Stækkun griðlands rjúpu við höfuðborgarsvæðið til 2007
2. október, 2002
Umhverfisráðuneytið hefur gefið út breytingu á reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum sem stækkar griðland rjúpu umhverfis Höfuðborgarsvæðið fram til ársins 2007. Breytingin er hluti af fjölþættum aðgerðum sem nú eru í undirbúningi á vegum ráðuneytisins til þess að draga úr veiðiálagi á rjúpnastofninn meðan hann er í lágmarki. Aðgerðirnar taka mið af tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Ráðgjafarnefndar um villt dýr. Með þessari breytingu stækkar griðland rjúpunnar verulega og markast nú í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan Soginu og Ölfusá til sjávar.
Allar rjúpnaveiðar eru bannaðar innan ofangreinds svæðis, sem afmarkað er á meðfylgjandi korti, fram til ársins 2007.
Reglugerðin ásamt korti af svæðinu.
Fréttatilkynning nr. 21/2002
Umhverfisráðuneytið