Styrkir til framhaldsnáms
Féttatilkynning
Sjávarútvegsráðherra úthlutar styrkjum til framhaldsnáms
Ráðuneytið auglýsti fyrr í sumar styrki til úthlutunar vegna náms í fiskifræðum eða skyldum greinum. Ráðherra hefur nú afráðið að styrkja þrjá háskólanema í rannsóknanámi; tvo í meistaranámi í sjávarútvegsfræðum og einn í doktorsnámi.
Anna Heiða Ólafsdóttir sem stundar meistaranám í sjávarútvegsfræðum við Memorial háskóla í Nýfundnalandi hlaut styrk að upphæð kr. 250.000,- til að rannsaka vöxt og rek íslenskra loðnuseiða. Aðalleiðbeinandi er John Anderson dósent við Memorial háskóla. Verkefnið verður unnið í samstarfi við Hafrannsóknastofnunina og hefur Hjálmar Vilhjálmsson umsjón með verkefninu fyrir hönd stofnunarinnar.
Gróa Þóra Pétursdóttir sem stundar meistaranám í sjávarútvegsfræðum við Háskóla Íslands hlaut styrk að upphæð kr. 250.000,- til að rannsaka mismun á vexti einstaklinga í hrygningarstofni þorsks á mismunandi svæðum út af suðurströnd landsins og greina hvort flokka megi hrygningarstofninn niður í aðskilda erfðahópa á grundvelli vaxtarhraða og lögun kvarna. Aðalleiðbeinandi er Guðrún Marteinsdóttir prófessor við Háskóla Íslands en einnig koma Steven E. Campana við Bedford Institute í Kanada og Skúli Skúlason skólastjóri á Hólum að verkefninu.
Sigrún Lange sem stundar doktorsnám í fiskónæmisfræðum við Háskólann í Oxford hlaut styrk að upphæð kr. 500.000,- til að rannsaka sérhæfða þætti í ónæmiskerfi þorsks og lúðu. Aðalleiðbeinandi er Bergljót Magnúsdóttir vísindamaður hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum en einnig kemur Alister Dodds við Oxford háskóla að verkefninu.
Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra afhenti styrkina við athöfn í ráðuneytinu í dag.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 28. ágúst 2002.