Ræða utanríkisráðherra á 57. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna
Nr. 091
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, flutti í dag ræðu í almennu umræðunni í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann gerði þar einkum að umræðuefni baráttuna gegn hryðjuverkum, vanvirðingu Íraksstjórnar við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og þá nýju stöðu sem virðist komin upp með tilboði Íraka um vopnaeftirlit, sem og versnandi ástand í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins.
Hann fagnaði inngöngu Sviss og væntanlegri aðild Austur-Tímor að Sameinuðu þjóðunum; hvatti þau ríki, sem enn hafa ekki undirritað sáttmálann um Alþjóðlega sakamáladómstólinn til að gera það hið fyrsta; vakti athygli á hlut kvenna og barna sem oft á tíðum helstu fórnarlamba ófriðarástands og benti á að konur væru sjaldnast hafðar með í ráðum um úrlausn deilumála. Hann fjallaði um mikilvægi þess fyrir þróun í fátækustu ríkjum heims að tryggja þyrfti þessum löndum markaðsaðgang í hinum efnaðari hluta heimsins.
Ráðherrann gerði sjálfbæra þróun að umræðuefni og bauð fram aðstoð Íslands til að aðstoða þróunarríki við sjálfbæra nýtingu sjávarauðlinda. Hann minntist þess að 20 ár eru brátt liðin frá samþykkt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem væri einn af merkustu áföngum í starfi samtakanna.
Í lok ræðu sinnar fjallaði utanríkisráðherra um þörf styrkingar og endurbóta Sameinuðu þjóðanna, einkanlega öryggisráðsins, og tók fram að þótt stöðugt steðjaði ógn að friði og öryggi heimsbyggðarinnar, þá væri það staðfesta aðildarríkjanna að vinna saman í anda sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem ein gæti bægt þeirri hættu frá. Engum yrði liðið að standa þar í vegi.
Hjálagt fylgir eintak af ræðu utanríkisráðherra á ensku.
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 17. september 2002