Hoppa yfir valmynd
13. september 2002 Matvælaráðuneytið

Ráðstefna um alþjóðlega gerðardóma haldin á Grand Hótel Reykjavík.

Valgerður Sverrisdótti,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra.


Ávarp á ráðstefnu um alþjóðlega gerðardóma
Grand Hótel, 13. september 2002


Ágætu ráðstefnugestir,

Á undanförnum árum hafa orðið miklar breytingar á viðskiptaumhverfi íslenskra fyrirtækja. Erlendar fjárfestingar á Íslandi hafa aukist og samtímis hafa innlend fyrirtæki í vaxandi mæli nýtt sér ýmis sóknarfæri á erlendum mörkuðum.

Kraftmikið og fjölbreytt atvinnulíf er forsenda blómlegs mannlífs í landinu öllu. Aukin erlend fjárfesting hér á landi er einn þeirra þátta sem til lengri tíma litið getur styrkt mjög innviði í íslensks efnahagslífs.

Almennt séð þá hefur tekist vel til með viðskiptasamninga sem gerðir hafa verið við erlenda aðila og stór deilumál verið fátíð. Þar ræður að sjálfsögðu góður undirbúningur og vönduð vinnubrögð þeirra aðila sem koma að slíkum samningum. Það er von mín að svo muni vera áfram um langa framtíð.

Hins vegar með aukinni alþjóðavæðingu og sífellt meiri umsvifum sem af henni leiðir þá þótti einsýnt að mjög mikilvægt væri að undirbúa fullgildingu Íslands á alþjóðasáttmála um viðurkenningu og aðfararhæfi erlendra gerðardóma, sem undirritaður var í New York árið 1958. Að tilhlutan viðskiptaráðuneytisins var fyrir nokkrum árum hafinn undirbúningur að fullgildingu sáttmálans og lagði dómsmálaráðherra fram nauðsynleg fumvörp þar að lútandi í fyrrahaust.

Alþingi hefur nú samþykkt frumvörpin og öðlaðist sáttmálinn gildi gagnvart Íslandi í apríl á þessu ári.

Úrlausn deilumála milli aðila að viðskiptasamningum fer í síauknum mæli fram fyrir samningsbundnum gerðardómum í stað almennra dómstóla. Mikil þróun hefur átt sér stað erlendis á þessu réttarsviði og aðilar viðskiptalífsins á Íslandi semja reglulega um úrlausn deilumála fyrir samningsbundnum gerðardómum.

Það er því mikilvægt skref fyrir framþróun viðskiptamála á Íslandi, að tryggja gagnvart erlendum einstaklingum og fyrirtækjum sem stunda viðskipti við íslenska aðila, að gerðardómar sem kveðnir eru upp á erlendri grund, hljóti viðurkenningu og aðfararhæfi hér á landi. Þessu markmiði er nú náð með fullgildingu Íslands á New York sáttmálanum um viðurkenningu og aðfararhæfi erlendra gerðardóma.

Það er mér mikil ánægja að sjá hingað komna innlenda og erlenda fyrirlesara sem ætla að fjalla um mikilvægi og einkenni samningsbundinna gerðardóma. Hingað eru komnir góðir gestir sem eru Dr. Robert Briner, formaður gerðardóms Alþjóða verslunarráðsins í París og Claus Bennetsen, lögmaður frá Danmörku, sem ég vil bjóða sérstaklega velkomna.

Mr. Briner and Mr. Bennetsen, I welcome you to Iceland and thank you for your attendance and contributions to this conference on international arbitration here in Iceland.

Með þessum orðum lýsi ég ráðstefnuna opna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta