Fréttapistill vikunnar 24. - 30. ágúst 2002
Fréttapistill vikunnar
24. - 30. ágúst 2002
Tilraunverkefni um fjarlækningar
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, undirritar samning um tilraunaverkefni fyrir fjarlækningar og bráðarannsóknir í tengslum við aðalfund Eyþings sem stendur yfir í Mývatnssveit. Markmið tilraunaverkefnis er að koma á fjarlækningasambandi milli heilsugæslustöðvar og sjúkrahúss. Athugað verður hvernig og hvaða stuðning sérfræðingar á FSA og Húsavík geta veitt við heilsugæslu og heimilislækningar. Gert er ráð fyrir því að samskipti verði frá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga (HSÞ) á Þórshöfn við HSÞ á Húsavík í formi göngudeildarþjónustu og við Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri (FSA) í formi bráðalækningaþjónustu (slysadeilda), sem veitt er allan sólarhringinn. Stefnt er að því: að gera tilraunir með og öðlast reynslu á mismunandi formi fjarlækningaþjónustu við heilsugæslustöðvar úti á landsbyggðinni, að prófa fjarlækningabúnað og meta gildi mismunandi eininga og mælitækja, að ákvarða hverjir veita fjarlækningaþjónustu og hvernig hún verður skipulögð, að veita þjónustu frá deild sem er með "24 tíma" vaktþjónustu og að draga úr sjúkraflugi og kostnaði vegna þeirra. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki á ágúst 2003 og að kostnaður Íslenska heilbrigðisnetsins vegna samningsins verði 5,2 milljónir króna.
Áttunda norræna lýðheilsuráðstefnan verður á Íslandi á árinu 2005
Dagana 26. - 28. ágúst sl. var haldin sjöunda Norræna lýðsheilsuráðstefnan í Óðinsvéum í Danmörku. Meginviðfangsefni ráðstefnunnar voru heilbrigðisáætlanir Norðurlanda og þýðing þeirra fyrir lýðheilsuna í löndunum. Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri áætlana- og þróunarskrifstofu ráðuneytisins, hélt einn af inngangsfyrirlestrum ráðstefnunnar og fjallaði hann um íslenska heilbrigðisáætlun til ársins 2010, helstu markmið hennar og leiðir til þess að ná þeim. Á öðrum degi ráðstefnunnar voru haldnir samhliða nokkrir þemafundir um einstaka þætti lýðheilsustarfseminnar. Þar greindi Ingólfur Freysson, kennari frá Húsavík, frá samstarfi Völsungs og Húsavíkurbæjar til eflingar íþrótta- og æskulýðsstarfi á Húsavík og Þráinn Hafsteinsson, íþróttakennari og verkefnisstjóri, sagði frá ungmenna- og unglingastarfsemi fjöldskyldumiðstöðvarinnar Miðgarðs í Grafarvogi. Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu, átti sæti í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar. Ákveðið hefur verið að halda næstu Norrænu lýðheilsuráðstefnuna á Íslandi eftir þrjú ár eða á árinu 2005.
Aðalfundur NOSOSKO í Visby á Gotlandi
NOSOSKO eða Norræna nefnd um staðtölur heilbrigðis- og tryggingamála á Norðurlöndum hélt aðalfund sinn í Visby á Gotlandi 21. - 23. ágúst sl. Þar var að venju fjallað ársskýrslu nefndarinnar, sem væntanleg er um miðjan september. Staðtölur og sjálfbær þróun, gagngrunnnar heilbrigðis- og félagsþjónustu, og samstarf við Eystrasaltslöndin voru einnig meðal viðfangsefna fundarins. Á lokadegi fundarins var haldið sérstakt málþing um útgjöld til heilbrigðis- og félagsmála og framtíðarhorfur um þróun velferðarútgjalda á næstu áratugum. Var þar kynnt norræn skýrsla um útgjöld til heilbrigðis- og félagsmála á Norðurlöndum 1990 - 2000. Ennfremur kynntu Finnar skýrslu svonefndrar SOMERA-nefndar um framtíðarþróun útgjalda til heilbrigðis- og tryggingamála í Finnlandi og ná spár nefndarinnar allt til ársins 2050. Af Íslands hálfu sátu fundinn Ingimar Einarsson, skrifstofustjóri, sem er formaður NOSOSKO tímabilið 2002-2005, Hrönn Ottósdóttir, deildarstjóri, og Kristinn Karlsson, félagsfræðingur og helsti sérfræðingur Hagstofu Íslands á sviði velferðarmála.
Kínverjar kynna sér heilbrigðisþjónustuna
Sex fulltrúar heilbrigðisyfirvalda í Shanghai í Kína dvelja þessa dagana á Íslandi og er markmið þeirra að kynna sér uppbyggingu, fjármögnun og þjónustu íslenska heilbrigðiskerfisins. Kínversku gestirnir heimsækja heilbrigðis-g tryggingamálaráðuneytið, Landspítala – háskólasjúkra og fleiri heilbrigðisstofnanir.
Skuldir LSH lægri en sagt var
Viðræður fulltrúa Landspítala – háskólasjúkrahúss og Samtaka verslunarinnar hafa leitt í ljós að skuldir spítalans og Sjúkrahússapóteksins eru lægri en samtökin fullyrtu í bréfi í síðustu viku og varð tilefni frétta. Landspítali – háskólasjúkrahús og Samtök verslunarinnar sendu frá sér svohljóðandi fréttatilkynningu um máli: "Í framhaldi af bréfi sem Samtök verslunarinnar sendu Landspítala - háskólasjúkrahúsi í síðustu viku vegna vanskila spítalans við ýmis aðildarfyrirtæki samtakanna, hafa aðilar hist í því skyni að sannreyna hvert umfangið er. Skuldir Landspítala - háskólasjúkrahúss við birgja reyndust talsvert minni en Samtök verslunarinnar gáfu upp í bréfi sínu til spítalans frá 22. ágúst 2002. Samtökin biðjast velvirðingar á mistökum sem urðu við söfnun upplýsinga frá birgjum og leiddu til rangrar niðurstöðu. Hins vegar er ekki ágreiningur með aðilum um að umrædd vanskil eru veruleg. Samkvæmt upplýsingum frá umræddum aðildarfyrirtækjum samtakanna frá því í dag er heildarskuld LSH og Sjúkrahúsapóteksins ehf. vegna júní og eldra rúmar 400 m.kr. en vegna júlí og eldra er skuldin rúmar 700 m.kr. Landspítali - háskólasjúkrahús harmar að skuldir við birgja eru eins miklar og raun ber vitni um. Leitast verður við greiða skuldirnar eins hratt og mögulegt er. Um næstu mánaðamót verða elstu skuldir greiddar en spítalinn vonast til þess að varanlegar úrbætur fáist með afgreiðslu fjáraukalaga."
Virkni bóluefnis gegn HPV og krabbameini í leghálsi rannsakað
Í dag var HPV-rannsóknarsetur að Skógarhlíð 12 tekið í notkun. Þar verður á næstu árum aðsetur alþjóðlegrar rannsóknar, sem nefnist FUTURE 2, en með henni á að kanna virkni bóluefnis gegn HPV, veiru sem veldur frumubreytingum í leghálsi og leghálskrabbameini. Landlæknisembættið og Krabbameinsfélags Íslands sjá um að gera könnunina, en lyfjafyrirtækið Merck Sharp & Dohme, sem hefur þróað bóluefnið og framleiðir það, stendur straum af kostnaði hennar. Í fréttatilkynningu frá embætti landlæknis segir m.a. um rannsóknina: "Nýjar rannsóknir sýna að frumubreytingar í leghálsi og leghálskrabbamein orsakast af veiru sem berst milli fólks við kynmök. Veiran, sem nefnist HPV (Human Papilloma Virus) eða vörtuveira, veldur einnig kynfæravörtum. Sú staðreynd að veira veldur þessum sjúkdómum hefur leitt til þess að tekist hefur að þróa bóluefni sem getur komið í veg fyrir HPV-sýkingar og þannig er fræðilega mögulegt að útrýma að mestu áðurnefndum sjúkdómum. Gefi bóluefnið góða raun verður það mikilvægur áfangi í baráttunni gegn krabbameini. Bóluefnið hefur þegar verið prófað í rúman áratug. FUTURE 2-rannsóknin mun ná til þúsunda kvenna víðs vegar um heim, m.a. á öllum Norðurlöndunum. Markmiðið er að rannsaka hvort bóluefnið dregur úr myndun frumubreytinga á næstu 4 til 5 árum eftir bólusetningu og til lengri tíma litið úr myndun krabbameina í leghálsi. Þegar rannsókninni lýkur eiga að hafa fengist endanlegar niðurstöður um það. Á Íslandi taka þátt í rannsókninni konur á aldrinum 18–23 ára sem búsettar eru á höfuðborgarsvæðinu. Sótt hefur verið um leyfi vísindasiðanefndar til að bjóða einnig 16–17 ára konum að taka þátt í rannsókninni. Rannsóknin stendur yfir í 4 til 5 ár og er hagað þannig að helmingi þátttakenda er gefið virkt bóluefni en hinum helmingnum svonefnd lyfleysa. Hvorki þátttakandinn né sá eða sú sem bólusetur munu vita hvort sprautað er með virku eða óvirku bóluefni fyrr en rannsókninni lýkur. Konurnar fá greidda þóknun fyrir að taka þátt í rannsókninni." Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, bauð gesti velkomna þegar rannsóknasetrið var tekið formlega í notkun í dag. Eliav Barr, forstöðumaður lyfjarannsókna hjá MSD, kynnti FUTURE 2-verkefnið og Kristján Sigurðsson, yfirlæknir Leitarstöðvar KÍ, gerði grein fyrir hlutverki setursins. Það var svo Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingmálaráðherra, sem tók setrið formlega í notkun.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
30. ágúst 2002