Hoppa yfir valmynd
4. október 2002 Matvælaráðuneytið

Nýskipan vísinda- og tæknimála á Íslandi

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra


Ávarp á kynningarfundi um nýskipan
vísinda- og tæknimála á Íslandi


Ágætu fundarmenn.

Senn líður að því að frumvörpin þrjú er tengjast Vísinda- og tækniráði komi til umfjöllunar á Alþingi í annað sinn. Tíminn frá því í vor hefur verið notaður til að fara yfir þær athugasemdir sem fram komu í tengslum við nefndarstörf þingsins sl. vor og þær athugasemdir sem bæst hafa við síðan. Ég get óhikað sagt að ég er ánægð með að tími hefur gefist til að fara betur ofan í einstök atriði málsins, enda finn ég að nú er orðin víðtækari sátt um þessa nýskipan en áður var.

Af þeim athugasemdum sem fram hafa komið ber nokkuð á að ekki eru allir sammála um skipan í ráð og stjórnir og er sammerkt með þessum athugasemdum að öllum finnst að nokkuð sé hallað á sinn hlut. Einnig hefur ítrekað verið bent á að í fyrirliggjandi frumvörpum sé ekki tryggt fé í Tækniþróunarsjóðinn sem á að bera uppi tækniþróunina og nýsköpunina á sambærilegan hátt og Rannsóknarsjóður styður vísindasamfélagið. Um þetta atriði vil ég aðeins segja að frumvörpin þrjú sem hér eru til umræðu fjalla eingöngu um skipulagsbreytingar á umhverfi opinbers stuðnings við vísindi, tækniþróun og nýsköpun. Stefnumótun Vísinda- og tækniráðsins mun aftur á móti verða ráðandi um hversu mikið fé fæst til málaflokksins í heild sinni og hvernig deilingu þess fjár verður háttað til þess að hrinda þeirri stefnu í framkvæmd. Ég tel að ef vel tekst til með störf Vísinda- og tækniráðsins þá megi gera ráð fyrir að heildarfjárveiting til málaflokksins vaxi frá því sem nú er.

Varðandi þær breytingar sem gerðar hafa verið frá því í vor er sennilega mikilvægast að hlutverk Rannís, sem nú heitir Rannsóknamiðstöð Íslands, hefur verið stórlega eflt og verður Rannís nú einskonar samnefnari málaflokksins. Rannís mun gegna mikilvægu hlutverki fyrir tækniþróunina og nýsköpunarþátt málsins en hafði enga aðkomu að honum áður. Þannig mun Rannís annast vörslu, umsýslu og rekstur Tækniþróunarsjóðs á sama hátt og Rannsóknasjóðs. Einnig mun Rannís taka að sér veigamikið hlutverk er lýtur að því að fylgjast með stöðu og þróun nýsköpunar atvinnulífsins og fylgst verður með stöðu og þróun vísindasamfélagsins.

Í mínum huga er tilkoma Vísinda- og tækniráðsins stærsta tækifærið sem boðist hefur til þess að sýna fram á mikilvægi vísindarannsókna og nýsköpunar fyrir atvinnulífið. Fjárveitingar til málaflokksins hafa um margra ára skeið einkennst af stöðnun og áhugaleysi um að endurskoða hið viðtekna fyrirkomulag. Þessi nýskipan getur breytt þessu enda mun það leiða til samræmdrar stefnumótunar og veita nýjum fræðasviðum brautargengi, langt umfram það sem unnt hefur verið hingað til.

Mér er það ljóst að þótt þessi þrjú frumvörp verði að öllum líkum að lögum í vetur þá mótar það aðeins upphaf á langri vegferð okkar saman. Við erum hér aðeins að fjalla um ytra skipulag málaflokksins, en það verður starfið sjálft sem framundan er sem ákveður hversu farsællega okkur tekst til. Er kemur að framkvæmdinni er brýnt að gæta samráðs við sem flesta, enda eiga miklu fleiri hagsmuna að gæta en þeir sem aðkomu eiga að Vísinda- og tækniráðinu. Ég þykist vita að menntamálaráðherra sé mér sammála um þetta og munu ráðuneytin því sameiginlega gæta þessa, er að framkvæmdinni kemur.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta