Hoppa yfir valmynd
27. september 2002 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 21. - 27. september 2002

Fréttapistill vikunnar
21. - 27. september 2002



Samanburður heilbrigðisútgjalda milli landa - Heildarútgjöld eða aðeins opinber útgjöld ?

Í fréttapistlihér á heimasíðu ráðuneytisins fyrr í mánuðinu var gerð grein fyrir því að þegar borin væru saman útgjöld til heilbrigðismála milli landa væri nauðsynlegt að gera sér grein fyrir samsetningu útgjaldanna. Í ríkjum OECD er það ekki aðeins hið opinbera, þ.e. ríki og sveitarfélög, sem leggja fé til heilbrigðismála, heldur greiða víða atvinnurekendur, frjálsar tryggingar og einstaklingarnir sjálfir umtalsverðan hluta útgjaldanna. Við samanburð á einstökum þáttum heilbrigðisútgjalda er því mikilvægt að heildarmyndin sé a.m.k. höfð til hliðsjónar. Röðun aðildarríkja OECD eftir heildarútgjöldum hvort sem þau eru mæld sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu eða framlög á íbúa á jafnvirðisgengi er mjög svipuð. Á árinu 2000 var Ísland í 6. sæti OECD-ríkja samkvæmt fyrri mælikvarðanum en í 5. sæti samkvæmt þeim síðari. Er þá gengið út frá því að útgjöld í Luxemburg hafi verið hærri en á Íslandi en tölur frá því landi fyrir árið 2000 vantar enn í gagnagrunn OECD. Tölur fyrri ára sýna að framlög til heilbrigðismála hafa verið nokkuð hærri í Luxemburg en á Íslandi. Jafnframt má geta þess að á árinu 2000 voru heilbrigðisútgjöld í flestum ríkjum Norður- og Vestur- Evrópu mjög svipuð eða á bilinu 2.200 – 2800$ á mann á jafnvirðisgengi (sjá töflur frá OECD hér að neðan). Samanburður á tímabilinu 1990-1998 sýnir að Ísland var að meðaltali í 10. sæti meðal OECD-ríkja með tilliti til þess hverju þau verja í heild til heilbrigðismála. Séu hins vegar borin saman opinber útgjöld til heilbrigðismála er myndin nokkuð önnur. Þar kemur fram að árið 2000 voru fjárframlög t.d. í Bandaríkjunum 2.051$ á mann en 2.202$ á Íslandi. Langflestir sérfræðingar eru þó sammála um að Bandaríkjamenn eyði ekki minna til heilbrigðismála en Íslendingar, a.m.k. var það ekki að skilja á heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna Tommy G. Thompson sem gerði hér stuttan stans á dögunum.
Töflur OECD ... (pdf.skjal)

Yfirlit um lyfjasölu ársins og kostnaðarmesta lyfjaflokkinn, tauga- og geðlyf
Lyfjakostnaður almannatrygginga (T.r.) fyrir tímabilið janúar- ágúst 2002 var 3.587 m. kr. Á sama tímabili síðasta árs var hann 3.021 m. kr. Hækkunin er tæp 19%. Lyfjaverð hefur almennt farið eilítið lækkandi síðustu mánuði og að óbreyttu er líklegt að lyfjakostnaður T.r. verði a.m.k. 5.500 m. kr. fyrir 2002. Á síðasta ári varð kostnaðurinn 4.809 m. kr. Það lítur því út fyrir að aukningin verð rúmlega 14%. Á fjárlögum fyrir 2002 er gert ráð fyrir 4.973 m. kr. í lyfjakostnað T.r. og stefnir því í tæplega 530 m. kr. umfram þau. Heildarverðmæti seldra lyfja fyrstu 6 mánuði 2002 reiknað á apóteksverði með vsk skv. verðskrá í desember 2001 er 6.830 m. kr. Hlutur tauga- og geðlyfja (ATC-flokkur N) í þessari upphæð er 1.950 m. kr., eða 29%. Til fróðleiks fylgir hér með greining á notkun þessara lyfja eftir aðalflokkum innan tauga- og geðlyfja á árunum 1989-2002. Verðmæti fyrir 2002 er framreiknað m. v. fyrstu 6 mánuði ársins.
NÁNAR... (pdf.skjal)

Úttekt á rekstri Landspítala-háskólasjúkrahúss
Ríkisendurskoðun er að hefja úttekt á rekstri Landspítala-háskólasjúkrahúss eftir sameiningu spítalanna í Reykjavík. Þetta er gert í samvinnu við bresku ríkisendurskoðunina að beiðni stjórnar Landspítalans. Sigurður Þórðarson, ríkisendurskoðandi segir tilganginn að komast að því hvort sameining sjúkrahúsanna hafi skilað tilætluðum árangri, þ.e. hagræðingu og sparnaði í rekstri sjúkrahússins. Áætlað er að úttektinni verði lokið innan níu mánaða.

Rannsókn á sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum íslenskra ungmenna
24. september 2002 kom út á vegum Landlæknisembættisins skýrsla um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir meðal íslenskra ungmenna árin 1992 og 2000. Í skýrslunni er einnig gerð grein fyrir alþjóðlegum samanburði á sjálfsvígstíðni meðal 15–24 ára ungmenna 1951–2000. Höfundar skýrslunnar, sem unnin var hjá Rannsóknum og greiningu ehf,  eru Þóroddur Bjarnason, Bryndís Björk Ásgeirsdóttir og Inga Dóra Sigfúsdóttir. Á heimasíðu Landlæknisembættisins er birt samantekt um helstu niðurstöður rannsóknarinnar og megináherslur sjálfsvígsforvarna Landlæknisembættisins. Hægt er að nálgast skýrsluna hjá Landlæknisembættinu og jafnframt verður hún aðgengileg á heimasíðu embættisins innan tíðar.
SAMANTEKT HELSTU NIÐURSTAÐNA...

Alþjóðleg læknaráðstefna um nýjar hugmyndir og stefnur í áfengis- og vímuefnalækningum
SÁÁ (Samtök áhugafólks um áfengis- og vímuefnavandann) verður gestgjafi hinnar árlegu alþjóðlegu læknaráðstefnu ISAM sem haldin verður á Radisson SAS Saga Hotel dagana 2. - 5. október. Aðalmarkmið þeirrar ráðstefnu verður að kynna nýjar hugmyndir og stefnur í áfengis- og vímuefnalækningum og styrkja samvinnu allra þeirra er stuðla að vexti og framþróun á þessu sviði. Samtímis alþjóðlegu ráðstefnunni verður haldin sérstök afmælisráðstefna í tilefni af 25 ára afmæli Samtaka áhugafólks um áfengis- og  vímuefnavandann. Á ráðstefnunni verður úr mörgu að velja fyrir lækna, hjúkrunarfræðinga, sálfræðinga, félagsráðgjafa, áfengisráðgjafa, áhugamenn á þessu sviði,  stjórnmálamenn, embættismenn og marga fleiri.  Margir virtustu sérfræðingar heims í áfengis- og vímuefnalækningum koma til að halda erindi á þessum ráðstefnum auk þess sem haldin verður sérstök íslensk pallborðsumræða undir yfirskriftinni Stefnumótun í áfengis og vímuefnavörnum á Íslandi  í  lok síðasta dags ráðstefnunnar. Þar munu taka þátt í umræðu, fulltrúar ríkisstjórnarinnar, alþingismenn, fulltrúar ungliðahreyfinga stjórnamálaflokka, fulltrúar lögreglu og fjölmiðla, fulltrúar meðferðaraðila á Íslandi ofl. Skráning á ráðstefnuna er á heimasíðu SÁÁ  en útbúið hefur verið sérstakt skráningablað fyrir innlenda aðila sem hægt er að fylla út og senda frá heimsasíðu samtakanna.
HEIMASÍÐA SÁÁ...


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu
27. september 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta