Greiðsluafkoma ríkissjóðs janúar-júní 2002. Greinargerð: 25. júlí 2002
Nú liggja fyrir tölur um greiðsluafkomu ríkissjóðs á fyrri helmingi ársins. Uppgjörið hér á eftir sýnir sjóðhreyfingar og er sambærilegt við almenn sjóðstreymisyfirlit. Tölurnar eru því ekki samanburðarhæfar við ríkisreikning eða fjárlög ársins sem eru sett fram á rekstrargrunni.
Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 7,7 milljarða króna samanborið við 1,6 milljarða á sama tíma í fyrra. Þetta er tæplega 4 milljörðum króna lakari útkoma en gert var ráð fyrir í fjárlögum sem alfarið stafar af viðbótarútgjöldum. Helstu skýringar á auknum útgjöldum eru auknar vaxtagreiðslur vegna forinnlausnar spariskírteina, áhrif aðgerða stjórnvalda til að halda aftur af verðbólgu í tengslum við framlengingu kjarasamninga á almenna markaðnum, auknar greiðslur til sjúkrahúsa og hjúkrunarheimila, greiðslur til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins vegna uppbóta á lífeyri, aukin framlög til Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna aukins atvinnuleysis og sömuleiðis til Ábyrgðarsjóðs launa til greiðslu launa vegna gjaldþrota. Rétt er að vekja athygli á að verulegur hluti af viðbótarútgjöldunum kemur einungis fram á greiðslugrunni en hefur ekki áhrif á fjárlög ársins sem eru á rekstrargrunni. Hreinn lánsfjárjöfnuður var neikvæður um 4,3 milljarða, samanborið við 3,7 milljarða á sama tíma í fyrra.
Heildartekjur ríkissjóðs námu 113 milljörðum króna og hækka um 5,3 milljarða frá fyrra ári, eða um tæplega 5%. Skatttekjur ríkissjóðs hækka heldur minna, eða um 4S%. Til samanburðar má nefna að almennar verðlagsbreytingar námu um 7% á þessu tímabili og því ljóst að áfram gætir nokkurs samdráttar í efnahagslífinu á fyrri hluta ársins. Hins vegar staðfesta þessar tölur áframhald þróunar undanfarinna mánuða um að samdrátturinn sé í rénun. Til marks um þetta má nefna að tekjur af virðisaukaskatti á fyrri hluta ársins aukast um S% að raungildi samanborið við 7% raungildislækkun á sama tíma í fyrra.
Greidd gjöld nema 120,9 milljörðum króna og hækka um tæpa 11,4 milljarða frá fyrra ári, eða 10,4%. Útgjöld til félagsmála eru 71,9 milljarðar og vega tæp 60% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Þar munar mestu um heilbrigðismál, eða 30,1 milljarð sem hækka um tæplega 3,7 milljarða króna frá fyrra ári. Þá hækka greiðslur til almennrar stjórnsýslu um 1,8 milljarða og til fræðslumála um 1,3 milljarða. Almannatryggingar hækka um tæpa 1,7 milljarða. Greiðslur til atvinnumála í heild hækka um 3,6% þar sem hækkun útgjalda til samgöngumála um 9,5% vegur þyngst á móti lækkun til landbúnaðarmála. Vaxtagreiðslur hækka um tæpar 950 milljónir, eða sem nemur 7,7% milli ára.
Á árinu var tekið erlent langtímalán að fjárhæð 21,6 milljarðar króna. Ætlunin er að auka vægi langtímalána og því er gert ráð fyrir að erlend skammtímalán fari lækkandi á næstu mánuðum og hefur verið greitt niður af erlendum skammtímalánum fyrir um 3,7 milljarða króna það sem af er árinu. Lántökur innanlands námu 7 milljörðum króna. Á móti lántökum vega afborganir að fjárhæð 19,5 milljarðar þar sem rúmlega 10 milljarðar króna fóru til greiðslu erlends langtímaláns og 9,3 milljarðar króna í afborganir og forinnlausn spariskírteina. Þá voru 4,5 milljarðar greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar ríkissjóðs. Greiðsluafkoma ríkissjóðs var neikvæð um 3,4 milljarða króna, samanborið við 1,8 milljarð á sama tíma í fyrra.