Rannsóknarnefnd umferðaslysa - skýrsla 2001.
Skýrsla rannsóknarnefndar umferðarslysa fyrir árið 2001
Fréttatilkynning
14/2002
Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur kynnt dómsmálaráðherra skýrslu sína um banaslys í umferðinni árið 2001. Er um að ræða fjórðu ársskýrslu nefndarinnar um banaslys í umferðinni.
Samkvæmt skýrslu nefndarinnar létust 24 einstaklingar í 19 umferðarslysum árið 2001, en það eru 8 færri en árið áður þegar 32 létust í umferðarslysum. Banaslys vegna útafaksturs bifreiða var algengasti flokkur banaslysa eða um helmingur skráðra tilvika. Tveir af hverjum þremur sem létust á síðasta ári voru karlar sem er svipað hlutfall og árin 1998-2001. Sem fyrr eru fleiri ungir ökumenn sem látast í umferðarslysum, flestir á aldrinum 15-24 ára eða 38% tilvika.
Í skýrslu nefndarinnar kemur einnig fram, að verulegar líkur séu taldar á að 23 af þeim einstaklingum sem létust í umferðarslysum á árunum 1998-2001 hefðu komist lífs af ef þeir hefðu verið með bílbelti spennt. Þegar litið er á gögn undanfarinna fjögurra ára kemur í ljós áberandi fylgni milli hámarkshraða, þyngdar ökutækja og banaslysa í umferðinni. Í 67% tilvika, þar sem árekstur varð með ökutækjum, var þyngdarmunur ökutækja tvöfaldur eða meiri og í 90% tilvika létust ökumenn eða farþegar í léttara ökutækinu. Yfir 80% banaslysa verða á vegi þar sem hámarkshraði er 70 km/klst. eða hærri. Á árunum 1998-2001 varð ekkert banaslys á götu þar sem hámarkshraði er 30 km/klst.
Skýrslu um banaslys í umferðinni 2001 er að finna á vef nefndarinnar www.rnu.is.