Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Friðlýsing Árnahellis í Leirahrauni


Umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, undirritaði í dag friðlýsingu Árnahellis í Leitahrauni. Árnahellir fannst árið 1985 og er hann annar hellir landsins sem friðlýstur er með sérstakri friðlýsingu en Jörundur í Lambahrauni var friðlýstur 1985. Auk þeirra eru nokkrir hellar á friðlýstum svæðum sem njóta friðunar.

Að tillögu Hellarannsóknarfélags Íslands lagði Náttúruvernd ríkisins til við umhverfisráðuneytið að hellirinn yrði friðlýstur og hafa þessir aðilað unnið að friðlýsingu hellisins í samvinnu við landeigendur og sveitarfélagið Ölfus.

Árnahellir er meðal merkilegri hraunhella jarðar vegna ósnortinna hraunmyndana sem óvíða finnast annars staðar. Hellirinn er um 150 m langur og liggur á um 20 m dýpi og er breidd hans um og yfir 10 m en lágt er til lofts. Dropsteinum Árnahellis hefur verið líkt við frumskóg en þeir lengstu eru yfir metri á hæð og um 7 cm í þvermál og eru þeir í hópum eða breiðum á hellisgólfinu.

Ljósmynd Hellarannsóknarfélag Íslands

Loftið í hellinum er víða þakið hraunstráum 5-10 mm í þvermál, sum hol að innan og önnur með þunnri gifshúð, en lengd þeirra er allt að 60 cm að því er segir í bókinni Hraunhellar á Íslands eftir Björn Hróarsson. Með friðlýsingunni eru heimsóknir í hellinn og framkvæmdir á svæðinu sem raskað geta hellinum óheimilar nema með leyfi Náttúruverndar ríkisins eða umsjónaraðila hellisins. Hellinum var lokað árið 1995 til þess að koma í veg fyrir skemmdir.

Auk þessarar friðlýsingar gildir auglýsing nr. 120/1974 um friðlýsingu dropasteina um hellinn sem og aðra hella landsins, en samkvæmt henni er óheimilt að brjóta eða skemma á annan hátt dropasteinsmyndanir.

Í tilefni af friðlýsingunni var jafnframt undirritaður samningur milli Náttúruverndar ríkisins og Hellarannsóknarfélags Íslands um ráðgjöf um verndun og friðun hraunhella og umsjón með friðlýstum hraunhellum og hraunhellum sem finnast á friðlýstum svæðum. Umsjón með Árnahelli hefur því verið falin Hellarannsóknarfélagi Íslands fyrir hönd Nátturuverndar ríkisins.

Fréttatilkynning nr. 16/2002
Umhverfisráðuneytið


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta