Aukið matvælaöryggi á Norðurlöndum .
Fréttatilkynning nr. 11/2002
Aukið matvælaöryggi á Norðurlöndum
Fréttatilkynning frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytum
Ráðherrar samþykktu sérstaka yfirlýsingu um þá þætti matvælaöryggis sem þeir hyggjast leggja áherslu á á næsta ári. Yfirlýsingin á að stuðla að auknu öryggi matvæla og meiri gæðum, annars vegar með samvinnu um að auka áhrif Norðurlanda á alþjóðavettvangi þar sem þessi mál eru til umræðu og hins vegar með því að auka áhrif neytenda. Guðni Ágústsson fagnaði þessari yfirlýsingu og gerði að umtalsefni hvað hreint umhverfi og hollar afurðir skipta framleiðendur og neytendur miklu. Á Íslandi hefðu á undanförnum árum verið settar markvissar reglur til að tryggja gæði og rekjanleika framleiðslunnar svo fyrirbyggja megi að sýktar landbúnaðarafurðir berist á borð neytenda.
Árni M. Mathiesen gerði grein fyrir áhyggjum margra fiskveiðiþjóða af hugmyndum um að setja fisk á lista CITES, alþjóðlegs samnings sem hindrar verslun með tegundir í útrýmingarhættu. Slíkt verkfæri eigi ekki við stjórnun fiskveiða og bent var á hvaða afleiðingar það gæti haft á fiskvinnslu og verslun með sjávarafurðir. Norrænu þjóðirnar voru sammála um að beita sér á fundi CITES í Chile síðar í haust.
Samhliða fundi matvælaráðherranna átti Árni M.Mathiesen sjávarútvegsráðherra fund með landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Svíþjóðar, Margaretu Winberg, þar sem hann gerði henni grein fyrir óánægju Íslendinga vegna framgöngu Svía og sænska formannsins í Alþjóða hvalveiðiráðinu á síðasta aðalfundi þess. En þar voru reglur ráðsins um meðferð aðildarskjala þverbrotnar.
Á fundinum var stefna mörkuð í samstarfi um réttindi og aðgang að erfðaauðlindum á Norðurlöndum. Guðni Ágústson minnti á að með auknum rannsóknum hafi opnast nýir möguleikar á nýtingu tegunda úr villtri náttúru landsins, t.d hveraörvera. Minnti hann jafnframt á nauðsyn þess að standa vörð um það erfðaefni sem hefði sérstöðu á Íslandi.
Í Ilulissat var ennfremur samþykkt að stofna til tengslanets til að auka samvinnu um að draga úr notkun varnarefna eins og skordýraeiturs og illgresislyfja. Einnig voru samþykktar yfirlýsingar um norrænt samstarf á sviði skógræktar, lífrænan landbúnað og norræna jafnréttisáætlun í landbúnaði.
Reykjavík, 26. ágúst 2002