Kosningaeftirlit í Bosníu
Nr. 098
FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu
frá utanríkisráðuneytinu
Þingkosningar og kosningar til forsætisráðs Bosníu-Hersegóvínu fara fram laugardaginn 5. október næstkomandi og mun utanríkisráðuneytið senda þrjá Íslendinga til kosningaeftirlits á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) sem hefur eftirlit með kosningunum. Þeir eru Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, alþingismaður, Ástríður Sif Erlingsdóttir, forstöðumaður rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands og Emil Breki Hreggviðsson, varafastafulltrúi Íslands hjá ÖSE. Um 300 alþjóðlegir eftirlitsmenn á vegum ÖSE munu hafa eftirlit með kosningunum. Þátttaka Íslands í kosningaeftirlitinu er liður í auknu framlagi utanríkisráðuneytisins til uppbyggingar- og friðarstarfs á Balkanskaga, sem fram fer á vegum ÖSE, Sameinuðu þjóðanna og NATO.
Nánari upplýsingar um þingkosningarnar í Bosníu-Hersegóvínu má finna á heimasíðu ÖSE á slóðinni www.osce.org
Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 1. október 2002