Hoppa yfir valmynd
17. september 2002 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ákvörðun um veiðar á rjúpu

Umhverfisráðuneytið hefur í dag ákveðið aðgerðir sem draga eiga úr veiðiálagi á rjúpnastofninn. Gripið verður til tvenns konar aðgerða með útgáfu reglugerðar:

1. Veiðitími rjúpu verði frá 25. október til og með 12. desember frá og með rjúpnaveititímabili 2003 til og með 2007.

2. Friðaða svæðið á Suðvesturhorni landsins verði stækkað 2002 til 2007.

Að auki verði lagt fram frumvarp um breytingar á lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum þar sem:

3. Aflað verði lagaheimildar til þess að banna sölu á veiðibráð 2003-2007, auk þess sem hert verður á öðrum
atriðum s.s. varðandi vopnaútbúnað, veiðiaðferðir og banni við notkun vélknúinna farartækja við veiðarnar.

Umhverfisráðuneytinu barst skýrsla Náttúrufræðistofnunar Íslands 21. ágúst sl. um ástand rjúpnastofnsins ásamt tillögum hvernig við skuli brugðist. Það er mat Náttúrufræðistofnunar að nauðsynlegt sé að grípa til verndaraðgerða. Stofnunin gerir tillögu um að veiðitíminn verði styttur (í einn mánuð) og hins vegar að sala á rjúpu á almennum markaði verði bönnuð. Tillaga um sölubann er rökstudd með því að um 10% veiðimanna veiði um helming þess sem veitt er og því sé mögulegt að takmarka veiðisóknina verulega.

Umhverfisráðuneytið hefur eins og lög gera ráð fyrir leitað álits Ráðgjafarnefndar um vilt dýr sem telur, skv. áliti sínu frá 13. september sl. nauðsynlegt að gripið verði til verndaraðgerða með sama hætti og Náttúrufræðistofnun Íslands leggur til. Þó eru skoðanir um aðgerðir skiptar í nefndinni. Ráðuneytið telur miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um ástand rjúpnastofnsins að grípa þurfi til styttingar veiðitímans frá og með haustinu 2003, en telur að lagaheimild skorti til þess að kveða á um sölubann.

Svæði það sem óheimilt hefur verið að veiða Suð-vestur horni landsins á síðustu árum verði stækkað, þannig að það nái til svæðis sem afmarkast af Esjubrúnum og syðri hluta Þingvallavatns í norðri og Sogi og Ölfusá að austan. Að mati sérfræðinga og skotveiðimanna er svæðið sem friðað hefur verið frá 1999 of lítið til þess að það teljist marktækt til að meta ástand rjúpnastofnsins með hliðsjón af gildi verndaraðgerða. Er gert ráð fyrir að þetta svæði verði friðað fyrir rjúpnaveiði 2002 til og með 2007. Ráðuneytið mun enn fremur beita sér fyrir því að rannsóknir á rjúpu og vöktun rjúpnastofnsins verði haldið áfram þannig að hægt verði að leggja mat á niðurstöður frá ári til árs og mun óska eftir tillögum frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Veiðistjóraembættinu/Umhverfisstofnun um rannsóknir til að fylgjast með áhrifum þessara verndaraðgerða.

Auk þessa er talið rétt að grípa til frekari aðgerða til að framfylgja banni í gildandi lögum við notkun fjölskotabyssa og hálfsjálfvirkra skotvopna með skothylkjahólfum sem taka fleiri en tvö skothylki. Þetta yrði gert með varanlegum breytingum á umræddum skotvopnum. Einnig er talið rétt að takmarka enn frekar en gert hefur verið notkun vélknúinna farartækja svo sem fjórhjóla og snjósleða við veiðar á rjúpum. Þessum breytingum verður komið á með breytingum á gildandi lögum. Þá er mikilvægt að vel verði fylgst með því að ákvæðum laga um veiðiaðferðir og akstur utan vega verði fylgt og leggur ráðuneytið áherslu á að lögregla um allt land sinni eftirliti með veiðunum eins vel og tök eru á.

 

Fréttatilkynning nr. 20/2002
Umhverfisráðuneytið

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta