Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2002 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrafundur í Tallin

Nr. 085

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag fund utanríkisráðherra Norðurlandanna annars vegar og fund þeirra með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna hins vegar. Báðir fundirnir fóru fram í Tallinn, höfuðborg Eistlands.
Á fundi norrænu ráðherranna var einkum rætt um samráð Norðurlanda um málefni Evrópubandalagsins (ESB) og Evrópska efnahagssvæðisins (EES), þ.m.t. stækkun bandalagsins, áhrif stækkunar á EES-samninginn og aðkomu EFTA-landanna að nýjum stofnunum ESB, þ.e. eftirlitsstofnunum á sviði matvæla og siglinga- og flugöryggis. Þá var fjallað um deilu ESB og Bandaríkjanna varðandi viðskipti með stál, en sl. vor var sem kunnugt er gripið til gagnkvæmra verndaraðgerða sem hafa ekki einungis áhrif á innflutning á stáli frá Bandaríkjunum til ESB, heldur einnig á innflutning stálafurða frá EFTA-EES-ríkjunum til ESB. Halldór Ásgrímsson sagðist m.a. vona að EFTA-EES-ríkin gætu reitt sig á stuðning Norðurlandanna þriggja sem aðild eiga að ESB í máli þessu, en Danmörk gegnir nú formennsku í ESB.
Á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda með utanríkisráðherrum Eystrasaltsríkjanna var fjallað um Evrópumál, stækkun Atlantshafsbandalagsins og svæðisbundna samvinnu. Halldór Ásgrímsson ítrekaði stuðning Íslands við stækkunarferli ESB og sagði það einkar áhugavert fyrir Ísland vegna þeirra auknu samskipta- og viðskiptamöguleika sem það hefði í för með sér á Evrópska efnahagssvæðinu í heild sinni. Varðandi stækkun Atlantshafsbandalgsins og væntanlega aðild Eystrasaltsríkjanna að því voru ráðherrarnir sammála um að undirbúningur og aðlögun Eystrasaltsríkjanna þriggja væri í góðum farvegi. Að lokum ræddu ráðherrarnir um samvinnu innan Eystrasaltsráðsins, áherslur varðandi hina svonefndu norðlægu vídd ESB og samvinnu um umhverfismál, einkum kjarnorkuöryggi á norðurslóðum.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. ágúst 2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta