Sendinefnd ECRI á Íslandi
Sendinefnd ECRI á Íslandi 23.–25. september næstkomandi
The European Commision against Racism and Intolerance (ECRI) var sett á laggirnar árið 1994 á fundi Evrópuráðsins.
Eitt af meginverkefnum nefndarinnar er að kanna ástand og greina vandamál vegna kynþáttafordóma og kynþáttamisréttis í aðildarríkjum Evrópuráðsins og koma fram með tillögur til úrbóta til að leysa þau vandamál sem greinast í viðkomandi ríkjum. Meðlimir nefndarinnar fara yfir löggjöf aðildarríkjanna og kanna hvort hún sé í samræmi við samninga Evrópuráðsins hvað varðar málefni innflytjenda. Einnig til hvaða úrræða er gripið til að berjast gegn kynþáttamisrétti og kynþáttafordómum í viðkomandi aðildarríki. Hlutverk þeirra er að koma fram með tillögur um frekari aðgerðir, bæði hvað varðar verkefni á innlendum eða alþjóðlegum vettvangi. Fulltrúi Íslands í nefndinni er Sr. Baldur Kristjánsson, sóknarprestur í Þorlákshöfn.
Von er á sendinefnd frá ECRI til Íslands og mun hún dvelja á landinu dagana 22. til 25. september næstkomandi. Mánudaginn 23. september mun nefndin hitta frjáls félagasamtök, en dagana 24. til 25. september munu nefndin hitta embættismenn ráðuneyta, forstöðumenn ríkisstofnana, formann Flóttamannaráðs Íslands, auk ýmissa annarra sem starfa að innflytjendamálum á vegum ríkisins. Nefndin mun einnig heimsækja stofnanir eins og Vinnumálastofnun, Útlendingaeftirlitið og Umboðsmann Alþingis. Einnig mun nefndin kynna sér starfsemi Fjölmenningarseturs á Vestfjörðum og Alþjóðahúss í Reykjavík. Félagsmálaráðuneytið hefur haft undirbúning heimsóknar nefndarinnar með höndum.
Sendinefndin samanstendur af eftirfarandi aðilum:
1. Hr. Luben Koulichev (meðlimur ECRI frá Búlgaríu)
2. Frú Louise Barton (starfsmaður ECRI í Strassborg)
3. Tveimur túlkum
Hr. Roger Linster frá Lúxemborg forfallaðist á síðustu stundu, en hann átti einnig að koma til Íslands.
Allar upplýsingar um heimsóknina veitir Ásta S. Helgadóttir, lögfræðingur, á jafnréttis- og vinnumálaskrifstofu félagsmálaráðuneytis.