Hoppa yfir valmynd
1. október 2002 Dómsmálaráðuneytið

Ávarp dómsmálaráðherra við opnun Umferðarstofu

Ávarp dómsmálaráðherra við opnun Umferðarstofu 1. október 2002



Kæru gestir.

Í dag er merkur áfangi í sögu umferðar á Íslandi, þegar til starfa tekur ný stofnun sem hlotið hefur nafnið Umferðarstofa. Það er mér mikið ánægjuefni að fá að fylgja þessari stofnun úr hlaði með nokkrum orðum, enda bind ég miklar vonir við hana og hennar starf á mörgum sviðum. Sömu vonir bind ég við áframhaldandi starfsemi Umferðarráðs, sem fengið hefur aukið hlutverk á vettvangi umferðaröryggismála.

Á síðasta vori samþykkti Alþingi þær breytingar á umferðarlögum sem taka gildi í dag. Meginefni þeirra breytinga var að koma á heildstæðu skipulagi stjórnsýslu bifreiðamála, með því að sameina í eina stofnun starfsemi Skráningarstofunnar ehf. og Umferðarráðs. Með sameiningunni var stefnt að því fyrst og fremst að tryggja markvissa framkvæmd umferðaröryggismála með því að sameina á einn stað málefni ökutækja, umferðarfræðslu og umferðaröryggis og fleiri verkefni sem tengjast ökutækjum og umferð. Var lagt upp með það að með þessu næðist einnig þegar til lengri tíma væri litið rekstrarleg hagkvæmni, meðal annars með samnýtingu sérhæfðs húsnæði, búnaðar og starfskrafta.

Skráningarstofan ehf. hefur um árabil sinnt ýmsum verkefnum á sviði bifreiðamála, einkum varðandi skráningu ökutækja, en einnig öðrum verkefnum sem ekki snúa beint að skráningu ökutækja eða skyldum þáttum. Þar má nefna umsjón með tölvumiðstöð dómsmálaráðuneytisins og sérhæfðri tölvuþjónustu vegna Schengen samstarfsins. Verkefnum þessum sinnti Skráningarstofan með stakri prýði, eins og vel kom fram í úttektum sem gerðar voru hér á landi vegna þátttöku í Schengen samstarfinu.

Umferðarráð hefur á undanförnum árum og áratugum verið leiðandi afl í baráttunni fyrir bættri umferðarmenningu og umferðaröryggi. Segja má að fræðslu og upplýsingastarfsemi hafi verið hjartað í starfseminni. Á þeim vettvangi og öðrum sem undir Umferðarráð hefur fallið hefur það náð markverðum árangri í þágu aukins umferðaröryggis.

Að mínu mati er það mikilvægt fyrir umferðaröryggi í landinu að ákveðið var að sameina krafta þessara tveggja öflugu aðila undir einum hatti. Það er brýnt hagsmunamál okkar allra að auka umferðaröryggi og skrefið sem við stígum í dag er skýrt skref í þá átt. Innan Umferðarstofu munu starfa aðilar sem vinna að reglum um gerð og búnað ökutækja, skráningu bifreiða, rekstur tölvukerfa, umferðarfræðslu, umferðaröryggi og ökukennslu svo fátt eitt sé nefnt. Sérþekking allra þessara aðila mun því nýtast heildstætt innan stofnunarinnar og með þeim hætti efla alla þessa starfsemi og um leið umferðaröryggi. Öflug stofnun af þessu tagi verður einnig mjög vel í stakk búin til að vera stjórnvöldum og öðrum til ráðuneytis um umferðarmál og taka til dæmis þátt í því að gera tillögur að reglum er varða ökutæki og umferð á innlendum vettvangi og á vettvangi EES samstarfsins.

Þrátt fyrir að Umferðarstofa taki við verkefnum stofununarinnar Umferðarráðs og Skráningarstofunnar mun ráðið Umferðarráð áfram starfa, en með breyttri tilhögun. Umferðarráð hefur frá því að það var stofnað verið mikilvægur vettvangur allra þeirra aðila sem láta sig umferðarmál varða með einum eða öðrum hætti, og haft mörg góð einkenni grasrótarstarfs, sem er gríðarlega mikilvægt í þessum víðtæka málaflokki. Meginhlutverk þess verður áfram að beita sér fyrir auknu umferðaröryggi og bættum umferðarháttum, en jafnframt er ráð fyrir því gert að Umferðarráð verði dómsmálaráðherra til ráðgjafar um gerð umferðaröryggisáætlunar og framkvæmd hennar. Með þessu fyrirkomulagi er tryggt að sérþekking allra þeirra góðu aðila sem Umferðarráð skipa nýtist betur en áður í umferðaröryggismálum.

Það er mikil gæfa fyrir þetta verkefni að þeir tveir aðilar sem stýrt hafa Umferðarráði og Skráningarstofunni hafa ákveðið að fylgja þessu verkefni áfram. Óli H. Þórðarson, sem stýrði Umferðarráði, verður framkvæmdastjóri og jafnframt formaður Umferðarráðs með breyttu verksviði, en Karl Ragnars, sem áður stýrði Skráningarstofunni, mun taka við starfi framkvæmdastjóra Umferðarstofu og Þá hafa flestir starfsmenn beggja aðila ákveðið að helga Umferðarstofu krafta sína, og ber því sérstaklega að fagna, enda er styrkur hinnar nýju stofnunar falinn í þeim mannauði sem hér er að finna. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka öllum starfsmönnum þeirra jákvæða viðhorf til þessara breytinga.

Ég bind miklar vonir við breytta starfsemi Umferðarráðs og veit fyrir víst að Óli H. Þórðarson mun halda vel utan um verkefni ráðsins. Alþingi samþykkti síðasta vor metnaðarfulla umferðaröryggisáætlun, þar sem stefnt er að umtalsverðri fækkun banaslysa og alvarlegra umferðarslysa á næstu árum. Framkvæmdastjóri og formaður Umferðarráðs mun halda utan um það verkefni að koma umferðaröryggisáætluninni í framkvæmd, með fulltingi þeirra fjölmörgu aðila sem að því verkefni koma. Fyrir dyrum stendur að skipa framkvæmdanefnd umferðaröryggisáætlunar sem starfa mun undir einbeittri stjórn hans.

Jafnframt bind ég vonir við að Umferðarstofa muni halda vel utan um sín fjölmörgu verkefni. Á grundvelli lagabreytingarinnar í vor var sett á laggirnar sérstök verkefnisstjórn sem fékk það verkefni að undirbúa starfsemi Umferðarstofu. Lagði verkefnisstjórnin meðal annars áherslu á að mörkuð yrði skýr stefna hjá Umferðarstofu um fyrirkomulag slysaskráninga og slysarannsókna hjá stofnunni og jafnframt að áróður og fræðsla á sviði umferðaröryggismála yrði tekin til sérstakrar skoðunar. Unnar voru skýrslur um bæði þessi mál og liggur fyrir að Umferðarstofa mun þegar láta til sín taka á þessum vettvangi með afgerandi hætti. Þannig liggur fyrir sú stefna að markmið slysaskráninga og slysarannsókna Umferðarstofu verði að veita upplýsingar til þeirra sem málið varða til að draga úr tíðni alvarlegra umferðarslysa og stuðla að endurhönnun umferðarmannvirkja þegar það á við. Umferðarstofa mun á þessu sviði stefna að nánu samstarfi við lögreglu, vegagerðina, landlæknisembættið, umferðardeildir sveitarfélaga og tryggingafélög til að tryggja sem besta slysaskráningu umferðarslysa á Íslandi, og vinna auk þess í samstarfi við rannsóknarnefnd umferðarslysa og miðla til hennar upplýsingum eftir atvikum hverju sinni. Hvað varðar áróðurs- og fræðslumál þá er að því stefnt að efla með skipulegum hætti alla upplýsingamiðlun til almennings og fræðslu til leikskóla- og grunnskólabarna svo og nemenda á framhaldsskólastigi. Upplýsingamiðlun í gegnum netið verður mikilvægur vettvangur í þeirri starfsemi og margt fleira áhugavert mætti nefna í þessu sambandi.

Það er von mín og trú að þessari breytingu sem verður í dag muni verða vel tekið af almenningi í landinu. Einn athyglisverður punktur í þessu sambandi er að breytingin hefur leitt af sér lækkun á ýmsum gjöldum sem innheimt eru vegna skráningar ökutækja og fleira. Skráningarstofunni var skylt sem hlutafélagi að innheimta virðisaukaskatt af ýmsum gjöldum, en það fellur niður nú þegar þessi starfsemi er færð til ríkisstofnunar. Að teknu tilliti til þess innskatts sem Skráningarstofan gat nýtt sér leiðir þessi breyting til 15-20% lækkunar á þeim gjöldum sem áður báru virðisaukaskatt. Því má segja að þessari breytingu fylgi óvæntur og kærkominn bónus.

Eins og ég nefndi áðan er netið mikilvægur vettvangur í baráttunni fyrir auknu umferðaröryggi. Umferðarstofa mun halda úti öflugri heimasíðu á netinu sem án efa mun nýtast vel í þeirra verkefnum. Um leið og ég opna formlega heimasíðu Umferðarstofu og að sjálfsögðu stofnunina sjálfa óska ég starfsmönnum Umferðarstofu, ráðsmönnum í Umferðarráði og landsmönnum öllum til hamingju með þennan merka áfanga.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta