Hoppa yfir valmynd
13. september 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 07. - 13. september 2002

Fréttapistill vikunnar
07. - 13. september



Sjúklingar leita í auknum mæli fyrst til sérfræðilækna

Sjúklingakomur til þeirra 342 sérfræðilækna sem starfa eftir samningum við Tryggingastofnun ríkisins voru 460 þúsund árið 2001 á meðan Heilsugæslan í Reykjavík sinnir 176 þúsund komum á ári. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um samninga Tryggingastofnunar ríkisins við sérfræðilækna. Forgangsröðun og breytt verkaskipting eru taldar forsendur þess að auka hagkvæmni, ná fram markvissri skiptingu takmarkaðra fjármuna og bæta samræmingu í heilbrigðiskerfinu. Í frétt á heimasíðu Ríkisendurskoðunar segir einnig að ,,...þrátt fyrir að stjórnvöld hafi markað þá meginstefnu að samskipti sjúklings og læknis hefjist innan heilsugæslunnar, hafi frjáls aðgangur að þjónustu sérfræðilækna leitt til þess að fyrsti viðkomustaður sjúklinga í heilbrigðiskerfinu sé oft hjá þeim. Í skýrslunni eru færð rök fyrir því að bætt stefnumörkun af hálfu stjórnvalda geti leitt til markvissari kaupa á sérfræðilæknisþjónustu. Því er jafnframt beint til heilbrigðisráðuneytisins að taka skýra afstöðu til þess í hvaða tilvikum heilsugæslan eigi að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga og sjá síðan til þess að framkvæmdin verði í samræmi við þá stefnu. " Skýrsluna má lesa í heild á heimasíðu Ríkisendurskoðunar.
MEIRA...

Tillögur til heilbrigðisráðherra um leiðir til að bæta og efla Heilsugæsluna - allir sem þurfa geti fengið þjónustu heilsugæslulæknis samdægurs
Framkvæmdastjórn og yfirlæknar Heilsugæslunnar í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi (hér eftir nefnd ,,Heilsugæslan) hafa lagt fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra tillögur að leiðum til að efla og bæta Heilsugæsluna. Sett eru fram markmið, leiðir, bráðaaðgerðir og langtímaaðgerðir sem fer hér á eftir:
,,Markmið: Allir sem þurfa, geti fengið þjónustu heimilislæknis samdægurs.
Leiðir: Bráðaaðgerðir: Fyrir næstu mánaðamót verði komið á nýju launakerfi lækna, sem þjónar markmiðum Heilsugæslunnar (í Reykjavík, Kópavogi, Seltjarnarnesi og Mosfellsbæ) um bætta þjónustu. Launakerfið verði þannig byggt upp að læknar geti valið milli þess að vera að hluta á föstum launum og að hluta á verkgreiðslum - 20% eða meira af dagvinnutímanum við vinnu á heilsugæslustöð - eða á föstum launum. Komið verði á öflugri bráðaþjónustu lækna á heilsugæslustöðvum á dagtíma, og vaktþjónustu eftir kl. 16:00. Heilsugæslustöðvar verði opnaðar í Voga- og Heimahverfi og í Salahverfi í Kópavogi á næsta ári með tilheyrandi stöðufjölda lækna. Á árinu 2004 komi ný stöð í Árbæ og önnur í Borgum í Kópavogi. Veruleg fjölgun námsstaða í heimilislækningum verði í Heilsugæslunni - þannig verði 6 - 10 nýjar stöður auglýstar strax. Heilsugæslan komi á fót miðlægri, faglegri símaráðgjöf heilsugæslulækna fyrir almenning á landsvísu. Sjálfstæði stjórnenda heilsugæslunnar verði aukið.
Langtímaaðgerðir: Komið verði á launakerfi sem grundvallist á samningi Læknafélags Íslands." Tillögurnar eru dagsettar 12.09.02 og undirritaðar af Framkvæmdastjórn og yfirlæknum Heilsugæslunnar (í Reykjavík, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi).

Tóbaksvarnaráðstefnan LOFT í Mývatnssveit
Hvaða leiðir eru færar til að aðstoða fólk við að hætta að reykja? Hvaða leiðir eru notaðar og hvernig reynast þær? Þetta er meðal þess sem fjallað verður um á tóbaksvarnarráðstefnunni LOFT sem haldin verður í Mývatnssveit dagana 27. - 28. september 2002. Fjöldi sérfræðinga, innlendra og erlendra, flytur erindi á ráðstefnunni. Má þar nefna Dr. Stephen Rollnick, heilsugæslulækni í Bretlandi, en hann er heimsþekktur frumkvöðull á sviði hvetjandi samtalstækni. Rollnick hefur skrifað fjölda greina um efnið í alþjóðleg tímarit og kennt læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki þessa tækni. Á ráðstefnunni flytur einnig erindi Dr. Hans Gilljam, dósent, sem hefur unnið mikið brautryðjandastarf í klínískum tóbaksvörnum, m.a. byggt upp stærstu tóbaksvarnardeild Evrópu í Stokkhólmi. Læknar, hjúkrunarfræðingar, tannlæknar, tannfræðingar, sálfræðingar, lögfræðingar, lyfjafræðingar og lífeðlisfræðingar eru meðal fyrirlesara á ráðstefnunni, enda efni hennar viðamikið. Sagt verður frá rannsóknum á bóluefni gegn nikótínfíkn, samanburði á tóbaksvörnum heilsugæslulækna á Norðurlöndum, fjallað um höft í markaðssetningu nikótínlyfja og sagt frá gildandi reglum um auglýsingar og markaðssetningu lyfja og margt fleira. Dagskrá ráðstefnunnar í heild má nálgast á heimasíðu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Átta umsækjendur um stöðu framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Suðurnesjum
Átta sóttu um starf framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunarinnar Suðurnesjum sem auglýst var laust til umsóknar í ágúst. Eftirtaldir sóttu um starfið: Aðalsteinn J. Magnússon, rekstrarhagfræðingur, Jónína A. Sanders, viðskiptafræðingur MBA, Óskar J. Sandholt, grunnskólafulltrúi, Sigríður Snæbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri, Sigurður H. Engilbertsson, innheimtustjóri, Skúli Thoroddsen, lögfræðingur, Stella Olsen, skrifstofustjóri, og Valbjörn Steingrímsson, framkvæmdastjóri. Matsnefnd, sem metur hæfni umsækjenda um stöður framkvæmdastjóra sjúkrahúsa, sbr. 30. grein laga um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990, fer nú yfir umsóknirnar og skilar heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra niðurstöðu sinni. Að fenginni tillögu stjórnar Heilbrigðisstofnunarinnar Suðurnesjum skipar ráðherra framkvæmdastjóra til næstu fimm ára.

Framtíðarsýn innan heilsugæsluhjúkrunar
Út er komin bók á vegum Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunnar þar sem fjallað er um framtíðarsýn innan heilsugæsluhjúkrunar. Bókin er byggð er á erindum sem flutt var á vegum Rannsóknarstofnunar í hjúkrunarfræði og Heilsugæslunnar í Reykjavík síðast liðið haust en einnig hefur verið bætt við efni sem ekki var til umfjöllunar á ráðstefnunni. Efni bókarinnar er fjölbreytt enda á fjórða tug sérfræðinga sem starfa á ólíkum sviðum heilbrigðisþjónustunnar sem eiga greinar í bókinni.
NÁNAR...

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
13. september 2002

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta