Evrópskur tungumáladagur 26. september 2002
Til skóla og hagsmunaaðila
Evrópskur tungumáladagur 26. september 2002
Menntamálaráðuneytið minnir á bréf til yðar dags. 28. maí um Evrópskan tungumáladag 26. september nk. Skólar og fræðslustofnanir eru hvattar til að minnast dagsins með einhverjum hætti með því að beina sjónum manna að þeim markmiðum sem Evrópuráðið hefur skilgreint. Þau miða að því að vekja athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu, halda á lofti fjölbreytileika tungumála og menningar í Evrópu og hvetja til símenntunar á sviði tungumála.
Í tilefni dagsins efnir ráðuneytið til málþings, Straumar og stefnur í kennslu erlendra tungumála á Íslandi, á Grand Hóteli 26. september kl. 14.00- 18.00. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands hefur verið falið að undirbúa málþingið. Á þinginu verður m.a. fjallað um viðhorf til tungumálanáms og kennslu og nýja strauma í þeim efnum svo og námskrá í erlendum tungumálum. Málþingið er öllum opið. Dagskrá þess verður nánar auglýst í fjölmiðlum og á heimasíðu menntamálaráðuneytisins.
Á næstu dögum verður send út íslensk útgáfa af veggspjaldi sem hannað er af Evrópuráðinu með kveðju á 40 tungumálum. Ráðuneytið væntir þess að veggspjaldið verði nýtt í stofnun yðar til að vekja athygli á Evrópskum tungumáladegi.
Bent er á vef menntamálaráðuneytisins www.menntamalaraduneyti.is og heimasíðu Evrópuráðsins www.coe.int (languages).
(September 2002)