Hoppa yfir valmynd
26. júlí 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hótel Eldhestar hljóta Norræna umhverfismerkið Svaninn


Siv Friðleifsdóttir, umhverfisráðherra, hefur veitt Hótel Eldhestum Norræna umhverfismerkið Svaninn. Hótel Eldhestar er fyrsta hótelið sem hlýtur vottun Norræna umhverfismerkisins á Íslandi.

Hótel Eldhestar er nýtt sveitahótel í næsta nágrenni Hveragerðis. Forsvarsmenn þess hafa frá upphafi lagt mikla áherslu á umhverfismál og stenst nú hótelið kröfur norræna umhverfismerkisins Svansins. Þær kröfur eru ítarlegar og taka til allra þátta hótelstarfseminnar, s.s. uppbyggingar, búnaðar, umhverfisstjórnunar og aðhalds í orku- og hráefnanotkun.

Nú þegar hafa 33 hótel hlotið norræna umhverfismerkið, þar af 28 í Svíþjóð, fjögur í Noregi og eitt í Finnlandi, og nú bætist eitt við, hið fyrsta á Íslandi sem fyrr segir.

Svanurinn er Norrænt umhverfismerki sem Norræna ráðherranefndin setti á stofn árið 1989. Öll Norðurlöndin taka þátt í samstarfinu um Svaninn. Fyrstu vörurnar sem báru Norræna umhverfismerkið komu á markað árið 1991 og hefur fjöldi merktra vara aukist stöðugt síðan. Á Íslandi eru um 70 leyfi útgefin til merkingar á 16 vöruflokkum. Á síðustu árum hefur Svanurinn þróað viðmiðunarreglur fyrir þjónustuaðila eins og bílaþvottastöðvar, þvottahús og hótel.

Hótel Eldhestar sem nú hefur fengið Norræna umhverfismerkið fyrir hótelþjónustu er fjórða íslenska fyrirtækið sem fær leyfi til að nota Norræna umhverfismerkið. Hin fyrirtækin eru Frigg fyrir Maraþon milt þvottaefni, Prentsmiðjan hjá GuðjónÓ fyrir prentverk og S. Hólm fyrir iðnaðarhreinsiefnið Undra.

Á heimasíðu Hollustuverndar ríkisins, www.hollver.is, er að finna nánari upplýsingar um Norræna umhverfismerkið Svaninn.


Fréttatilkynning nr. 17/2002
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta