íslands undirrituðu í vikunni samning til þriggja ára sem felur í sér stækkun Sjúkrahótels Rauða kross Íslands í Reykjavík. Með þessu er stórefld þjónusta við sjúklinga sem leita sér lækninga í Reykjavík en þurfa ekki að dvelja á sjúkrahúsi.
NÁNAR...
Lokað vegna sumarleyfa hjá HTÍ 29. júlí - 9. ágúst
Heyrnar- og talmeinastöð Íslands verður lokuð vegna sumarleyfa dagana 29. júlí - 9. ágúst nk. Fram að sumarleyfi og að því loknu er tekið við tímapöntunum alla virka daga frá kl. 8:00 til 16:00 í síma 581 3855. Hægt er að leita þjónustu heyrnartækna á stöðinni daglega án tímapantana á milli kl. 8:15 og 9:15.
HEIMASÍÐA HTÍ...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
5. júlí 2002 |