Ógilding sveitarstjórnarkosninga í Borgarbyggð
Ráðuneytið hefur ákveðið með úrskurði uppkveðnum í gær að ógilda sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru í Borgarbyggð 25. maí 2002. Mjótt var á munum og réði hlutkesti úrslitum milli annars manns á L-lista og fjórða manns á B-lista. Niðurstaða hlutkestisins var sú að annar maður L-lista náði kjöri. Umboðsmenn B-lista kærðu úrslit kosninganna til sýslumanns sem skipaði nefnd til að fjalla um kæruna. Niðurstaða nefndarinnar var sú að úrslit kosninganna skyldu standa óbreytt en úrskurður nefndarinnar var kærður til ráðuneytisins.
Í úrskurði ráðuneytisins er komist að þeirri niðurstöðu að svo alvarlegir hnökrar hafi verið á framkvæmd kosninganna í Borgarbyggð að nauðsynlegt sé að ógilda úrslit kosninganna og láta kosningu fara fram að nýju. Byggist þessi niðurstaða ráðuneytisins á eftirtöldum atriðum:
- Átta atkvæði sem greidd voru utan kjörfundar eru ógild þar sem undirskrift kjósanda vantaði á fylgibréf.
- Eitt af þessum átta atkvæðum var af undirkjörstjórn sett í kjörkassa og talið sem gilt væri.
- Yfirkjörstjórn láðist að taka gilt atkvæði sem greitt var utan kjörfundar þar sem undirskrift kjósanda var ekki rituð á réttan stað á fylgibréfi. Ráðuneytið telur að ef atkvæðið yrði opnað nú væri ekki unnt að tryggja viðkomandi kjósanda leynd um það hvernig hann greiddi atkvæði.
- Vegna þess að atkvæði voru jöfn þegar kom að skipan í níunda sæti í bæjarstjórn er ljóst að hvert atkvæði skiptir máli og er til þess fallið að hafa áhrif á úrslit kosninganna. Er því ekki önnur leið fær en að ógilda kosningarnar, sbr. orðalag 94. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.
Þar til löglega kjörin bæjarstjórn tekur við störfum getur starfandi bæjarstjórn Borgarbyggðar ekki innt af hendi neinar greiðslur eða gengist undir nokkrar skuldbindingar fyrir hönd sveitarfélagsins nema samkvæmt heimild í fjárhagsáætlun, lögum, almennum fyrirmælum stjórnvalda eða með leyfi félagsmálaráðuneytisins.
Úrskurður ráðuneytisins (PDF, 500 KB)
Úrskurður ráðuneytisins (DOC, 900 KB)