Fréttapistill vikunnar 17. - 23. ágúst 2002
Fréttapistill vikunnar
17. - 23. ágúst 2002
Frítekjumörk almannatrygginga hækka
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, ákvað í dag að frítekjumörk almannatrygginga hækki um 8,9% frá 1. september n.k. Þetta þýðir að tekjuviðmiðun bóta, sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir, og endurskoðuð er ár hvert, hækkar sem þessu nemur. Í stað tekna ársins 2000 verður frá 1. september n.k. miðað við tekjur ársins 2001 samkvæmt skattframtölum. Þetta er gert með hliðsjón af 65. gr. laga um almannatryggingar. Viðmiðunarfjárhæðir í reglugerð nr. 47/1990 um stofnanaþjónustu fyrir aldraða hækka einnig um 8,9 af hundraði 1. september.
"Læknar í starfsnámi"
Starfshópurinn sem skilgreina á hverjir falla undir hugtakið "læknar í starfsnámi" er skipaður fulltrúum frá Landspítala-háskólasjúkrahúsi, læknadeild Háskóla Íslands, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Formaður starfshópsins og fulltrúi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í heilbrigðis-og tryggingamálaráðuneytinu. Vinnuhópnum er gert að skila áliti sínu fyrir 15. september næst komandi. Í framhaldi af ósk Félags ungra lækna og Læknafélags Íslands var ákveðið að skipa tvo fulltrúa úr þeirra hópi til viðbótar í vinnuhópinn.
Uppbygging öldrunarþjónustu
Skipaðar hafa verið tvær nefndir á vegum heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra til að meta ýmsa þætti er varða uppbyggingu þjónustu við aldraða í viðkomandi bæjarfélögum. Annars vegar er um að ræða starfshóp sem hefur það hlutverk að áætla þörf fyrir hjúkrunarrými, meta þörf fyrir annars konar úrræði fyrir aldraða og huga m.a. að húsnæði vegna þjónustunnar á Akureyri og hins vegar tilsvarandi starfshóp, sem meta á þörfina fyrir sambærilega þjónustu í Garðabæ. Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri í Garðabæ, hefur verið tilnefnd til setu í nefndinni af hálfu Garðabæjar og í dag tilkynntu bæjaryfirvöld á Akureyri að Jakob Björnsson, formaður félagsmálaráðs Akureyrar, og Karl Guðmundsson, sviðsstjóri félagssviðs bæjarins, yrðu fulltrúar af hálfu Akureyrar. Fulltrúar heilbrigðisráðherra í báðum nefndunum verða Elsa B. Friðfinnsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, sem er formaður beggja, Hrafn Pálsson, deildarstjóri, og Hermann Bjarnason, deildarstjóri.
23. ágúst 2002