Hoppa yfir valmynd
4. október 2002 Matvælaráðuneytið

100 ára afmæli Alþjóðahafrannsóknaráðsins.

Í dag hélt Alþjóðahafrannsóknaráðið (International Council for the Exploration of the Sea, ICES) upp á 100 ára afmæli sitt, en ráðið var stofnað í júní 1902 af nokkrum Evrópuþjóðum og var af því tilefni undirrituð yfirlýsing aðildarþjóðanna um framtíðastefnumótun.

Tilefni stofnunar Alþjóðahafrannsóknaráðsins var slæmt ástand fiskistofna í Norðursjó og þörfin fyrir samstarf þjóða um rannsóknir og ráðgjöf um skynsamlega nýtingu þeirra. Í dag eru 19 lönd við Norður Atlantshaf aðilar að ráðinu og starfa vel á annað þúsund vísindamenn í Evrópu og Norður Ameríku innan vébanda þess í nálægt 100 sérfræðinefndum sem fjalla um vistkerfi hafsins, nýtingu þess og verndun. Ráðið er þannig vettvangur umræðu og framþróunar fræða á sviði hafvísinda og fiskifræði, auk þess sem ráðið hefur með höndum ráðgjöf um umhverfi hafsins og nýtingu fiskistofna á Norður Atlantshafi. M.a. gerir ráðið tillögur um hámarksafla á nokkrum fiskistofnum við Ísland og gegnir lykilhlutverki við ráðgjöf um nýtingu stofna sem eru nýttir sameiginlega með öðrum þjóðum.

Ísland gerðist aðili að Alþjóðahafrannsóknaráðinu árið 1938 og hefur ávallt verið virkur aðili í starfsemi þess. Fjöldi íslenskra vísindamanna á sviði hafvísinda hefur frá upphafi tekið þátt í störfum nefnda á vegum ráðsins, m.a. var Árni Friðriksson, framkvæmdastjóri þess árin 1954-1964 og Jakob Jakobsson forseti þess árin 1988-1991. Fulltrúar Íslands í stjórn ráðsins eru Ólafur S. Ástþórsson og Jóhann Sigurjónsson, sem er jafnframt einn af varaforsetum þess.

Yfirlýsingin staðfestir upphaflega skuldbindingu aðildarlandanna og kveður á um nauðsyn þess að aðildarþjóðirnar efli samstarfið á komandi árum og mæti sameiginlega nýjum kröfum um eflingu vísindastarfs sem treystir grundvöll hlutlausrar og áreiðanlegrar ráðgjafar. Lýst er yfir stuðningi við framkvæmdaáætlun ráðsins fyrir næstu árin, lögð áhersla á þróun gæðakerfis í fiskveiðiráðgjöf, virkri notkun gagna frá atvinnugreininni og vistkerfisnálgun við rannsóknir á ástandi fiskistofna.

Helgi Ágústsson, sendiherra undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands.

Sjávarútvegsráðuneytið
Reykjavík 4. okt. 2002




"The Copenhagen Declaration on future ICES Strategy" er að finna á heimasíðu ICES: www.ices.dk

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum