Hoppa yfir valmynd
8. október 2002 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Dagur íslenskrar tungu 16. nóvember 2002

Ágæti viðtakandi

Allt frá árinu 1996 hefur verið efnt til margháttaðra viðburða á degi íslenskrar tungu, 16. nóvember, fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Nú líður að þessari skemmtilegu tilbreytingu í þjóðlífinu í sjöunda sinn.

Áhugi skóla, stofnana, fjölmiðla og almennings á því að helga þennan dag rækt við íslenskt mál hefur aukist ár frá ári og er óhætt að segja að dagur íslenskrar tungu virðist hafa náð fótfestu í íslensku samfélagi.

Fjölmargir og ólíkir viðburðir hafa verið skipulagðir undanfarin ár á þessum degi eða dagana þar í kring með sérstöku átaki í þágu íslenskrar tungu.

Skólar, bókasöfn, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök o.fl. hafa nýtt margar og ólíkar leiðir til að sinna íslensku sérstaklega á degi íslenskrar tungu, ýmist á sjálfum deginum 16. nóvember eða um það leyti undir merkjum dagsins. Má þar nefna handritasýningar, upplestrarkeppni, ljóðalestur, smásagnagerð, lestur úr nýjum og gömlum barnabókum, tónlistarflutning þar sem sungið er aðeins á íslensku o.m.fl.

Af viðburðum, sem þegar er vitað um nú í ár, má nefna að menntamálaráðherra mun, eins og undanfarin ár, afhenda Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og jafnframt tvær aðrar viðurkenningar. Íslensk málnefnd efnir til Málræktarþings 16. nóvember þar sem yfirskriftin verður "Hver tekur við keflinu? Samhengið í íslenskri tungu".

Hér með er hvatt til þess að nú, eins og undanfarin ár, hugi skólar, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar að því að nota 16. nóvember eða dagana þar í kring til að hafa íslenskuna í öndvegi enn frekar en endranær. Enda þótt sjálfan dag íslenskrar tungu, 16. nóvember,  beri í ár upp á laugardag er ástæða til að árétta að skólar og stofnanir geta allt eins skipulagt viðburði undir merkjum dags íslenskrar tungu dagana á undan eða eftir 16. nóvember.

Menntamálaráðuneytið hefur í ár falið Íslenskri málstöð að annast ýmsa verkþætti í tengslum við viðburði á degi íslenskrar tungu. Viðtakendum þessa bréfs er velkomið að hafa samband við málstöðina [email protected], s. 552 8530 eða menntamálaráðuneytið [email protected] ef spurningar vakna í þessu sambandi. Einnig væri ánægjulegt að heyra frá sem flestum um það hvað stendur til að gera í tilefni dagsins. Heimasíða dags íslenskrar tungu er: http://mrn.stjr.is/mrn/dit/.

 

Með vinsemd og virðingu

F.h. menntamálaráðuneytis

F.h. Íslenskrar málstöðvar

___________________________

___________________________

Guðni Olgeirsson

Ari Páll Kristinsson








Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta